Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 8. maí 2006

„Hinn sameiginlegi gjaldmiðill felur í sér mesta afsal á fullveldi frá því að Efnahagsbandalagið var sett á laggirnar. Um er að ræða ákvörðun sem er fyrst og fremst pólitísks eðlis. Við þörfnumst þessarar sameiginlegu Evrópu. Við megum aldrei gleyma því að evran er verkfæri í þágu þess verkefnis.“ Þessi ummæli lét Felipe Gonzales, fyrrv. forsætisráðherra Spánar, falla í maímánuði árið 1998 og mælti þar með á sömu nótum og ófáir forystumenn innan Evrópusambandsins hafa gert á undanförnum árum.

Tilkoma evrunnar var fyrst og fremst hugsuð sem stórt samrunaskref innan Evrópusambandsins. Tilgangurinn var öðru fremur pólitískur en ekki efnahagslegur, þ.e. að knýja enn frekar á pólitískan samruna innan Evrópusambandsins. Fyrir vikið kemur sennilega fáum á óvart að virtir hagfræðingar hafi á undanförnum árum í síauknum mæli lýst miklum efasemdum um að evrusvæðið eigi framtíð fyrir sér, svæði sem samanstendur af hagkerfum sem eru mörg hver afar ólík í grundvallaratriðum.

Fyrir fáeinum dögum lýsti Paul de Grauwe, hagfræðiprófessor við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu, þeirri skoðun sinni við AP-fréttastofuna að evrusvæðið muni líða undir lok innan 10 til 20 ára ef ekki komi til aukinn samruni innan Evrópusambandsins. Þetta mat byggir hann á ítarlegri rannsókn sinni. De Grauwe, sem sjálfur er mikill evrusinni, benti á að ekkert myntbandalag í sögunni hefur lifað af án pólitísks samruna (þ.e. einnar ríkisheildar).

Í grein í franska dagblaðinu Les Echos í marz sl. varaði Bradford Delong, prófessor í hagfræði við Berkeley-háskóla í Kaliforníu, við því að evran væri sífellt að stuðla að meiri vandamálum í efnahagslífi evruríkjanna og ef ekki kæmi til nauðsynlegra umbóta gæti evrusvæðið hreinlega hrunið.

Þann 26. janúar sl. lýsti Frits Bolkestein, fyrrverandi yfirmaður innri markaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, efasemdum sínum um að evran ætti framtíð fyrir sér til lengri tíma litið. Þetta kom fram í ræðu sem hann hélt á fundi í London með hollenskum fyrirtækjastjórnendum. Sagðist hann telja að evran myndi standa frammi fyrir mikilli prófraun eftir um áratug þegar líklegt væri að ýmis aðildarríki Evrópusambandsins stæðu frammi fyrir því að þurfa að standa undir langtum meiri lífeyrisskuldbindingum en til þessa vegna hækkandi meðalaldurs íbúa þeirra.

HSBC bankinn í London, sá annar stærsti í heiminum, gaf út í ítarlega skýrslu í júlí á síðasta ári þar sem kemur fram að reynslan af evrusvæðinu sé svo slæm að það gæti verið sumum af aðildarríkjum þess í hag að yfirgefa það og taka upp sína fyrri sjálfstæðu gjaldmiðla á ný. Það sem einkum veldur þessu að mati bankans er miðstýring Seðlabanka Evrópusambandsins á stýrivöxtum innan evrusvæðisins sem henti engan veginn öllum aðildarríkjum þess. Þetta hafi leitt af sér ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir ríkin og gert þeim erfitt fyrir að hafa eðlilega stjórn á hagkerfum sínum.

Í apríl á síðasta ári kom út skýrsla frá bandaríska fjárfestingabankanum Morgan Stanley þar sem sagði m.a. að evran stæði frammi fyrir „banvænni“ þróun sem gæti haft í för með sér endalok evrusvæðisins. Fjármálamarkaðir væru í auknum mæli farnir að hafa áhyggjur af t.a.m. vaxandi verndarhyggju í Þýzkalandi, brestum í fjármálastjórn Evrópusambandsins (þá einkum vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að fá Frakka og Þjóðverja til að standa við stöðugleikasáttmála evrusvæðisins) og áhrifa stækkunar evrusvæðisins til austurs sem þýði að enn ólíkari hagkerfi muni verða þar innanborðs.

Að síðustu mætti nefna að í viðtali við fréttavefinn Euobserver í maí 2004 lýsti bandaríski hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman þeirri skoðun sinni að sterkar líkur séu á því að evrusvæðið kunni að hrynja innan fárra ára. Sagðist hann fyrst og fremst hafa áhyggjur af þeim erfiðleikum sem það hefði í för með sér að viðhalda myntbandalagi á milli ríkja með jafn ólík efnahagskerfi, menningu og tungumál og á við um evrusvæðið. Sagðist hann ennfremur telja að vandamál af þessum toga muni aukast við það að ný aðildarríki Evrópusambandsins taki upp evruna. Lagði Friedman til að fyrri gjaldmiðlar evruríkjanna yrðu teknir upp aftur.

Það er því kannski ekki að furða að margir hafi efasemdir um evruna. Fyrir utan allt annað er einkennilegt í ljósi slíkra framtíðarspáa að sumir skuli leggja það til að tekin verði upp evra hér á landi í stað íslenzku krónunnar. Ef Ísland gengur í Evrópusambandið og tekur upp evruna verður ekki aftur snúið. Eins og staðan er í dag er einfaldlega ekki gert ráð fyrir því að ríki segi skilið við sambandið. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að þau ríki, sem einu sinni gangi í það, verði þar um aldur og ævi.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband