Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 26. júní 2006

Maður hefur eiginlega vanizt því að hvað sem hægt væri að segja um Vinstri-græna þá mættu þeir eiga það að vera allajafna sjálfum sér samkvæmir. M.ö.o. að þeir snerust ekki í endalausa hringi í umfjöllunum sínum um menn og málefni eins og ósjaldan mætti halda að væri skilyrði fyrir inngöngu í Samfylkinguna. Það vekur því óneitanlega nokkra athygli þegar maður verður var við slíka Samfylkingartakta hjá Vinstri-grænum svo ekki sé talað um í tilfelli manna sem teljast til aðalhugmyndafræðinga Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs.

Eftirfarandi lokaorð reit Sverrir Jakobsson, sagnfræðingur, á vefritið Múrinn.is á dögunum í grein um varnarmálin: "Saga "varnarsamningsins" svokallaða og þátttöku Íslands í NATO hefur nú í sex áratugi einkennst af því að stjórnvöld hafa farið sínu fram í trássi við almannavilja. [...] Af þeim sökum verður forvitnilegt að sjá hvort stjórnvöld ætla sér að sniðganga almannaviljann enn einu sinni í þessu máli. Hefur lýðræðisvitund Íslendinga ekki aukist frá því á 20. öldinni? Geta stjórnvöld endalaust rekið utanríkisstefnu sem nýtur ekki meirihlutastuðnings? Næstu misseri verða prófsteinn á stöðu lýðræðis á Íslandi. Til mikils er að vinna að þjóðin falli ekki enn einu sinni á því prófi."

Tilefni greinar Sverris er skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar, en niðurstöður hennar benda til þess að tæp 54% Íslendinga séu frekar eða mjög hlynnt því að varnarsamningnum við Bandaríkin verði sagt upp (rúm 68% sé aðeins tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu). Þetta þykja Sverri greinilega mikil tíðindi þó staðreyndin sé sú að kjósi menn að skoða málið af yfirvegun ættu þessar niðurstöður sízt að koma á óvart. Það er ekki lengra síðan en 2003 að Gallup gerði skoðanakönnun þar sem mikill meirihluti landsmanna lýsti sig hlynntan því að áfram yrði bandarískur her á Íslandi eða 65%, 77% ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu eins og Sverrir gagnrýnir bæði Ríkisútvarpið og Morgunblaðið fyrir að gera ekki í umfjöllunum sínum um könnun Helga. Sérstaka athygli vekur raunar að rúmur þriðjungur kjósenda Vinstri-grænna sagðist fylgjandi áframhaldandi veru bandaríska hersins hér á landi.

Í sömu skoðanakönnun Gallups sögðust 71% landsmanna vera hlynnt áframhaldandi veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu (NATO), rúm 83% ef aðeins er litið til þeirra sem afstöðu tóku. Könnunin er í samræmi við fyrri könnun Gallups um sama efni frá árinu 2001. Það er því einkennilegt að sjá Sverri velta því fyrir sér hvort stjórnvöld ætli sér "að sniðganga almannaviljann enn einu sinni í þessu máli". Niðurstöður könnunarinnar, sem Gallup vann fyrir Helga Hjörvar, eru því fullkomlega skiljanlegar í ljósi þess að stöðugt hefur verið haldið að fólki, og þá einkum og sér í lagi undanfarna mánuði, að varnarsamningurinn við Bandaríkin byggist á því einu að hér sé bandarískur her. Fyrst Bandaríkjamenn séu á förum sé tilgangurinn með samningnum enginn. Langur vegur er þó frá þessu eins og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fjallaði t.d. um í fróðlegri grein í nýjasta tölublaði tímaritsins Þjóðmála sem m.a. má verða sér úti um í vefverzlun Andríkis.

Það er einfaldlega ekki hægt að túlka þau gögn, sem fyrir liggja í málinu, öðruvísi en svo að mikill meirihluti íslenzks almennings styðji bæði áframhaldandi veru bandarísks herliðs hér á landi sem og aðild Ísland að Atlantshafsbandalaginu. En vegna þess áróðurs, og í einhverjum tilfellum vanþekkingar, að varnarsamningurinn sé einskis virði sé hér ekki bandarískur her er fullkomlega skiljanlegt að margir telji þar með lítinn tilgang í því að viðhalda honum. Það er því vægast sagt furðulegt að sjá Sverri skammast út í stjórnvöld fyrir að reka utanríkisstefnu í trássi við vilja íslenzks almennings, enda mun nær að segja að það sé einmitt hans eigin flokkur, Vinstrihreyfingin - grænt framboð, sem sé í engu sambandi við almenning í þessum efnum.

Þess utan, fyrir utan það hversu furðulegt það sjónarmið er að ætlast til þess að dansað sé eftir skoðanakönnunum við stjórn landsins, þá er í bezta falli óábyrgt að leggja slíkt til þegar skoðanakönnun, eins og sú sem Helgi Hjörvar lét gera, er annars vegar sem gerð er þegar mikil óvissa er uppi í viðkomandi málaflokki. Þetta væri hliðstætt og ef gerð væri skoðanakönnun um það í miðri óöld eins og þeirri sem átti sér stað í úthverfum Parísar og annarra franskra borga í nóvember á síðasta ári, þar sem innflytjendagengi gengu berserksgang og kveiktu í bifreiðum og byggingum, hvort draga ætti úr straumi innflytjenda til landsins. Ég efa stórlega að Sverri þætti rétt að taka of mikið mark á slíkri könnun og hvað þá að byggja á henni róttæka stjórnvaldsákvörðun. Vitaskuld er rétt að bíða þar til línurnar fara að skýrast, rykið fer að setjast og menn fara að slappa aðeins af áður en teknar eru slíkar ákvarðanir, rétt eins og þá ákvörðun hvort segja eigi upp varnarsamningnum við Bandaríkin eða ekki.

En eins og komið er inn á í byrjun hafa Vinstri-grænir ekki verið þekktir til þessa fyrir að dansa eftir niðurstöðum skoðanakannana og hvað þá að hvetja stjórnvöld til að gera slíkt við mótun stefnu sinnar hvort sem um er að ræða utanríkismál eða aðra málaflokka. Enda hafa slíkar niðurstöður ríka tilhneigingu til að breytast á milli kannana. Það er því nokkuð sérstætt að heyra mann, sem titlaður hefur verið einn af hugmyndafræðingum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, hvetja til einmitt þess. Honum væri nær að hlusta á formann sinn, Steingrím J. Sigfússon, sem hefur eftir því sem ég bezt veit ávallt látið hafa það sama eftir sér þegar fjölmiðlamenn hafa borið undir hann niðurstöður skoðanakannana um fylgi stjórnmálaflokkanna, þ.e. að ekki ber að taka slíkar kannanir of alvarlega þar sem þær eru fyrst og fremst einungis vísbendingar um stöðuna á ákveðnum tímapunkti sem er auðvitað hárrétt hjá honum.

Það er annars íhugunarefni að lokum hvort Sverrir telji að stjórnvöld eigi aðeins að dansa eftir skoðanakönnunum í utanríkismálum, öllum málaflokkum eða bara þegar honum og hans skoðunum hentar? Má t.d. búast við því að væri Sverrir og flokkur hans við völd í landinu að barist yrði fyrir því að sala bjórs og léttvíns yrði leyfð í matvöruverzlunum í samræmi við vilja 59% landsmanna (rúmlega 65% sé aðeins horft til þeirra sem tóku afstöðu) samkvæmt skoðanakönnun Gallups frá því í febrúar á síðasta ári (2005)? Sverrir myndi varla vilja gerast sekur um það að reka stefnu í því sambandi "sem nýtur ekki meirihlutastuðnings"? Er það nokkuð?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband