Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 4. apríl 2005

Eins og kunnugt er ákvað Auðun Georg Ólafsson að afþakka stöðu fréttastjóra Ríkisútvarpsins eftir mikla andstöðu úr röðum fréttamanna þess. Verð ég að segja að mér þykja fréttamennirnir hafa gengið frekar langt í andstöðu sinni við ráðningu Auðunar. Hafa sumir talað um eins konar einelti í því sambandi. Annars er alveg rétt að það ráðningarkerfi sem við líði er hjá Ríkisútvarpinu er úrelt og út í hött að pólitískt skipaðir fulltrúar komi þar að málum. Hins vegar breytir það ekki því að þetta er það ráðningakerfi sem er við líði og sem væntanlega allir fréttamenn stofnunarinnar hafa t.a.m. meira eða minna verið ráðnir eftir eins og fram kom t.a.m. í Kastljósinu sl. fimmtudagskvöld.

Ef meintar pólitískar ráðningar hjá Ríkisútvarpinu eru það sem fer fyrir brjóstið á fréttamönnum stofnunarinnar þá er furðulegt að þeir hafi aðeins beint spjótum sínum gegn ráðningu Auðunar Georgs. Hafi hann verið ráðinn á pólitískum forsendum er alveg klárt mál að hann er ekki einn um það. Það eru án efa ófáir einstaklingar starfandi hjá Ríkisútvarpinu sem mætti skoða að sama skapi fyrst ástæða þótti til að gera athugasemd við ráðningu Auðunar. En ég veit ekki til þess að fréttamenn Ríkisútvarpsins ætli ekki að beita sér gegn öðrum meintum pólitískum ráðningum innan stofnunarinnar.

En sem fyrr segir þá er auðvitað ráðningarferlið hjá Ríkisútvarpinu algerlega óásættanlegt og það má auðvitað lengi deila um það hvort Auðun Georg hafi verið hæfasti umsækjandinn um fréttastjórastöðuna. Sennilega láta menn þó af þeim vangaveltum núna þegar hann hefur afþakkað stöðuna. Það má annars minna á það í lokin að réttast væri auðvitað bara að einkavæða Ríkisútvarpið. Aldrei er góð vísa of oft kveðin.

---

Skoðanakönnun Gallup, sem birt var í vikunni, sýndi að meirihluti kjósenda styðji nú ríkisstjórnina eða 51%. Sjálfstæðisflokkurinn kemur vel út úr könnuninni með 38% fylgi sem er 4% meira fylgi en í Alþingiskosningunum 2003. Framsóknarflokkurinn mælist hins vegar aðeins með 12% sem er 6% undir kjörfylgi. Samfylkingin dalar um 3% síðan í síðustu könnun Gallup og um 2% miðað við kjörfylgi. Nánar má lesa um þetta á Mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband