Miðvikudagur, 23. ágúst 2006
Spennandi kosningar framundan
Komandi kosningar gætu orðið mjög spennandi. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig fylgi stjórnmálaflokkanna mun þróast eftir því sem nær dregur kosningunum. Framsókn teflir fram nýjum formanni sem á eftir að sýna hvað í honum býr - eða býr ekki. Það á eftir að koma í ljós hvort ný forysta flokksins á eftir að höfða frekar til kjósenda en sú gamla. Hvað sem öðru líður verður allavega seint sagt að Halldór Ásgrímsson hafi haft mikinn kjörþokka þannig allt er mögulegt þó ekki nema fyrir það að honum hafi verið skipt út. Svo verður jú alltaf að gera ráð fyrir þeim möguleika að Framsókn taki góðan endasprett rétt fyrir kosningar eins og gjarnan hefur verið raunin.
Samfylkingin hefur náð nýjum lægðum í fylgi samkvæmt skoðanakönnun Gallups sem birt var á föstudaginn og er nú í aðeins 22% fylgi. Það þarf að fara aftur í apríl 2002 til að finna jafn slaka útkomu hjá flokknum í könnunum fyrirtækisins. Það var greinilega hræðilegt axarskaft hjá samfylkingarfólki að skipta Össuri Skarphéðinssyni út fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Ingibjörg átti að auka stórlega fylgi Samfylkingarinnar, en hefur þess í stað sennilega skaðað flokkinn meira en nokkur annar. Allt getur þó vitanlega enn gerzt í þeim efnum eins og öðru en það ber að hafa í huga að Samfylkingin hefur haft tilhneigingu til að hegða sér hliðstætt og Sjálfstæðisflokkurinn, þ.e. að fá nokkuð minna í kosningum en í skoðanakönnunum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú verið með fylgi um og yfir 40% síðan í september á síðasta ári. Mest hefur fylgið farið í 44% en gjarnan verið í 42-43%. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi þróun helst áfram fram að kosningum og vona ég svo sannarlega að sú verði raunin.
Vinstri-grænir hafa tilhneigingu til að toppa á vitlausum tímum í skoðanakönnunum. Mælast gjarnan með mikið fylgi á miðju kjörtímabili eða allt þar til kosningabaráttan fer í gang og enda svo í fáeinum prósentum. Að mínu mati eiga Vinstri-grænir og Samfylkingin við andstæð vandamál að stríða. Vinstri-grænir hafa nokkuð skýra stefnu á flestum sviðum (allavega miðað við Samfylkinguna) og þeir hafa sömuleiðis ágætan leiðtoga. Samfylkinguna skortir hins vegar bæði. Stefnan er út og suður, ef hún er þá einhver, og leiðtogaskorturinn er vægast sagt tilfinnanlegur sem og viðvarandi.
Vandi Vinstri-grænna er að stefna þeirra er í flestum tilfellum jaðarstefna sem gera má ráð fyrir að höfði nær eingöngu til þröngs hóps á vinstri væng stjórnmálanna. Stefna þeirra mun sennilega seint höfða til fjöldans nema þá kannski ef allt færi bókstaflega norður og niður í efnahagsmálum og helmingur þjóðarinnar yrði atvinnulaus eða eitthvað þvíumlíkt. Líkt og gerðist í Þýzkalandi í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar. Við einhverjar slíkar aðstæður ná öfgafullar jaðarstefnur helzt árangri. Það veltur þó vitaskuld allt á vinstri-grænum hvernig þeir halda á málum hvernig fylgi þeirra þróast á næstu mánuðum.
Ég spái því annars að lokum Frjálslyndi flokkurinn nái inn í mesta lagi tveimur mönnum og jafnvel bara einum - ef einhverjum. Það er þó vissulega full snemmt að segja mikið til um það á þessari stundu. Helzti dragbítur flokksins er að mínu mati sá að hann hefur alls enga sérstöðu og er enn að reyna að festa sig í sessi í íslenzkum stjórnmálum. Hver er t.d. munurinn á frjálslyndum og Samfylkingunni? Nákvæmlega! Hinn helzti dragbíturinn er aftur bezti vinur íhaldsins, Magnús Þór Hafsteinsson.
Þetta verður án efa fróðlegur vetur og fróðlegar kosningar næsta vor. Ég hlakka til!
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Meginflokkur: Stjórnmál - almennt | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 22:21 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004