Leita í fréttum mbl.is

Hnattvæðing og hagsæld

Miðstýringu stjórnmálamanna á daglegu lífi borgarans hefur verið aflétt að miklum hluta. Mörg stór ríkisfyrirtæki hafa verið seld, má þar helst nefna ríkisbankana tvo og nú nýlega Landssímann. Svipuð þróun hefur átt sér stað erlendis. Þegar einkaaðilar eignast fyrirtækin (eða stofna sín eigin) þá hafa þeir fullkomið frelsi til að hefja útrás og athafna sig á alþjóðavísu. Íslensku bankarnir, Baugur, Össur, Marel og fleiri fyrirtæki hafa frelsi til að athafna sig erlendis.

Ástæðan fyrir hnattvæðingunni er að ríkin sjá sér hag í því að stunduð séu frjáls alþjóðaviðskipti. Jafnvel þó að einstaka ríki neiti af pólitískum ástæðum að gefa eftir höft sín á ákveðnar vörur (til dæmis Íslendingar með sjávarútveg og Frakkar með landbúnað) þá er í heildina litið viðurkennt að frjáls viðskipti efla hag þjóðanna. Það eru ekki ríkin sjálf sem standa í alþjóðviðskiptunum heldur leyfa þau fyrirtækjunum að sjá um slíkt.

En af hverju? Nálgumst við viðskipti við þriðja heiminn af kærleikanum einum saman? Líklega ekki. Við leitumst ekki því að skipta við ríki af því að okkur þyki svo vænt um fólkið þar. Hér skal nú ekki gert lítið úr bróðurkærleikanum en hafa ber í huga að manninum er einungis hæft að þykja vænt um sína nánustu, maka, börn, ættingja og svo framvegis, jafnvel þjóð ef þjóðin er lítil eins og Ísland. Nei, þjóðirnar sjá sér það í hag að stunda viðskipti sín á milli. Jafnvel þó að hlýtt sé hugsað til fátæku landanna í suðri og austri, er ljóst að það er beggja hagur að viðskipti eigi sér stað milli þeirra og ,,okkar.”

Það mál vel vera að vinstri menn hafi eitthvað til síns máls þegar þeir segja að einstaka fyrirtæki hafi ráðandi markaðsstöðu á alheimsmarkaði vegna hnattvæðingarinnar. Þá skal hins vegar minnast á að markaðurinn er opinn og í raun og veru endalaus. Það er alltaf hægt að stofna ný fyrirtæki og hefja rekstur. Það gildir sama lögmála í alþjóðaviðskiptum um samkeppni eins og annars staðar. Það er alveg rétt að fyrirtæki sjá ekki um að reka velferðar- og menntakerfið. En gleymum ekki því að frjáls milliríkjaviðskipti auka hagsæld þeirra þjóða sem taka þátt í þeim og skila fjármagni í ríkiskassann þó svo að það fjármagn sé ekki innheimt með beinni skattheimtu. Það er ljóst að sósíalisminn hefur blindað andstæðinga hnattvæðingar að öllu leyti. Hagsæld milliríkjaviðskipta hefur ekkert með hægri-vinstri stjórnmál að gera. Hagsæld af milliríkjaviðskiptum er staðreynd.

Og þá er það stóra spurningin, stafar lýðræðinu ógn sökum hnattvæðingar? Svar mitt er að svo sé ekki. Eins og áður sagði hafa stjórnmálamenn minnkað ítök sín og þá sérstaklega í viðskiptum. Stjórnmálamenn geta í einhverjum tilvikum leyst ágreining um viðskiptasamninga milli ríkja og mótað stefnu alþjóðaviðskipta. Það eru hins vegar þeir einkaaðilar sem viðskiptin stunda sem sjá um restina.

Lýðræðinu stafar frekar ógn af alþjóðastofnunum eða fyrirbærum eins og Evrópusambandinu. Þegar lítill hópur manna tekur afdrífaríkar ákvarðanir fyrir fjöldann án þess að vera kosinn (líkt og framkvæmdarráð ESB gerir) er alltaf hætta á að lýðræðið sé á undanhaldi. Hér skal ekki fullyrt að slíkt eigi sér stað hvorki hjá Sameinuðu þjóðunum eða Evrópusambandinu en hættar er vissulega fyrir hendi. Alþjóðakerfið er að mestu stjórnleysa og því lítil hætta á að lýðræðinu sé ógnað.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband