Miðvikudagur, 30. ágúst 2006
Íslenzkir sambandsríkissinnar?
Sennilega þætti fáum það fréttir ef ég segði að Evrópusamtökin vildu að Ísland gengi í Evrópusambandið. Hins vegar yrði e.t.v. eitthvað annað uppi á teningnum ef ég segði að samtökin vildu að Evrópusambandið þróaðist yfir í það að verða að sambandsríki. Það vill nefnilega svo til að Evrópusamtökin eru aðili að regnhlífarsamtökunum European Movement sem hafa höfuðstöðvar sínar í Brussel, en meginmarkmið þeirra samtaka er að stuðla að því að Evrópusambandið þróist yfir í að verða sameinað evrópskt sambandsríki ("united federal Europe") ef marka má heimasíðu þeirra Europeanmovement.org.
Reyndar skilst mér að skiptar skoðanir séu í þessum efnum innan European Movement og að þar skiptist menn einkum í tvær fylkingar. Annars vegar þá sem telja þróun Evrópusambandsins hafa gengið of langt með samþykkt Maastricht-sáttmálans árið 1992 og hins vegar sambandsríkissinnana sem vilja sjá sambandið þróast yfir í að verða að sambandsríki sambærilegu við Bandaríkin. En hvað sem líður skiptum skoðunum innan European Movement þá breytir það ekki því að meginmarkmið samtakanna er alveg skýrt.
Hver er afstaðan?
Bæði í ljósi þessa, sem og þeirrar alvarlegu pólitísku krísu sem Evrópusambandið hefur búið við síðan Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins í byrjun sumars [2005], held ég að það væri vel við hæfi að Evrópusamtökin upplýstu það hvernig þau vilji sjá þróun Evrópusambandsins í framtíðinni. Eru samtökin hlynnt því meginmarkmiði European Movement að þróa eigi sambandið yfir í að verða að einu ríki? Eða fylla þau þann flokk innan samtakanna sem telja það Evrópusamband, sem við stöndum frammi fyrir í dag, vera komið út fyrir æskileg mörk? Einnig væri fróðlegt að vita hvort Evrópusamtökin séu því fylgjandi að fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins nái fram að ganga? Sem notabene er engan veginn tímabært að afskrifa, þá ekki sízt í ljósi þeirrar staðreyndar að stofnanir sambandsins eru þegar fyrir margt löngu byrjaðar að innleiða stóra hluta stjórnarskrárinnar þrátt fyrir að hún hafi ekki enn náð fram að ganga hvort sem sú verður síðan raunin eða ekki. Það er því alveg eins víst að hún taki gildi fyrr en síðar með einhverjum hætti og enn ljósara að litlar líkur eru á því að þau vinnubrögð sem notuð verða til þess verði lýðræðisleg.
Vaxtarverkir unglings?
Nái stjórnarskrá Evrópusambandsins sem slík fram að ganga mun hún klárlega verða hornsteinninn í því evrópska stórríki sem marga Evrópusambandssinna dreymir um. Það þarf ekki annað en að lesa upphafskafla hennar til gera sér grein fyrir því hvert stefnt er. Spurningin er bara hvort forystumenn Evrópusamtakanna dreymir sama draum. Formaður samtakanna sagði í grein í Morgunblaðinu 28. júní sl. [2005] að líkja mætti þeirri pólitísku krísu sem Evrópusambandið stæði frammi fyrir í dag við vaxtarverki unglings sem væri að breytast í fullorðna manneskju. Maður spyr sig því óneitanlega að því í hvað sambandið eigi nákvæmlega að breytast að mati formannsins? Eitt ríki kannski? Það er allavega vandséð að Evrópusambandið geti tekið aðra stefnu verði mikið meiri samruni innan þess en orðinn er. Sambandið er í dag a.m.k. miklu nær því að vera einhvers konar sambandsríki en nokkurn tímann alþjóðastofnun. Og nái stjórnarskráin fram að ganga er alveg ljóst að þar með verður Evrópusambandið orðið að ríki enda mun tilkoma hennar þýða að sambandið verður komið með svo að segja öll einkenni ríkis samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum. Er þetta það sem formaður Evrópusamtakanna á við með þeirri fullorðnu manneskju sem hann sér fyrir sér að Evrópusambandið breytist í?
Sambandsríkissinnar
Að þessu sögðu verður að teljast afar ólíklegt að Evrópusamtökin séu þeirrar skoðunar að þróun Evrópusambandsins hafi gengið of langt. Raunar verða orð formanns samtakanna ekki skilin öðruvísi en svo að hann telji að þróun sambandsins sé einmitt komin of skammt á veg. Spurningin er bara hvernig Evrópusamtökin sjái fyrir sér þróun Evrópusambandsins í framtíðinni eins og áður segir. Í ljósi ummæla formanns samtakanna, sem og veru þeirra í regnhlífarsamtökum evrópskra sambandsríkissinna, liggur beinast við að draga þá ályktun að Evrópusamtökin séu samtök þeirra Íslendinga sem vilji sjá Evrópusambandið breytast í sambandsríki og Ísland verða hluta af því. Ég leyfi mér hins vegar að efast stórlega um að meirihluti landsmanna sé tilbúinn að skrifa upp á þá ömurlegu framtíðarsýn.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 8. september 2005. Því má bæta við að engin svör hafa enn borizt frá Evrópusamtökunum við þeim spurningum sem fram koma í greininni.)
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 22:17 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004