Miðvikudagur, 26. apríl 2006
Friður í Evrópu – I.hluti
Er það Evrópusambandinu að þakka að friður hefur ríkt í Evrópu í rúmlega 60 ár eða liggja aðrar ástæður að baki. Það má vel vera að upprunalegar hugmyndir að evrópusamruna voru meðal annars að koma á stöðugum friði í Evrópu. En að sama skapi gerðu ríkin sér grein fyrir því að gera yrði allt sem mögulegt væri til að rétta við efnahag evrópuríkja en hann var að sjálfsögðu illa farinn eftir tvær heimsstyrjaldir.
Markmiðin eru í sjálfu sér góð og gild. Ekki þykir ástæða hér til að rekja frekar upphaf evrópusamrunans, en þó er mikilvægt að stikla á stóru á þeim skrefum sem stigin voru í upphafi samrunans og benda á þau rök sem notuð voru fyrir honum.
En þó svo að hugmyndin að evrópusamruna hafi verið að miklu leyti að koma í veg fyrir frekari átök í Evrópu er ekki þar með sagt að sameiningarferli það sem átt hefur sér stað í rúma hálfa öld hafi haldið friðinn. Rétt er að taka inn í myndina nokkur atriði sem klárlega áttu mikinn þátt í því að ekki hafa brotist út vopnuð átök milli þeirra ríkja sem nú tilheyra Evrópusambandinu.
Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að hér er aðeins átt við þau ríki sem mynda Evrópusambandið því að átök hafa brotist út í Evrópu á síðari hluta 20. aldar og ber þar hæst að nefna átökin á Balkanskaga.
En ég tel meginástæðurnar fyrir stöðugum frið í Evrópu síðastliðin sextíu ár vera fjórþættan. Ég segi frá tveimur þeirra hér en mun gera grein fyrir hinum tveimur síðar.
1. Sameiginlegur óvinur og sameiginlegir hagsmunir
Um leið og byssurnar höfðu kólnað í Evrópu var komið nýtt stríð. Þetta stríð var þó að mestu leyti laust við vopnuð átök en kalt stríð hafði myndast á milli vesturveldanna og Sovétríkjanna. ,,Járntjald myndaðist um Evrópu miðja og enginn hafði tækifæri á að vera hlutlaus í þessu kalda stríði. Margir hafa viljað halda því fram að sú spenna sem myndaðist á milli vesturveldanna og Sovétríkjanna og óttinn um notkun kjarnorkuvopna (sem leitt hefði til gereyðingar) hafi haldið friðinn allt fram til 1989. [1]
Reyndar er rétt að vekja athygli á því að evrópusamruninn átti upp að vissu marki að koma í veg fyrir ófrið innan Evrópu. Áherslan á kalda stríðs árunum var sú að stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin, stóðu í harkalegu vopnakapphlaupi og má því segja að mögulegt stríð innan Evrópu hafi ekki verið inn í myndinni. Til að mynda stríð milli Þjóðverja og Frakka sem ekki voru óalgeng á öldum áður. Óvinur vesturveldanna var mun austar en á meginlandinu alveg eins og óvinur vesturvelda er nú í suðri og í mið-austurlöndum.
Evrópusamruni var jafnvel aukaatriði í friðarferlinu enda gat Evrópusambandið ekki komið í veg fyrir innrás Sovétríkjanna án aðstoðar Bandaríkjanna en gat upp að vissu marki komið í veg fyrir vopnuð átök innan þeirra ríkja sem að honum stóðu. Á þessu eru þó skiptar skoðanir. Hér er ekki átt við íslömsk ríki í held heldur aðeins þá hugmyndafræði og hryðjuverkastarfssemi sem öfgafulli islamistar stunda.
Ekki er hægt að líta fram hjá því að á eftir stríðsárunum höfðu ríkin í Vestur-Evrópu sameiginlegra hagsmuna að gæta: Að byggja sig upp að nýju. Friður var sameiginlegur hagsmunur allra ríkja og reynslan hafði að miklu leyti kennt mönnum að vopnuð átök voru ekki lausnin á vandamálum og deilum heldur yrði slíkt leyst á vettvangi stjórnmála og viðskipta. Það hefði svo sem ekki þjónað hagsmunum ríkjanna að hefja vopnuð átök á ný. Allir lögðust á eitt við að sinna sama markmiðinu.
2. Vera Bandaríkjamanna í Evrópu
Í seinni heimsstyrjöldinni komu Bandaríkjamenn sér upp allmörgum herstöðvum í Evrópu. Margar þessara herstöðva eru enn starfræktar í dag. Bandaríkjamenn sáu ekki ástæðu til að yfirgefa þær og fara með lið sitt heim. Á meðan Bandaríkin styrktu efnahag Evrópu með Marshall aðstoðinni, sá heldur engin þjóð ástæðu til að biðja þá um að fara. Ógnin í austri var að sama skapi stór ástæða þess að Bandaríkin drógu herlið sitt ekki alfarið til baka frá Evrópu. Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur að miklu leyti snúist um að vernda Vestur-Evrópu síðast liðna hálfa öld.
Eins og áður hefur komið fram sameinuðust vesturveldin á móti Sovétríkjunum og hernaðarmynstur Evrópu fóls fyrst og fremst í því að geta varið sig frekar en að geta gert innrás inn í ríki sem krafist hefði bæði mikillar vopnaframleiðslu og fjármagns. Öflug hernaðarvera Bandaríkjamanna hafði mikið um friðarferlið að segja. Rétt er að minnast aftur á þá staðreynd að markmiðið var að byggja upp Evrópu og tóku Bandaríkjamenn þátt í því. Þeir hefðu að öllum líkindum ekki sætt sig við áframhaldandi eða ný átök. Nánar verður komið að uppbyggingu Evrópu í kaflanum um lýðræði.
Rétt er þó að taka fram að Bandaríkin hafa meira og minna hvatt til ákveðins samruna í Evrópu. Bandarísk yfirvöld hafa verið þolinmóð gagnvart evrópuríkjum hvað samruna varðar og gert sér grein fyrir því að vinasamband við Evrópu er samband sem vert er að halda í. Frá síðari heimsstyrjöld hafa Bandaríkin stutt við bakið á Evrópu og séð hagsmuni sína í því að Evrópuríki ættu velgengni að fagna. Ef að evrópusamruni er það sem virkar til þess að evrópuríki verði sterk og stöðug sjá bandarísk stjórnvöld enga ástæðu til að setja sig upp á móti því. Því betur sem evrópuríkjum gengur að fóta sig sjálf því minna fjármagn, tíma og vinnu þurfa Bandaríkjamenn að fjárfesta í Evrópu. Þetta eru hagsmunatengsl sem ganga í báðar áttir. Evrópa þurfti á Bandaríkjunum að halda til að græða sár sín eftir styrjaldirnar og Bandaríkin þurftu á evrópuríkjum að halda til að mæta ógninni í austri. Að sama skapi þurfa þessi sömu ríki að sameina krafta sína í stríðinu gegn hryðjuverkum í dag. [3]
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is
[1] Stephen M. Walt, One world, many theories
[3] A. Daniel Weygandt, America´s stake in project Europe
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Gísli Freyr | Breytt 27.4.2007 kl. 23:09 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004