Mánudagur, 13. júní 2005
Mánudagspósturinn 13. júní 2005
Ruglið í kringum hinar nýju höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur heldur áfram. Ekki er nóg með að kostnaðurinn við bygginguna sjálfa hafi farið langt fram úr öllum áætlunum heldur var upplýst fyrir helgina að kostnaður vegna frágangs lóðarinnar við hana væri nú áætlaður um 300 milljónir króna en átti upphaflega að vera vel innan við 100 milljónir! Endanlegar kostnaðartölur liggja þó ekki enn fyrir að sögn forsvarsmanna Orkuveitunnar þannig að kostnaðurinn gæti hæglega orðið mun meiri. Þá alveg sérstaklega í ljósi þess hvernig aðilar á vegum R-listans halda venjulega á málum þegar fjármunir borgarbúa eru annars vegar. Þar stenzt sjaldan neitt og endar oftar en ekki í margföldum þeim kostnaðartölum sem gert var ráð fyrir í byrjun og því vart að furða að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar hafi aldrei verið eins slæm og í dag.
Tilraunir forsvarsmanna Orkuveitunnar til að réttlæta þetta ótrúlega bruðl hafa síðan verið fyrir neðan allar hellur og raunar rúmlega það. Í tilkynningu frá þeim vegna málsins var m.a. sagt að kostnaðurinn hafi farið eitthvað fram úr áætlun. Það segir kannski sitt um fjármálastjórn R-listans þegar 200 milljónir af skattfé borgarbúa eru kallaðar eitthvað. Síðan er stærð lóðarinnar undir höfuðstöðvarnar nefnd til sögunnar sem afsökun fyrir framúrkeyslunni. Gallinn við þetta er auðvitað sá að lóðin hefur ekkert breytzt og var alveg jafn stór þegar gert var ráð fyrir innan við 100 milljónum í frágang hennar eins og í dag. Hvað breyttist? Það var a.m.k. svo sannarlega ekki lóðin og fyrir vikið kemur stærð hennar því auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut við hvers vegna kostnaður við frágang hennar hefur hlaupið upp úr öllu valdi.
Síðan segir í tilkynningunni að Orkuveitan hafi það að stefnu sinni að mannvirki hennar séu fyrirtækinu og íbúum höfuðborgarsvæðisins til sóma og lóðir séu snyrtilegar og vel hirtar. Persónulega finnast mér reyndar höfuðstöðvar Orkuveitunnar með eindæmum ljótar en látum það liggja á milli hluta. Ég held að ekki ætti nú að vera vandkvæðum bundið að ganga með sómasamlegum hætti frá umræddri lóð í kringum höfuðstöðvarnar fyrir um 100 milljónir króna og auk þess held ég að íbúar höfuðborgarsvæðisins myndu frekar vilja sjá mismuninn notaðan í að lækka orkureikninga þeirra í stað þess að þurfa að horfa upp á að þeim sé eytt í enn eitt gæluverkefni Alfreðs Þorsteinssonar.
---
Leiðtogar átta helztu iðnríkja heims ákváðu að fella niður um 2.600 milljarða króna skuldir fátækustu ríkja Afríku við lánastofnanir á borð við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Vil ég í því sambandi benda á afar góðan pistil á Vefþjóðviljanum um þá ákvörðun. Tek ég heils hugar undir þá skoðun Vefþjóðviljans að slíkar ráðstafanir dugi skammt einar og sér og varla það. Eina raunverulega og varanlega lausnin á vanda Afríkuríkja í þessum efnum er vitanlega sú að komið verði á nauðsynlegum stjórnarfarslegum og efnahagslegum umbótum innan þeirra svo tryggt sé að þau lendi ekki í sömu hljólförunum á ný innan fárra ára. Niðurfellingar skulda og aðrar hliðstæðar lekavarnir eru einfaldlega engar lausnir nema samhliða þeim fari fram nauðsynlegar umbætur á efnahags- og stjórnkerfi þessara ríkja.
---
Stjórnmálakreppan í Evrópusambandinu heldur áfram og liggur við að hægt sé að fá eins margar útgáfur af því hvert framhaldið verði varðandi fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins eins og forystumennirnir innan þess eru margir. Sumir vilja halda staðfestingarferlinu á stjórnarskránni áfram eins og ekkert hafi í skorizt og hunza þannig í raun þá lýðræðislegu ákvörðun Hollendinga og Frakka að hafna henni í nýafstöðnum þjóðaratkvæðagreiðslum. Aðrir vilja að látið sé staðar numið á meðan ákveðið verði hvert framhaldið verði. Hvert það verður mun sennilega fyrst skýrast á fundi leiðtoga Evrópusambandsins á næstunni þar sem sameiginleg stefna verður væntanlega mótuð í þessum málum. Hins vegar verða að teljast allar líkur á því að reynt verði að fara í kringum vilja Frakka og Hollendinga og annarra aðildarríkja sambandsins sem hugsanlega eiga eftir að hafna stjórnarskránni líka. Spurningin er bara hvernig það verður gert og hversu mikið af innihaldi stjórnarskrárinnar tekizt verður að koma í gagnið.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004