Leita í fréttum mbl.is

Why bother? Determinants of tournout in the European elections

European Union of Soviet Socialist Republics?

Nú þegar Evrópusambandið er að vaxa og þróast í áttina að „sameinaðri” Evrópu er ekki úr vegi að menn velti fyrir sér kosningahegðun og kosningaþáttöku þeirra íbúa sem þar búa. Frá því að Rómarsáttmálinn var undirritaður hefur Evrópusambandið verið að stækka og telur nú 25 lönd. (voru fimmtán lengi vel). En þó svo að ákveðnir stjórnmálamenn og öfl einbeiti sér að því að Evrópa verði sambandsríki er ekki þar með sagt að allir íbúar Evrópu fylgi þeim fast á eftir í skoðunum og deili með þeim þessum vilja. Fjarri fer því. Dæmi um mikla andstöðu innan „mikilvægra” Evrópulanda sjáum við í auknum mæli t.d. hjá almenningi í Bretlandi og stjórnvöldum á Ítalíu. En gott og vel. Þessi greinagerð fjallar ekki um tilvist Evrópusambandsins og ekki stendur til að koma með rök með eða á móti því sem sambandið stendur fyrir. Hérna verður skoðuð kosningahegðun íbúa sambandsins og aðallega miðað við þingkosningarnar til Evrópuþingsin 1999.

Mikko Mattila (stjórnmálafræði, Háskólanum í Helsinki) rannsakaði kosningaþátttöku fimmtán (þá allra) ríkja árið 1999. Hann bar þátttöku í þeim kosningum saman við þátttöku í kosningum áður og bar upp ýmsar kenningar um það af hverju kosningaþátttakan var eins og raun bar vitni og hvað mætti gera til að bæta hana. Rannsókn hans byggir bæði á tölulegum staðreyndum og fyrri rannsóknum. Hann veltir fyrir sér ýmsum kenningum um kosningahegðun Evrópubúa og reynir að finna þær breytur sem valda því af hverju fólk kýs eða kýs ekki.

Léleg kosningaþátttaka
Ekki er til nein ein skýring á því af hverju kosningaþátttaka til Evrópuþings er ekki meiri en raun ber vitni. Hægt er að telja til nokkrar ástæður þess að fólk gefur sér ekki tíma til að mæta á kjörstað og nýta sér „réttindi” sín til að kjósa. Sumir myndu telja að menn ættu að nýta sér það að geta haft áhrif á gang mála. En í framhaldi af þeirri hugsun vaknar auðvitað upp sú spurning um það hvort að fólki finnist það vera að hafa einhver áhrif á gang mála í Evrópu og ESB með því að kjósa.

Allar tölur sýna að því ,,nær” sem kosningar eru því meiri er kosningaþátttaka, sbr. að kosningaþáttaka er meiri í sveitastjórnarkosningum en Alþingiskosningum á Íslandi. Þannig er hægt að draga upp þá kenningu að fólki finnist það ekki vera að hafa raunveruleg áhrif á gang mála á Evrópuþinginu með því að fara og kjósa. [T.d. mætti rökstyðja þetta þannig að maður sem búsettur er í Þrándheimi finnst hann ekki vera að hafa áhrif á gang mála með því að kjósa frambjóðenda frá Osló á þing Evrópusambandsins. Innsk. Höfundar – gfv.]

Það er auðvitað erfitt að gefa sér það að fólki „finnist” það ekki vera að hafa áhrif eins og í áðurnefndu dæmi. Það eru innanlandsstjórnir aðildaríkjanna sem taka ákvarðanir um skatta og innanríkismál og því er óljóst hvaða ímynd íbúar Evrópu hafa af Evrópuþingi og enn óljósara er hvaða kröfur þeir gera til þingsins almennt. (Rétt er að taka fram að það er ekki hægt að gefa sér hvað fólk hugsar í rannsóknum sem þessu. Þetta er hins vegar alveg rökrétt sjónarmið. Bara ekki hægt að flokka sem háða breytu)

Verðmæti þess að kjósa…
Það er hægt að segja að það kosti eitthvað að kjósa. Fólk tekur sér tíma frá amstri dagsins og fer á kjörstað. Væntanlega hafa flestir einnig eytt einhverjum tíma í að kynna sér menn og málefni líðandi stunda. Þá koma upp hlutir eins og hvort að kosningar séu haldnar á virkum degi eða um helgi, hvort að þær séu um sumar eða um vetur og svo frv. Þetta er allt gild rök fyrir því hvort að fólk kemur á kjörstað eða ekki.

Hafa skal í huga að það eru einstaklingar sem kjósa en ekki þjóðir. Það er þess vegna erfitt að segja að einhverjir ákveðnir aðilar kjósi ekki eða eitthvað í þá áttina. Á hinn bóginn er ekki að hægt að flokka niðurstöðurnar öðruvísi en eftir þjóðum.

Ef við gefum okkur að fólk hafi nú áhuga á kosningunum, og telji í framhaldi af því að atkvæði þess skipti máli, hvað er það þá sem dregur fólk á kjörstað? Skv. rannsóknum Mattila myndi kosningaþátttaka strax aukast um 10% ef að kosningar yrðu alltaf haldnar um helgi. Fólk er upptekið á virkum dögum við vinnu, skóla og svo frv. Þetta telur Mattila að megi leysa með því að kjósa um helgi eins og áður sagði. Hann tekur málið reyndar aðeins lengra og leggur til að kosið verði á t.d. sunnudögum og mánudögum til að mæta kröfum þeirra sem vilja kjósa á virkum dögum.

Mattila gefur sér einnig að kosningaþátttaka myndi snaraukast ef fólk yrði skyldað til að kjósa. Þá erum við auðvitað komin á grátt svæði hvað varðar frelsi fólks og þarna eru kosningarnar í raun orðnar mjög ,,dýrar.” En þetta er hins vegar gert í nokkrum löndum. Þar er skylda að kjósa. Þá veltir maður samt fyrir sér hvort að fólk sé á annað borð að kjósa eftir málefnum eða hugsjónum eða hvort að það er bara að uppfylla þessu ákveðnu skyldu sem á þeim hvílir. Þó svo að fólk mæti á kjörstað af skyldu þýðir það ekki að það hafi kynnt sér menn og málefni þess sem verið er að kjósa um.

Einnig er velt upp þeirri hugmynd (án þess þó að segja hvort hún sé rétt eða röng) að halda kosningar til Evrópuþings á sama tíma og verið er að kjósa í viðkomandi landi. Það er auðvitað mjög flókið mál og nánast óframkvæmalegt. Að sjálfsögðu væri hægt að gera það í einu og einu landi en til að kosningar til Evrópuþings séu markvissar þarf líklega að kjósa á sama tíma um öll sætin sem þýðir að allar þjóðirnar þyrftu að gera það á sama tíma. Hægara sagt en gert. En Mattila veltir sér ekki mikið upp úr þessari hugmynd. Dregur hana bara upp á yfirborðið.

Tenging og tilfinning Evrópubúa við Evrópuþingið
Eins og áður kemur fram telur Mattila að í einhverjum tilfellum finni kjósendur þeir ekki geta haft áhrif á Evrópuþingið. Einnig kom áður fram að það er ekki vitað hvaða kröfu kjósendur gera til þingsins.
Hins vegar telur Mattila að kosningaþátttaka gæti aukist ef að kjósendur gætu hafa meiri áhrif á val kjörinna fulltrúa á þingið með öðrum hætti en að fara bara og kjósa. Það eru tvö atriði sem dregin eru upp.

Annars vegar væri mögulegt að hafa opna lista þar sem kjósendur gætu ekki aðeins merkt við einn lista heldur einnig fært menn til á honum og gert ,,nauðsynlegar” breytingar. Hins vegar gefur Mattila sér að það væri hægt að færa fulltrúa nær kjósendum með því að það væri ekki aðeins kosinn fulltrúi fyrir landið heldur kjósi sýslurnar/kjördæmin sér fulltrúar sem síðan fer fyrir hönd sýslunnar og landsins á Evrópuþingið. Gróft dæmi ef slíkt færi fram á Íslandi: T.d. myndi SV-land og Suðurland kjósa einn fulltrúa saman og Vestfirðir, Norðurland og Austurland kjósa sér annan. Þessi tveir yrðu síðan fulltrúar Íslands á þinginu. Þarna erum við aftur komin á Þrándheim – Osló dæmið sem minnst var í upphafi.

Mattila leggur einnig fram þá kenningu ( og byggir hana á öðrum rannsóknum) að fyrir suma skipti ESB meira máli en aðra, þ.e.a.s. það virtist mismikilvægt að kjósa og hafa áhrif frá einu landi til annars. Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu. Í löndum sem eru að koma ný inn í sambandið er kosningaþátttakan mun meiri en annarsstaðar. Þá ríkir mikill áhugi um sambandið og fólk er að öllu líkindum vel upplýst um starfssemi þess þar sem síðustu árin hefur farið fram mikil umræða í viðkomandi landi um evrópumál. Í þeim löndum sem lengi hafa verið í Evrópusambandinu virðist fólk jafnvel missa áhugann á málefnum þess og sér lítinn tilgang í að mæta á kjörstað.

Einnig er hægt að skoða hvað íbúar Evrópusambandsins telja sig vera að ,,græða” fjárhagslega á veru sinni þar. Þau lönd sem þiggja mikið frá Evrópusambandinu virðast vera með nokkuð góða kosningaþátttöku á meðan þau lönd sem borga mikið í sambandið virðast ekki hafa áhuga á að mæta á kjörstað. Það hefur einnig með það að gera hvernig tilfinningar og tengingar fólk hefur við Evrópusambandið. Áður minntist ég á að vaxandi óánægja er meðal almennings í Bretlandi með Evrópusambandið. Finnst mörgum að Bretar séu að taka á sig hluti sem þeir vilja ekki og á sama tíma borga mikla peninga í sambandið. Þetta verður til þess að hluti þjóðarinnar hunsar kosningarnar og telur þær ekki koma sér við. Menn geta svo deilt um hvort að það sé rétt eða rangt þar sem þeir sem kjósa ekki hafa ekki áhrif á gang mála.

Hvað virkar best?
Það hefur ekki verið auðvelt fyrir Mattila að taka saman upplýsingar um kosningaþátttökuna árið 1999 og vinna upp úr þeim bæði kenningar um kosningarnar og að ætla að setja fram tölur og staðreyndir um hvernig hlutirnir hefðu getað verið ef hitt og þetta hefði verið tekið með inn í reikninginn.

En hann býr til formúlur sem ,,reikna út” hvernig kosningaþátttakan var og hvernig hún hefði getað orðið betri. (hann þarf auðvitað enga formúlu til að sjá hvernig kosningarnar voru þar sem það lág fyrir. Hins vegar notað hann þær upplýsingar til að fylla upp í formúluna.

Kosningaþáttakan á fyrrnefndum kosningum er í raun háða breytan í fyrstu formúlunni sem Mattila setur upp. Þar byggir hann gruninn að formúlunni með þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum. Í raun mætti segja að þarna sé hún hrá og ekkert hafi áhrif á hana og enginn samanburður liggur við formúluna. Þess vegna segir hún okkur ekkert svo mikið nema bara það sem þegar hefur gerst.

Í annarri formúlunni bætir hann inn í formúluna staðbundnu kosningunum í hverju landi fyrir sig. Þannig er hægt að bera saman eitt ákveðið land hvernig kosningaþátttakan var í þingkosningum þess lands og hvernig hún er svo í Evrópuþingkosningunum 1999. Þá er mælikvarðinn annar og ,,heima” þingkosningarnar eru orðin háða breytan. Niðurstöðurnar úr þessari formúlu eru s.s. ekki bindandi þar sem mikill munur er á einstökum þjóðum ESB. Í sumum löndum er kosningaþátttaka alltaf lítil og en það sem kemur á óvart eru lönd eins og Svíþjóð þar sem kosningaþátttaka er oftast um og yfir 80% en í Evrópu-kosningunum var þátttakan undir 40%. Með því að fella þátttökuna í heimakosningunum inn í formúluna er komin marktækari formúla.

En ennþá er formúlan ekki fullkomlega marktæk. Kosningar geta farið fram um helgi í landi A en á virkum degi í landi B og því erfitt að bera þau lönd saman samkv. staðlaðri formúlu. Samt reynir Mattila að breyta formúlunni þannig að hægt sé að útiloka öll skekkjumörk.
Það sem við fáum mest út úr þriðju formúlunni er að með henni er hægt að vissu leyti að sjá ,,hvað hefði geta orðið” og ,,hvað gæti orðið”. Með því að skoða kosningaþátttöku í staðbundnum kosningum er nokkurn veginn hægt að spá fyrir um hvernig kosningin ætti að koma út í Evrópukosningum. Þannig byggir Mattila upp töflu sína sem birtist á bls. 465 í skýrslunni.
Kosningaþátttaka var rétt rúmlega 50% en með því að leggja upp formúluna vill Mattila meina að kosningaþátttakan gæti verið rétt yfir 60%. Skilyrðin eru að það séu opnir lista, kosið eftir héröðum og að kosið sé um helgi. Með því að skoða hvernig kosningaþátttak var t.d. um helgar er hægt að bæta því inn í formúluna og sjá fyrir um hvernig það hefði haft áhrif á heildarútkomuna. Auðveldast er að tala um Evrópusambandið í heild sinni hér heldur en að fara að útlista eina og eina þjóð.

Það eru greinilega margir hlutir sem hafa áhrif á kosningaþátttöku og mikið rannsóknarverkefni að finna út hvaða aðstæður hafa áhrif á kosningahegðun almennings. Í þessu ákveðna tilfelli eru Evrópulöndin mjög ólík hvað varðar menningu hegðun, sögu, íhaldssemi, þjóðernisgildi og svo frv. þannig að það er erfitt að setja alla undir einn hatt. Hins vegar leysir ,,formúla 3” þann vanda þar sem hægt er að setja inn hins ýmsu skilyrði inn í hana til að fá rökgilda niðurstöðu.

Kenningarnar sanna sig að nokkru leyti sjálfar og úrtakið er að sjálfssögðu allir þeir Evrópubúar sem eiga aðild að Evrópusambandinu. (þ.e.a.s. árið 1999)

En af hverju svona?
Það erfitt fyrir 1.árs stjórnmálafræðinema að ætla að gagnrýna ritgerð/skýrslu annars stjórnmálafræðings sem greinilega hefur miklu meiri reynslu og þekkingu en undirritaður. Mikko Mattila tekur sér erfitt verkefni fyrir hendur og leysir með sóma. Að sjálfsögðu er hann mikið að velta fyrir sér hlutunum sem áhrif hafa á kosningarhegðun íbúa þeirra landa sem aðild eiga að ESB.

Persónulega tel ég að það eigi vel við að fólki finnist það ekki vera að hafa áhrif á gang mála í Evrópu með því að kjósa á Evrópuþing. Þingið er að mestu áhrifalaust (þó svo að völd þessu séu smátt og smátt að aukast) og lýðræðikerfið í Evrópusambandinu hefur verið veikt hingað til. Ríkum þjóðum finnst þau borga of mikið til að ,,halda uppi” fátækari þjóðum (á meira við í dag en árið 1999 þar sem austur – Evrópu löndin hafa komið inn síðan þá) og hunsa því að miklu leyti þátttöku í störfum sambandsins. Þannig tel ég að Evrópusambandið sé orðinn leikklúbbur hinnar opinberu ,,elítu” og snýst meira orðið um skrifræði en fókusinn sem upphaflega var á að mynda tollabandalag og fríverslun er að mestu horfinn. Samt skal ég viðurkenna það eru s.s. ekki góð rök að hunsa kosningar af því að maður ,,fílar” ekki eitthvað við málið. Léleg kosningaþátttaka er alltaf svartur blettur á þjóðum sem eyddu mikilli orku í að öðlast réttinn til að kjósa.

Mattila kemur hins vegar með góðar athugasemdir um hvernig lækka megi þann þröskuld sem oft virðist vera á kosningaþátttöku. En það á alveg eins við annars staðar. Kosningaþátttaka myndi líklega minnka á Íslandi ef við myndum byrja að kjósa á miðvikudögum en ekki laugardögum ( að sama skapi myndi kosninga ,,stemningin” minnka). Fólk getur átt við lista með því að stroka út nöfn, kjörfulltrúar eru átómatískt nálægt kjósendum af því að við búum í litlu landi.

En rannsókn Mattila er áhugaverð fyrir þessar formúlur og það er gaman að sjá hvernig hægt er að ,,reikna” út hegðun manna eftir stærðfræðiformúlu.

(Ritgerð þessi var unnin sem verkefni í Samanburðarstjórnmálum - GFV)

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband