Leita í fréttum mbl.is

Af flokksaga og sannfæringu þingmanna

Margir láta gjarnan að því liggja að hjá ríkisstjórnarflokkunum ríki mikill flokksagi,
sem gangi svo langt að mönnum sé ekki lengur frjálst að taka afstöðu til mála út frá sinni eigin sannfæringu. Eitt helsta dæmið sem menn nefna því til staðfestingar er ákvörðun þingflokks Framsóknarflokksins um að sniðganga Kristin H. Gunnarsson við kjör á fulltrúum í nefndir Alþingis. Sumir gengu svo langt að tala um að gengið væri á stjórnarskrárvarinn rétt Kristins sem Alþingismanns og aðgerðin jafngildi brottvikningu hans úr þingflokknum – og jafnvel úr flokknum. Menn hafa bent á það í þessu samhengi að Alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína.

Það er vissulega rétt sem menn hafa bent á að ,,Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum” eins og segir í 48. grein Stjórnarskrárinnar. En er Framsóknarflokkurinn með ákvörðun sinni að ganga á þennan stjórnarskrárbundna rétt Kristins, eða jafnvel að hindra hann í að efna þá skyldu sem í ákvæðinu felst?

Við skulum hafa hugfast að seta á Alþingi er eitt en seta í þingnefndum er allt annað. Alþingismenn eru kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára í senn.
Þar hafa allir kosningabærir menn í landinu atkvæðisrétt sbr. nánari skilyrði í 33. gr. stjórnarskrárinnar. Kjör þingnefnda fer fram með allt öðrum hætti. Um það gilda lög 55/1991 um þingsköp Alþingis. Samkvæmt þeim kemur það í hlut Alþingismanna að kjósa fulltrúa sína til setu í fastanefndum þingsins, á fyrsta fundi hvers þings.
Sú venja hefur myndast að þingflokkar komi sér saman um fulltrúa í nefndirnar.
Eðli málsins samkvæmt velur hver þingflokkur þá fulltrúa sína í þingnefndir sem þeir treysta best fyrir starfinu. Það er því fráleitt að tala um að með því að kjósa ekki tiltekinn þingmann í nefndir fyrir sína hönd sé þingflokkur að ganga á stjórnarskrárvarin rétt viðkomandi þingmanns.

Vitað er að Kristinn hefur haft aðrar skoðanir en samstarfsmenn hans í þingflokknum á mikilvægum málum. Hvort sú staðreynd átti sinn þátt í ákvörðun þingflokksins er ekki hægt að segja til um með vissu. Eins og áður sagði velja þingflokkar þá fulltrúa sem þeir treysta best fyrir starfinu og það er kjarni málsins. Fram hefur komið hjá formanni þingflokks Framsóknarflokksins að trúnaðarbrestur hafi orðið milli þingflokksins og umrædds þingmanns. Það skiptir ekki máli fyrir okkur sem fyrir utan stöndum,
í hverju sá trúnaðarbrestur er fólginn.

Menn skipa sér saman í stjórnmálaflokka til að berjast fyrir ákveðnum stefnumálum, skoðunum og hugsjónum. Menn kjósa að vinna að þeim í sameiningu fremur en einir síns liðs, til að ná betri árangri. Flokkarnir velja svo sína framboðslista og menn hljóta þingsæti eins og gengur. Þá taka hinir kjörnu fulltrúar til við að vinna stefnumálunum brautargengi. Mikilvægur þáttur í því að slíkt starf sé skilvirkt er að þeim sé frjálst að velja til trúnaðarstarfa innan þingsins þá einstaklinga sem þeir treysta. Sé málum þannig háttað að þingmenn flokksins treysta Kristni ekki lengur til að sitja fyrir sína hönd í þingnefndum ber þeim að kjósa í nefndirnar samkvæmt þeirri sannfæringu sinni.
Það er alfarið mál þingflokksins hverja þeir velja fyrir sína hönd til trúnaðarstarfa.

Eftir stendur að þingmenn eru í störfum sínum eingöngu bundnir við sína sannfæringu. Maður skyldi ætla að sú sannfæring færi alla jafna, í veigamiklum atriðum saman við stefnu þess flokks sem þeir velja að starfa fyrir. Svo virðist þó ekki alltaf vera.

Þorsteinn Magnússon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband