Föstudagur, 21. apríl 2006
Össur, stuttbuxnadeildin og lýðræði stjórnarandstöðunnar
Fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður fór mikinn á heimasíðu sinni í gær, fimmtudaginn 20.april. Þeir sem á annað borð nenna að fylgjast með þinginu þessa dagana hafa ef til vill tekið eftir því að stjórnarandstaðan ætlar sér að kúga þingið með málþófi af því að þeim líkar ekki frumvarp stjórnarmeirihlutans um breytingu á rekstrarskipulagi Ríkisútvarpsins.
Allt er þetta auðvitað gert í nafni lýðræðisins, enda vita allir skólagengnir menn að lýðræði fjallar um að það að minnihluti á þingi á að tala eins lengi og hægt er um ekki neitt í hvert skipti sem þeim líkar ekki frumvörp meirihlutans. Það sorglega er að þetta hefur tekist hjá þeim. Ríkisstjórnin sýndi algjöran aumingjaskap með iðnaðarráðherrann í fararbroddi þegar hún ,,samdi við hina lýðræðislegu stjórnarandstöðu um afgreiðslu laganna bara til að binda enda á málþófið. Almenningur hefur nefnilega ekkert annað að gera á nóttunni en að horfa á beina útsendingu frá Alþingi þar sem þingmenn tala svo klukkutímum skiptir bara til þess eins og tefja mál. Já, lengi lifi lýðræðið.
En þá að Össuri. Eins og sagt var hér í upphafi fór hann mikinn vegna frumvarpsins um RÚV. Nú má Össur að sjálfsögðu vera ósammála Sigurði Kára Kristjánssyni og öðrum frjálslyndum stjórnmálamönnum sem ekki aðhyllast sósíalisma og mikil ríkisafskipti.
En mér þykja kaldar kveðjurnar sem Össur sendir ungu fólki í pistli sínum. Orðrétt segir Össur, ,,Árið 2003 urðu tveir forystumenn úr röðum stuttbuxnadeildarinnar, þeir Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismenn fyrir Sjálfstæðisflokkinn - og hófu sölumannatrúboðið.
Og síðar segir hann, ,,Á Alþingi er bent á að í frumvarpinu sé opnað á nauðungarsölu á RÁS 2 í krafti fjársveltis ríkisstjórnarinnar, og bent á að innan tíðar fjölgi þingmönnum úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem eru aldir upp í anda stuttbuxnadeildarinnar [...] þar sem sala á RÚV eru trúarbrögð.
Lýsir þetta kannski viðhorfi Össurar til stjórnmálaafskipta ungs fólks?
Nú er Sigurður Kári 32ja ára og Birgir 37 ára. Hvernig Össuri dettur í hug að flokka menn sem komnir eru á fertugsaldurinn í ,,stuttbuxnadeild veit ég ekki. Ekki veit ég heldur til þess að stjórnmálaskoðanir ungs fólks í Sjálfstæðisflokknum séu trúarbrögð.
Er það slæmt að ungt fólk hafi skoðanir og leggi sig fram við að framfylgja þeim á vettvangi stjórnmálanna, þá sérstaklega á þinginu? Maður hefði haldið að það væri gott mál ef ungt fólk héldi í hugsjónir sínar og stjórnmálaskoðanir þegar á vettvanginn (þingið) er komið.
Hefur Sigurður Kári (sem er nú kjörinn fulltrúi rétt eins og Össur) minna trúverðugleika í þinginu vegna aldurs? Rétt er að benda á að bæði Sigurður Kári og Birgir eru eldri en varaformaður Samfylkingarinnar.
Nú á Samfylkingin ungt og efnilegt fólk á þingi. Eru Katrín Júlíusdóttir, Björgvin G., og Ágúst Ólafur hluti af stuttbuxnaliði Samfylkingarinnar? Gefur þessi ummæli Össurar mér rétt til þess að vitna í stuttbuxnadeild Samfylkingarinnar þegar fjallað er um Unga Jafnaðarmenn?
Í sannleika sagt er það þó þannig að Össur er ekki vanur að tala svona þannig að ég geri ráð fyrir því að hann hafi hlaupið á sig. Hingað til hafa aðrir innan Samfylkingarinnar stundað ómálefnaleg ummæli um andstæðinga sína í stjórnmálum. Uppnefni, útúrsnúningur og skítkast hefði maður haldið að væri aðeins í smiðju núverandi formanns og svilkonu Össurar. Eg vona að Össur fari ekki að taka formanninn sinn til fyrirmyndar.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is
Meginflokkur: Vinstrimenn á villigötum | Aukaflokkur: Gísli Freyr | Breytt 27.4.2007 kl. 23:10 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004