Mánudagur, 4. september 2006
Frjálslynt íhald á íhald.is
Sjálfsagt hafa einhverjir velt því fyrir sér hvaða hugmyndafræði nákvæmlega við aðhyllumst sem stöndum að Veritas og Íhald.is. Margir hafa líka e.t.v. velt fyrir sér hvers vegna við höfum verið að stofna hugveitu með það að markmiði að leggja áherslu á hugmyndafræði íhaldsstefnunnar sem mörgum þykir sennilega þegar hafa mikil ítök og áhrif á Íslandi. Þegar minnst er á íhald verður án efa mörgum hugsað til þess sem kalla mætti evrópskt íhald sem er út af fyrir sig vel skiljanlegt enda er það það íhald sem í sögulegu samhengi hefur lengst af verið áberandi innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta lýsir sér t.d. í þeirri afstöðu að vilja ekki afnema landbúnaðarkerfið eða selja Ríkisútvarpið, eitthvað sem við sem stöndum að Íhald.is viljum hins vegar gera hið fyrsta.
Þessi evrópska íhaldssemi er enn í dag ráðandi hugmyndafræði í flestum svokölluðum hefðbundnum hægriflokkum á meginlandi Evrópu sem og á hinum Norðurlöndunum. Þarna er um að ræða íhaldsmenn sem eru almennt séð engir sérstakir áhugamenn t.a.m. um að lækka skatta, draga úr miðstýringu eða minnka reglugerðafargan þó þeir eigi það stundum til að tala fyrir slíku þá yfirleitt á mjög hóflegum nótum. Þessir flokkar eru gjarnan hlynntir verndartollum, opinberum niðurgreiðslum og alls kyns afskiptum ríkisvaldsins af hinum og þessum sviðum þjóðfélagsins s.s. menningarmálum. Þeir eru ennfremur tortryggnir á frjáls viðskipti á milli landa og markaðssvæða og geta jafnvel verið mjög íhaldssamir á velferðarkerfi landa sinna.
Þetta íhald er að okkar mati ekki hægrisinnað heldur í besta falli einhvers konar miðjustefna. Jacques Chirac er kannski ágætis dæmi um slíkan íhaldsmann. T.a.m. hefur hann talað mjög afgerandi gegn fríverslun í gegnum tíðina og fyrir því að teknir verði upp verndartollar í Frakklandi í auknum mæli til að vernda innlenda framleiðslu fyrir samkeppni við önnur lönd. Það er deginum ljósara frá okkar bæjardyrum séð að Chirac er ekki hægrimaður.
Munurinn á meginlandshugsunarhættinum og þeim engilsaxneska kom einmitt vel fram í deilum Frakka og Breta sumarið 2005 í kjölfar þess að fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins var hafnað í Frakklandi og Hollandi. Chirac sagði stjórnarskránni hafa einkum verið hafnað í Frakklandi vegna þess að hún væri alltof frjálslynd í efnahagsmálum að engilsaxneskri fyrirmynd. Bretum fannst stjórnarskráin hins vegar engan veginn nógu frjálslynd í efnahagsmálum og andstaðan við hana var ekki sízt á þeim forsendum auk lýðræðisins og fullveldisins. Samt er vinstristjórn í Bretlandi!
Það íhald sem við aðhyllumst í meginatriðum mætti kalla engilsaxneskt eða jafnvel amerískt. Það er stundum kallað upp á ensku "right conservatism" eða "free-market conservatism". Í Bretlandi hefur þetta íhald gjarnan verið nefnt frjálslynt íhald. Í mjög stuttu máli felur sú íhaldssemi í sér frjálslyndi í efnahagsmálum en aftur íhaldssemi í siðferðismálum eða persónulegum málum eins og þau mál eru stundum kölluð líka. Ennfremur erum við hlynntir öflugri löggæslu, landvörnum o.s.frv. Finna má ágætis skilgreiningu á þessari íhaldssemi á ameríska frjálshyggjuvefnum Advocates for Self-Government:
"Conservatives tend to favor economic freedom, but frequently support laws to restrict personal behavior that violates "traditional values." They oppose excessive government control of business, while endorsing government action to defend morality and the traditional family structure. Conservatives usually support a strong military, oppose bureaucracy and high taxes, favor a free-market economy, and endorse strong law enforcement."
Þetta er íhaldssemi sem hefur að okkar mati alls ekki verið nógu áberandi í þjóðfélagsumræðum á Íslandi og því viljum við breyta.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Meginflokkur: Stjórnmál - almennt | Aukaflokkar: Hjörtur J., Ritstjórnarviðhorf | Breytt 27.4.2007 kl. 22:14 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004