Leita í fréttum mbl.is

Hvers vegna þarf að blekkja?

Það er svona allajafna ekki til marks um að menn hafi góðan málstað að verja ef þeir velja að beita blekkingum til að reyna að fá fólk á sitt band. Sérstaklega ef það gerist trekk í trekk. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir sem styðja þá hugmynd að Ísland gangi í Evrópusambandið vilji meina að þeir tali fyrir góðum málstað, þ.m.t. þeir sem stillt hafa sér upp sem sérstökum talsmönnum þeirra sjónarmiða s.s. forystumenn Evrópusamtakanna. En hvers vegna þarf þá að reyna að blekkja fólk?

Tökum dæmi. Þann 4. ágúst á síðasta ári héldu Evrópusamtökin fund um reynslu Möltu af aðild sinni að Evrópusambandinu. Framsögumaður var maður að nafni dr. Roderick Pace og var hann kynntur til sögunnar í auglýsingu Evrópusamtakanna sem einn helzti sérfræðingur Möltu í samskiptum við Evrópusambandið og ráðgjafi maltnesku ríkisstjórnarinnar í samningunum um aðild þeirra að því. Auk þess sagði að dr. Pace væri forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Möltu. Hann væri með MA gráðu í alþjóðasamskiptum og Evrópufræðum frá Bologna Center við John Hopkins háskóla í Bandaríkjunum og doktorspróf frá Reading háskóla á Bretlandi. Að lokum að hann hafi skrifað tvær bækur um samskipti Möltu við Evrópusambandið og fjölmargar greinar í virt fræðirit um ýmis alþjóðamál.

M.ö.o. var augljóslega þarna á ferðinni velmenntaður fræðimaður sem væntanlega vissi hvað hann væri að tala um. Eða það var allavega það sem Evrópusamtökin vildu að fólk, sem ekki veit betur af einhverjum ástæðum, héldi. Samtökin "gleymdu" nefnilega að greina frá einu atriði varðandi feril dr. Pace sem kannski er það mikilvægasta í þessu sambandi. Svo vill nefnilega til að hann er forseti Evrópusamtakanna á Möltu (European Movement Malta) og þar með ekki hlutlausari í umfjöllun sinni um Evrópumál en kollegi hans hér á Íslandi, Andrés Pétursson. Já, eða bara ég ef út í það er farið. En af einhverjum ástæðum sáu Evrópusamtökin íslenzku enga ástæðu til að upplýsa fólk um þessa pólitísku aðkomu dr. Pace. Hvers vegna ekki?

Nú kann einhver að segja að þetta hafi kannski bara verið einsdæmi en svo er þó alls ekki. Það má eiginlega frekar segja að um reglu sé að ræða en hitt. Þann 18. marz á síðasta ári héldu Evrópusamtökin annan fund með erlendum fyrirlesara. Að þessu sinni var það tyrkneskur maður að nafni dr. Halûk Günugür sem fjallaði um Evrópusambandið og Tyrkland. Í auglýsingu Evrópusamtakanna kom fram að dr. Günugür væri lögfræðingur að mennt og að hann hefði doktorspróf frá háskólanum í Aix-en-Province í Frakklandi í Evrópurétti. Hann væri nú yfirmaður Alþjóðasamskiptadeildar Háskólans í Izmir. Hann hefði um áratugaskeið verið einn helsti sérfræðingur Tyrkja í samskiptum við Evrópusambandið og verið ráðgjafi tyrknesku ríkisstjórnarinnar í samningum við sambandið. Að lokum sagði að dr. Günugür væri frábær ræðumaður og mikill áhugamaður um aukin tengsl Tyrklands og Evrópu (þ.e. Evrópusambandsins).

Ekki þarf að koma á óvart að dr. Günugür sé mikill áhugamaður um að auka tengslin á milli Tyrklands og Evrópusambandsins í ljósi þess að hann er, líkt og áðurnefndur dr. Roderick Pace, forseti Evrópusamtakanna í heimalandi sínu (European Movement Turkey). En sem fyrr sáu Evrópusamtökin hér á landi litla ástæðu til að vera að taka það fram að svo væri. Hvers vegna ekki?

Þetta er síðan í fullkomnu samræmi við það þegar ýmsir forystumenn íslenzkra Evrópusambandssinna koma í fjölmiðla undir því yfirskini að þeir séu einungis að nálgast málin út frá fræðilegum forsendum þegar þeir eru í raun meira eða minna að reka áróður fyrir Evrópusambandsaðild. Þannig er treyst á að fólk, sem nennir ekki sjálft að setja sig af einhverju ráði inn í Evrópumálin, líti svo á að þessi eða hinn stjórnmálafræðingurinn hljóti að vera hlutlaus og vel að sér um málin fyrst hann er titlaður sem fræðimaður í fjölmiðlum.

Og áfram. Þann 14. desember 2004 birtist frétt á heimasíðu Evrópusamtakanna þar sem því var haldið fram að það væri orðum ofaukið að Evrópusambandið væri reglugerðabákn (sem er merkilegt sjónarmið þegar jafnvel forystumenn sambandsins sjá sér ekki lengur fært að neita þeirri staðreynd). Þetta byggðu samtökin á brezkri rannsókn sem sögð var hafa verið gerð af sjálfstæðri rannsóknarstofnun. Þegar málið var kannað kom í ljós að þessi svokallaða "sjálfstæða rannsóknarstofnun" var Evrópusamtökin í Bretlandi (European Movement UK).

Nú, 80% vitleysan er enn eitt dæmið. Hvernig datt mönnum eins og Eiríki Bergmanni Einarssyni og Baldri Þórhallssyni aí hug að halda því fram að við værum að taka upp um 80% af lagagerðum Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn þegar þessir menn eiga að heita sérstaklega menntaðir í Evrópufræðum? Svo þegar upplýst var af skrifstofu EFTA í Brussel að þetta væru aðeins 6,5% þá voru fyrstu viðbrögðin að segja að þetta væri eitthvað sem Halldór Ásgrímsson hefði haldið fram. Allt honum að kenna. Hvers vegna könnuðu þessir menn ekki málin betur eins og fræðimenn eiga að gera í stað þess að éta upp einhverja fáránlega fullyrðingu eftir stjórnmálamanni? Kannski vegna þess að fullyrðingin hentaði þeirra eigin pólitísku skoðunum og þeir vonuðu að enginn myndi sjá ástæðu til að kanna hið rétta í málinu?

Og svona mætti halda lengi áfram. T.d. bullið um að EES-samningurinn væri að veikjast þó aldrei hafi verið hægt að sýna fram á að svo væri. Því héldu bæði Evrópusambandssinnaðir stjórnmálamenn og fræðimenn fram jöfnum höndum um árabil. Fáir hafa þó sennilega haldið þessu meira fram en nú fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson. En þetta heyrir maður núorðið varla lengur því þessir aðilar hafa aldrei getað tilgreint nein veikleikamerki á samningnum þrátt fyrir margítrekaðar óskir um það. Framsóknarflokkurinn ályktaði meira að segja á flokksþingi sínu á dögunum að samningurinn hentaði Íslendingum vel og að ekkert benti til annars en að svo yrði áfram. Um leið og flokkurinn var laus við Halldór.

Svo aftur sé spurt: Ef Evrópusambandssinnar telja sig hafa góðan málstað að verja, hvers vegna þá þessar blekkingar?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband