Föstudagur, 10. júní 2005
Umræða um skipulagsmál – kosningamálið í borginni
Nú þegar ár er til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík blasir við að skipulagsmálin muni verða aðalmál kosningabaráttunnar. Enginn vafi leikur á því að ferskar hugmyndir sjálfstæðismanna varðandi byggð á eyjunum við borgina og markviss sýn til næstu áratuga í þeim efnum hafi leitt umræðuna á nýtt plan. Það er enda engin furða að borgarfulltrúum R-listans hafi sviðið það mjög að hafa misst frumkvæðið og aflið í umræðunni frá sér. R-listinn hefur núna stjórnað borginni í ellefu ár, sem er vissulega mjög langur tími. Hvað stendur eftir í málefnum borgarinnar skipulagslega séð eftir þrjú kjörtímabil R-listans? Ekki er það mikið. Staðan er þannig að mörg verkefni standa eftir óleyst og margt í því sem skiptir máli er í hreinu klúðri. Eins og við höfum séð af atburðarás undanfarinna vikna innan R-listans veitir ekki af að hvíla það gegnumsýrða og útúrþreytta valdabandalag vinstrimanna.
Ljóst er að það hefur hrist upp í stöðunni að sjálfstæðismenn hafi lagt til að byggð verði ný hverfi á eyjunum við borgina: í Akurey, Viðey, Engey og Örfirisey auk Geldinganess. Borgarstjórnarflokkurinn opnaði kosningabaráttu sína á ferskum valkosti í skipulagsmálum og komu með nýjar hugmyndir sem opna víðtæka og krefjandi umræðu um hvernig haga eigi málum á komandi árum í borginni varðandi framtíðarskipulag byggðar. Í gær hélt borgarstjórnarflokkurinn svo íbúaþing um tillögur sínar. Þar var fólki gefið tækifæri til að koma með sínar hugmyndir og ábendingar á tillögurnar í málefnavinnu sem þar fór fram. Þetta vinnuferli sjálfstæðismanna er þeim mjög til sóma. Með þessu gefst fólki hinum almenna kjósanda færi á að segja sínar skoðanir og vera aktívir þátttakendur í að móta aðra og heilsteyptari borgarmynd skapa betri borg. Er alveg ljóst að fara þarf nýjar leiðir í skipulagsmálum sem fleiri málaflokkum á komandi árum.
Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil hefur skilað nægum verkefnum og fjölda úrlausnarefna sem þarf að leysa. Þeir sem kynna sér skipulagsmálin sjá ekkert nema ókláruð verkefni og áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Þessari vinnu sjálfstæðismanna, vinnu að betri borg, lýkur ekki með þessu íbúaþingi - öðru nær. Framundan eru fleiri íbúaþing, fundir um skipulagsmálin í öllum hverfum borgarinnar, á næstu mánuðum. Er gott að Sjálfstæðisflokkurinn fer þessa leið við að vinna málin. Enda er ekki furða að R-listinn sé í fýlu með stöðu mála. Nú koma borgarfulltrúar R-listans svo fram einn af öðrum í fjölmiðla þessa dagana til að svara tillögum sjálfstæðismanna - ferskum hugmyndum inn í nýja tíma. Og hverjar eru lausnir R-listans? Engar í heildina. Það kemur einn borgarfulltrúinn með eina tillögu, annar með aðra og svona koll af kolli. R-listinn er ekki samhentur í skipulagsmálunum.
Það eru algjörar bútasaumslausnir á öllum stigum, forysta vinstrimanna í Reykjavík hefur skilað af sér nægum verkefnum sem R-listinn hefur ekki verið bógur að leysa. Í vikunni kom Stefán Jón svo fram algjörlega að því er virtist prívat og persónulega fram með hugmyndir um byggð í Vatnsmýrinni. Lagði hann að auki til hringveg um miðborgarsvæðið með tengingu frá Vatnsmýrarbyggðinni yfir á Álftanes. Það hefur nú komið fram í fjölmiðlum að þetta var bara skoðun Stefáns Jóns, þetta er ekki tillaga R-listans. R-listinn eftir ellefu ára valdasetu og forystu í skipulagsmálum borgarinnar allan þann tíma er ekki samhentur og þar liggur vandinn í málinu. Skipta þarf um áherslur og fólk í forystu málaflokksins. Það vantar nýja sýn - ferska sýn til framtíðar. Sú sýn er í tillögum sjálfstæðismanna í skipulagsmálunum. Allavega er þar tekið frumkvæði í nýjar áttir og opnað á umræðu um mikilvægar hliðar skipulagsmálanna.
Eftir stendur þó í annars spennandi og markvissum tillögum eitt stórt og mikið gap í skipulagsmálum borgarinnar. Það er auðvitað Vatnsmýrin, vettvangur innanlandsflugsins. Þar verður að mínu mati einn helsti meginátapunktur væntanlegra borgarstjórnarkosninga í skipulagsmálum. Það blasir alveg við að umræðan mun verða öflug um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni. Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn tjái stefnu sína af krafti í þeim málum. Eins og flestir vita (og ég lýsti í ítarlegum pistli hér þann 22. apríl sl.) vil ég að áfram verði flugvöllur innan borgarmarkanna. Hvernig hefur R-listinn unnið þetta mál seinustu árin? Þeir sem kynna sér stöðu þess hljóta að spyrja sig um hversu marga hringi einn sveitarstjórnarmeirihluti getur farið án þess að höktast frá því skakkur. R-listinn hefur tekið marga kippi og snúninga í þessu máli. Er reyndar svo að erfitt er að fylgjast með öllu ferli þess í þeirra nafni.
Frægt varð þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og fyrrum borgarstjóri, festi völlinn í sessi árið 1999 til ársins 2016. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar var ákveðið að borgarbúar myndu ganga að kjörborðinu og segja sitt álit. Undanfarin ár hafa svo borgarfulltrúar R-listans boðað að flugvöllurinn eigi að fara í nánustu framtíð. Á sama tíma vinnur Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og fyrrum formaður skipulagsnefndar borgarinnar, að því ásamt samgönguráðherra að því að til komi samgöngumiðstöð í borginni sem gerir ráð fyrir nýrri flugstöð samhliða því. Samkomulag þessa efnis var undirritað fyrr á þessu ári. Fól það samkomulag í sér að gera úttekt á flugvellinum í Vatnsmýrinni sem grunn að því að ákveða örlög hans. Nú hefur verið svo skipuð nefnd til að vinna grunnvinnu að úttektinni sem vinnast skal af óháðum aðilum. Eftir sem áður er stefnt að samgöngumiðstöðinni á Vatnsmýrarsvæðinu.
Stefnir svo meirihluti borgarstjórnar nú að alþjóðlegri samkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar: án þess að vita hvort þar verði flugvöllur eður ei. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með þessu ferli. Merkilegt er að meirihluti borgarstjórnar geti ekki bara talað hreint út. Vill hann flugvöll áfram í Reykjavík eða ekki. Við höfum séð af tillögum Stefáns Jóns að hann vill völlinn burtu, borgarstjóri hefur talað fyrir því og líka hefur það heyrst frá Degi Eggertssyni formanni skipulagsnefndar. En á sama tíma og þau tala fyrir breytingum á fyrrnefnd samgöngumiðstöð að rísa sem hlýtur að festa flugvöllinn í sessi. Það blasir eiginlega við. Annars er undarlegt að R-listinn geti ekki bara talað hreint út um þessi mál. Nú blasir við að Háskólinn í Reykjavík hyggur á að byggja nýtt aðsetur sitt við jaðar flugvallarins og Öskjuhlíðarinnar. Eftir standa ártölin 2016 og 2024 sem endapunktar flugvallar en ekki er tekið af skarið, málið velkist alltaf í nefndum. Þetta ferli allt er langvinnt og kostulegt fyrir þennan borgarstjórnarmeirihluta.
Í þessum efnum er talað er um flugvöllinn leiðist mér þegar menn eru að tala um þetta sem grunn hvort hann sé í Vatnsmýrinni. Það er að sjálfu sér aukaatriði að mínu mati. Grunnpunktur af minni hálfu er eins og fyrr segir að hann sé á höfuðborgarsvæðinu. Ef flugvöllur á að fara úr Vatnsmýrinni verða Reykvíkingar að standa undir hlutverki sínu og tryggja grundvöll innanlandsflugsins áfram á öðrum stað innan borgarmarkanna. Það að leggja af miðstöð innanlandsflugs í Reykjavík mun þýða grundvallarbreytingu á samgönguháttum landsins og með því er kallað á uppstokkun á öðrum þáttum sem sameiginlega hafa verið byggðir upp af öllum landsmönnum. Það er því ljóst að verði þessi samgöngumiðstöð lögð af á höfuðborgarsvæðinu í þeirri mynd sem við þekkjum hana nú, þurfi og sé vart hjá því komist að skilgreina að nýju bæði verkefni og ekki síður þjónustuhlutverk höfuðborgar Íslendinga. Það er algjörlega einfalt í mínum huga.
En allt er þetta grundvöllur umræðu um málið í heildinni á komandi mánuðum. Þar verða án vafa skiptar skoðanir, ólíkar áherslur og stefnumótun í þá átt að skapa borgarmynd næstu ára og áratuga. Það er því enginn vafi á því í mínum huga að skipulagsmálin verða meginþema næstu kosninga, sá málaflokkur sem mestu mun skipta og tekist verður á um ólíka sýn til framtíðar. Það höfum séð seinustu daga, sé mið tekið af umræðunni í borgarstjórn og sá kippur sem hefur komið í pólitíska umræðu um málaflokkinn eftir kynningu sjálfstæðismanna á tillögum sínum. Í grunninn verður kosið um það hvort borgarbúar vilja marka nýja sýn til framtíðar í skipulagsmálum og kjósa breytingar í forystu sinni á næsta kjörtímabili eða halda áfram sömu braut og verið hefur undanfarin ellefu ár undir forystu valdabræðings vinstrimanna.
Grunnpunktur kosningabaráttunnar er mikilvægi þess að Reykvíkingar velji hugmyndir sem leiði til breytinga leggja grunninn að betri borg. Sú framtíðarsýn sem hentar best í þá átt er hjá Sjálfstæðisflokknum.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004