Leita í fréttum mbl.is

Fjölmiðlalög

Þarf sérstök lög um fjölmiðla framar en önnur fyrirtæki? Til hvers? Hér er til umræðu hvort eigendur fjölmiðla eigi að ráða ritstjórnarstefnu miðla sinna. Hægt er að finna bæði rök með og á móti því að eigendur fjölmiðlanna ritstýri þeim sjálfir.

Það er auðveldara að byrja á því að vera á móti. Það virðist vera pólitísk rétthugsun að halda það að fjölmiðlar geti ritstýrt sér sjálfir burtséð frá því hverjir eigendurnir eru. Meira að segja eru til stjórnmálamenn sem hafa lagt það til í umræðunni að hér beri að setja lög sem tryggja eigi sjálfstæði ritstjórnar miðlanna. [1] Til að byrja með verðum við þó að líta frá því hvernig við teljum að íslenskir fjölmiðlar hagi sér í nútímanum.

Fyrir nokkrum mánuðum lét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar eftirfarandi orð falla um Morgunblaðið,

,,Enginn annar fjölmiðill á Íslandi hefur jafn afgerandi stefnu og Morgunblaðið og beitir sér með jafn grímulausum hætti gegn einum tilteknum stjórnmálaflokki. ... Enginn fjölmiðill er því jafn hræsnisfullur og Morgunblaðið er í skrifum sínum um samtvinnun fjölmiðlavalds og samfélagsvalds.” [2]

Ef fjölmiðlar eiga að vera skilgreindir sem fjórða valdið er varla ætlast il þess að þeir séu hlutdrægir. Fjölmiðlar eru að marga mati fulltrúar almennings gagnvart stjórnvöldum og halda uppi aðhaldi og gagnrýni á stjórnvöld. Það er hin pólitíska rétthugsun sem áður var minnst á.

Þegar fjölmiðlar taka afstöðu í málum eru þeir oftar en ekki sakaðir um að brjóta hlutleysi sitt. Nú er það reyndar misjafnt hversu hlutlausir fjölmiðlarnir segjast vera. Morgunblaðið til að mynda hefur aldrei sagt að það sé óháð (sem virðist vera tískuorð án merkingar) á meðan Blaðið segir á forsíðu sinni hvern einasta dag að það sé óháð. Slagorð DV var til ársins 2003, Frjálst og óháð dagblað.

En þá er það spurningin, óháð hverju eða hverjum? Óháð stjórnmálaflokkum? Óháð sérhagsmunahópum? Óháð eigendum? Því er erfitt að svara og jafnvel hægt að segja að enginn fjölmiðill sé óháður neinum. Fjölmiðill er alltaf háður einhverjum, þó ekki sé nema eigin starfsfólki. Flestir starfsmenn íslenskra fjölmiðla segjast vera hlutlausir. [3]

Önnur rök sem mæla á móti því að eigendur ritstýri fjölmiðlum sínum eru ef fjölmiðlar eiga að vera fulltrúi almennings (fjórða valdið) þá gengur það ekki upp að eigendurnir einir hafi mikil eða öll áhrif á ritstjórnarstefnu miðilsins. Af hverju? Jú, ef fjölmiðlar ætla að gæta hagsmuna almennings þá er ekki eðlilegt að eigendurnir (ritstjórnar-stefnan) séu hlutdrægir með eða á móti stjórnvöldum. Hvernig getur fámenn ritstjórn vitað hvað almenningi er fyrir bestu? Það er ekki hægt að ætlast til þess að þingheimur viti alltaf hvað almenningi er fyrir bestu og hvað þá að ennþá fámennari hópur sem kallar sig ritstjórn fjölmiðils geri það.

Þannig að ef að fólk vill líta þannig á að fjölmiðlar séu fjórða valdið og beri að gæta hagsmuna almennings þá er ekki rétt að ritstjórnarstefnan sé mótuð af eigendunum. Stjórnmálamenn þurfa að mynda heildarstefnu í þessum málum (eða láta það eiga sig að gagnrýna fjölmiðla) en ekki láta einstaka mál eða fjölmiðil fara í taugarnar á sér og saka þá um hlutdrægni.

Umræða á meðal stjórnmálamanna um hlutdrægni eða hlutleysi fjölmiðla mun aðeins ganga í hringi því að ef hægt er að benda á einn fjölmiðill sem er með stjórnvöldum er hægt að benda annan sem er á móti. Slík umræða mun aðeins leiða af sér skoðanaskipti líðandi stundar en ekki almenna hugmyndafræði um hlutverk fjölmiðla. Það er lítill tilgangur í því að hægri menn skammist út í Fréttablaðið og vinstri menn út í Morgunblaðið. Slík umræða hefur engan endi og enga niðurstöðu.

Með ásökun Ingibjargar Sólrúnar á Morgunblaðið hefur hún opnað fyrir umræðuna um alla aðra fjölmiðla. Er hún með ásökun sinni að segja að allir aðrir fjölmiðlar en Morgunblaðið séu að sinna starfi sínu af hlutleysi og sanngirni (sem ekki þarf að vera það sama) og Morgunblaðið sé eitt um að vera hlutdrægt með eða á móti stjórnvöldum? [4]

Ef að ræða á hlutverk eigenda gagnvart ritsjórnastefnu fjölmiðla þarf að fara út fyrir hinu daglega þrasi um hver styður hvern og hver sé á móti hverjum. Taka þarf upp umræðu um hvort að það sé rétt eða rangt að eigendur ritstýri fjölmiðlum sínum út frá hugmyndafræði en ekki því sem stóð á forsíðu blaðanna eða var fyrsta frétt ljósvakamiðlanna í dag og í gær. [5]

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


[1] Bæði núverandi og fyrrverandi formenn Samfylkingarinnar hafa talað um mikilvægi þess að tryggja beri sjálfstæði ritstjórna. Slíkt frumvarp hefur ekki verið lagt fyrir á Alþingi mér að vitandi en þau hafa bæði lýst þessu yfir í fjölmiðlum. Aldrei hefur þó fylgt á því útskýring hvernig þessu skuli vera háttað.

[2] Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar 12. nóv. 2005 http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1168415

[3] Morgunblaðið hefur heldur ekki sagt að það sé háð neinum. Það hefur einfaldlega aldei gefið út opinbera yfirlýsingu á hlutleysi eða hlutdrægni sinni enda er engin krafa um slíka yfirlýsingu.

[4] Rétt er að taka fram að ég er ósammála þessari túlkun Ingibjargar Sólrúnar. Morgunblaðið hefur margoft gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfur skrifaði ég grein sem birtist í MBL þann 16.júlí s.l. ,,Hugsjónir eða lýðskrum” þar sem ég gagnrýndi leiðara Morgunblaðsins eftir að ristjóri þess hafði skrifað gegn Sjálfstæðisflokknum. Greinin birtist einnig á sus.is: http://www.sus.is/greinar/nr/856

[5] Það sem ég á við með þessari fullyrðingu er að stjórnmálamenn geta ekki látið einstaka fjölmiðla fara í taugarnar á sér og í framhaldi af því tekið upp slíka umræðu. Þeir þurfa og eiga að sýna fótfestu og stillingu þegar slík mál eru rædd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband