Mánudagur, 29. maí 2006
Mánudagspósturinn 29. maí 2006
Úrslit borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík eru næst bezta niðurstaða sem við sjálfstæðismenn gátum vonazt eftir. Fyrst ekki náðist hreinn meirihluti, eins og að var stefnt, var æskilegt að annað fylgi dreifðist sem mest á hina flokkana eins og raunin varð. Það þýddi, eins og margir bentu á, að sjálfstæðismenn voru í lykilhlutverki hvað varðaði myndun nýs meirihluta í borgarstjórn og gátu samið við öll hin framboðin með tilliti til fylgis. Hinn möguleikinn, að hin framboðin fjögur tækju sig saman um myndun meirihluta, þótti fáum ákjósanlegur kostur sem skiljanlegt er.
Sjálfstæðismenn hafa annars náð samkomulagi við framsóknarmenn um myndun nýs meirihluta. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson mun verða borgarstjóri og Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna, formaður borgarráðs. Þetta ætti að verða til þess að styrkja stöðu Björns Inga verulega innan Framsóknarflokksins og auka mjög möguleika hans sem framtíðarleiðtoga þar á bæ - þ.e. að því gefnu auðvitað að flokkurinn eigi einhverja framtíð fyrir sér.
Sjálfstæðismenn ræddu sem kunnugt er fyrst við Frjálslynda flokkinn sem var að mörgu leyti eðlilegasti fyrsti kostur þar sem flokkarnir tveir voru í minnihluta á síðasta kjörtímabili. Þær viðræður runnu þó út í sandinn og þá einkum vegna flugvallarmálsins, en frjálslyndir munu ekki hafa viljað hvika frá þeirri stefnu sinni að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Eitthvað sem að vissu leyti má virða.
Hins vegar hefur flugvallarmálið þannig orkað nokkuð tvímælis fyrir frjálslynda. Án nokkurs vafa má rekja stóran hluta af fylgisaukningu þeirra í kosningunum til stefnu þeirra í málinu. Eins og kunnugt er tókst þeim þó ekki að tryggja sér tvo borgarfulltrúa eins og að var stefnt. Á hinn bóginn mun afstaða þeirra hafa dæmt þá til áframhaldandi veru í minnihluta.
Helzti ókosturinn við samstarf við framsóknarmenn eru tengsl þeirra við R-listann heitinn. Það má þó hugga sig við það að Alfreð Þorsteinsson skuli ekki lengur vera oddviti þeirra í Reykjavík. Sama hefði átt við um Samfylkinguna og alls ekki síður. Eini kosturinn við samstarf við hana hefði verið sterkur meirihluti hvað varðar fjölda borgarfulltrúa. Annað ekki. Helzti kosturinn við samstarfið við framsóknarmenn er líkar áherzlur sem hefur sýnt sig í skjótum viðræðum í dag.
En hvað með Vinstri-græna? Fyrir utan R-lista tengslin er sósíalismi, jú, alltaf sósíalismi. Helzti kosturinn við samstarf við Vinstri-græna hefði verið sá að það hefði styrkt stöðu þeirra og þannig rennt enn frekari stoðum undir varanlega skiptingu vinstrivængsins í íslenzkum stjórnmálum í a.m.k. tvo flokka.
Að sama skapi hefði samstarf við frjálslynda vafalítið styrkt þá í sessi sem væri á hinn bóginn ókostur fyrir hagsmuni Sjálfstæðisflokksins, enda má fastlega gera ráð fyrir að stór hluti, og jafnvel stærstur hluti, fylgis frjálslyndra hefði annars fylgt sjálfstæðismönnum að málum.
---
Það er annars furðulegt að hlusta á Ólaf F. Magnússon, oddvita frjálslyndra í Reykjavík, kvarta sáran yfir því að Vilhjálmur Þ. skuli hafa hætt viðræðum við hann í dag og tilkynnt honum það ekki fyrr en klukkutíma eftir að þeir höfðu mælt sér mót. Eins og kunnugt er hætti Ólafur sjálfur viðræðum við R-listaflokkana í gær og hafði þá ekki einu sinni fyrir því að afboða sig á fund sem hann hafði boðað komu sína á. Lét bara ekki sjá sig og lét hvorki kóng né prest vita. Þess í stað hóf hann viðræður við sjálfstæðismenn sem hann hafði frumkvæði að.
En þetta er út af fyrir sig ekkert nýtt, þ.e. að tveir mælikvarðar séu í gangi hjá frjálslyndum. Þeir mótmæltu því t.a.m. harðlega þegar Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður, sagði skilið við þá og gekk í raðir sjálfstæðismanna á síðasta ári. Kröfðust þeir þess að hann segði af sér þingmennsku á þeim forsendum að Frjálslyndi flokkurinn ætti þingsætið en ekki hann. Sama fólk sá hins vegar ekkert að því í lok árs 2001 að Ólafur F. skyldi ganga úr röðum sjálfstæðismanna og til liðs við frjálslynda en halda engu að síður áfram að gegna embætti borgarfulltrúa fram að borgarstjórnarkosningunum 2002.
---
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og fleira samfylkingarfólk talaði um að þó niðurstaðan í Reykjavík væru vonbrigði þá héldi flokkurinn samt sínum fjórum fulltrúum. Hvaða fjórum fulltrúum? Jú, þessum tveimur sem Samfylkingin hafði formlega og svo hina tvo sem opinberlega voru sagðir óháðir en allir vissu að styddu flokkinn.
Óháði stimpillinn var einungis hugsaður til að reyna að gera R-listann á sínum tíma seljanlegri, m.ö.o. til að blekkja kjósendur, sem ekki vildu taka afstöðu með neinum einum flokki umfram aðra, til að telja sig eiga samleið með R-listanum sem óháðir kjósendur sem kysu óháða frambjóðendur. Sama á við um aðra sem hafa farið þessa leið í kosningum, hvort sem það á við um Vinstri-græna eða frjálslynda. Þess utan er auðvitað ekkert til sem heitir óháðir frambjóðendur, a.m.k. ekki sem hengja sig utan í aðra flokka.
---
Það er að verða orðið ansi þreytt vælið í framsóknarmönnum að allir séu vondir við þá. Þetta jókst stórlega eftir að þeir tóku við forsætisráðuneytinu og Halldór Ásgrímsson tók við sem forsætisráðherra og þar með helzti talsmaður ríkisstjórnarinnar út á við. Því starfi hefur hefur sem fyrr fylgt að svara alls kyns gagnrýni á störf hennar, bæði sem átt hefur rétt á sér en klárlega oftar sem enginn fótur hefur verið fyrir.
Þetta hlutverk fórum við sjálfstæðismenn með í rúm 13 ár án slíks væls og þrátt fyrir að hafa t.a.m. misst talsvert fylgi í þingkosningunum 2003 á meðan framsóknarmenn héldu sínu. Framsóknarmenn hafa nú haft forsætisráðuneytið í minna en tvö ár og hafa svo að segja allan þann tíma vælt yfir því að þeir einir verði að taka á sig gagnrýni á ríkisstjórnina.
---
Og að síðustu. Eina svarið sem samfylkingarfólk virðist hafa, þegar minnzt er á að tilraunin til að sameina allra vinstrimenn á Íslandi í einn flokk (þessi sem kallaðist Samfylkingin) hafi mistekizt, er að Samfylkingin sé hlutfallslega stærsti jafnaðarmannaflokkur á Norðurlöndunum. Það má vel vera en hvað kemur það málinu við? Hvers vegna getur fólk ekki bara gengizt við þeirri staðreynd að þessi tilraun mistókst algerlega?
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Meginflokkur: Mánudagspósturinn | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 22:49 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004