Leita í fréttum mbl.is

Hringavitleysa Samfylkingarinnar í varnarmálum

Á flokkstjórnarfundi hjá Samfylkingunni fyrir skemmstu tilkynnti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaþingmaður flokksins og formaður svokallaðs Framtíðarhóps innan hans, um hugmyndir hópsins í varnarmálum. Megininntak þeirra voru að Íslendingar ættu að taka við umsjón með vörnum landsins og taka við herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Það er aldeilis verið að finna upp hjólið þarna, maður hefur auðvitað aldrei heyrt minnzt á slíkar hugmyndir áður. Eins og flestir vita, sem eitthvað vita um þessi mál, þá er svo langt frá því að þarna sé um einhverjar nýjar hugmyndir að ræða. Þetta hefur allt verið rætt áður meira eða minna.

Þannig hafa ýmsir aðilar, ekki sízt innan Sjálfstæðisflokksins, með reglulegu millibili lagt til að við Íslendingar tækjum sjálfir við vörnum landsins á undanförnum árum. Viðkvæði Samfylkingarinnar, og annarra flokka á vinstrivængnum í gegnum tíðina,
hafa jafnan verið á þá leið að gera lítið úr þeim hugmyndum á alla lund. En nú er annað uppi á teningnum. Nú hefur Samfylkingin sjálf sem sagt tekið slíkar hugmyndir upp á sína arma og kynnt þær með pompi og prakti eins og verið sé að finna hjólið upp eða um sé að ræða einhvern þaðan af stórkostlegri atburð. Annars er auðvitað bara hið
bezta mál að Samfylkingin sé þar með að mörgu leyti búin að taka undir hugmyndir margra hægrimanna í þessum efnum.

Raunar eru þetta ekki fyrstu tillögur Ingibjargar Sólrúnar og Framtíðarhópsins hennar þegar kemur að varnarmálum. Einungis í byrjun þessa árs voru allt aðrar hugmyndir
uppi á borðinu hjá henni og hópnum. Þá lagði hún til að við Íslendingar semdum við Evrópusambandið um að sjá um varnir landsins. Þær hugmyndir féllu þó fljótlega algerlega um sig sjálfar og skildu menn raunar ekki hvað verið væri að blanda Evrópusambandinu inn í málið þar sem öll helztu herveldin innan sambandsins eru í NATO þar sem við erum jú aðilar. Ef semja ætti við eitt eða fleiri Evrópuríki í þessum efnum væri auðvitað eðlilegast að það væri gert á forsendum NATO frekar en nokkurn tímann Evrópusambandsins.

Ekki batnaði staðan svo fyrir Ingibjörgu og hugmyndir Framtíðarhópsins hennar þegar Pieter C. Feith, fulltrúi á varnarmálaskrifstofu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kom hingað til lands í febrúar sl. og gerði mönnum ljóst að sambandið væri engan veginn í stakk búið til að sjá um varnir Íslands. Evrópusambandið væri að koma sér hersveitum til að bregðast við einstökum deilum eða árásum en ekki til að sinna varanlegum landvörnum.
Til þess hefði sambandið einfaldlega ekki bolmagn ólíkt NATO.

Og nú er Ingibjörg og Framtíðarhópurinn hennar sem sagt komin með nýjar hugmyndir um það hvernig standa skuli að varnarmálunum, hugmyndir sem aftur geta að megininntaki engan veginn talizt nýjar.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband