Miðvikudagur, 2. ágúst 2006
Verður Evrópa íslömsk?
Verður Evrópa íslömsk innan fárra áratuga og jafnvel skemmri tíma en það? Mörgum þykja vægast sagt miklar blikur á lofti í því sambandi í ljósi þróunar undanfarinna ára. Í dag munu tugir milljóna múslima búa í Vestur-Evrópu og þeim fer sífellt fjölgandi, bæði vegna þess að þeir eignast að meðaltali mun fleiri börn en innfæddir Evrópumenn og vegna þess að sífellt fleiri múslimar kjósa að setjast að í Evrópulöndum með samþykki viðkomandi stjórnvalda án þess að allajafna séu gerðar sérstakar kröfur til þeirra um aðlögun. Á sama tíma fækkar innfæddum í mörgum ríkjum Vestur-Evrópu þar sem fæðingar halda ekki í við tölu látinna. Við þetta bætist síðan að sívaxandi fjöldi innfæddra Evrópumanna kýs að flytja frá heimalöndum sínum, einkum vegna vaxandi glæpatíðni og almennrar óánægju með þá þjóðfélagsþróun sem getið er að framan.
Fyrir fáum árum síðan þótti ýmsum það vera til marks um hreint ofsóknaræði, heimsku og jafnvel rasisma að tala um að múslimar kynnu innan ekki svo langs tíma að verða meirihluti íbúa ýmissa Evrópuríkja (íslam hefur vitaskuld ekkert með kynþætti að gera frekar en kristni). En þeim fjölgar án efa stöðugt sem telja þá þróun vel mögulega og rúmlega það sem er kannski ekki að furða þegar evrópskir ráðamenn eru farnir að ganga út frá því sem gefnum hlut að þróunin verði með þessum hætti. Þannig gerðist það t.a.m. fyrir ekki alls löngu að jafnaðarmaðurinn Jens Orback, ráðherra lýðræðismála í sænsku ríkisstjórninni, lét þau orð falla í útvarpsviðtali að Svíar yrðu að sýna íslam og múslimum skilning og umburðarlyndi þar sem múslimar myndu gera slíkt hið sama þegar Svíar yrðu orðnir minnihlutahópur í Svíþjóð!
Þarna er sennilega byggt á þeirri sögufölsun að kristnir menn, Gyðingar og aðrir, sem ekki aðhylltust íslam, hafi notið umburðarlyndis í ríkjum múslima fyrr á öldum. Staðreyndin er sú að langur vegur er frá því að svo hafi verið. Þeir voru þvert á móti skilgreindir sem undirmálslið og höfðu réttarstöðu samkvæmt því. Lönd þeirra voru þannig t.a.m. gerð upptæk og þeir urðu að vinna sem ánauðugir leiguliðar múslima, þeir þurftu að borga háa skatta, þeim var ekki heimilt að byggja kirkjur eða bænahús né viðhalda þeim sem fyrir voru, þeir urðu að búa í sérstökum hverfum og klæðast sérstökum fötum sem aðgreindu þá frá öðrum svo eitthvað sé nefnt.
Miklum fjölda kristinna manna var í gegnum aldirnar rænt frá heimalöndum sínum og þeir hnepptir í þrældóm í ríkjum múslima, ekki sízt konum. Ekki einu sinni við Íslendingar fórum varhluta af því samanber Tyrkjaránið svokallað (sem í raun var framið af Márum frá Alsír). Þetta varð til þess að ýmsir kristnir menn tóku þann kostinn að taka upp íslam í von um betri meðferð. Ein afleiðing þess eru múslimarnir í Bosníu í dag sem eru í raun aðeins Serbar sem köstuðu trúnni á meðan Tyrkir réðu Balkanskaganum. Fyrir vikið fengu slíkir trúskiptingar eilítið betri meðhöndlun en voru áfram álitnir undirmálsfólk. Önnur afleiðing þessa voru tíðar uppreisnir kristinna manna og Gyðinga gegn kúgurum sínum.
Þetta gilti víðast hvar í hinum múslimska heimi, hvort sem það var á Balkanskaganum, Norður-Afríku eða á Spáni áður en múslimar voru hraktir þaðan 1492. Nú kann einhver að spyrja að því hvort líklegt sé að komið verði fram við kristna, Gyðinga og aðra sem ekki aðhyllast íslam, með sama hætti ef múslimar verða meirihluti íbúa Evrópuríkja? Það getur vitaskuld enginn sagt fyrir um. Hins vegar lízt manni eðlilegt ekki á það t.a.m. þegar skoðanakönnun í Bretlandi frá því fyrr á þessu ári sýnir að 40% brezkra múslima séu hlynnt því að taka upp Sharia lög íslams á þeim svæðum í Bretlandi þar sem múslimar eru í meirihluta. Helmingur þeirra ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu.
Þeir munu sömuleiðis vera ófáir múslimsku trúarleiðtogarnir sem hafa talað fyrir því að þegar múslimar hafi náð undirtökunum í Evrópu verði Sharia lögunum komið þar á og evrópsk ríki þar með gerð íslömsk. Nú þegar eru Sharia lögin í gildi að meira eða minna leyti á afmörkuðum svæðum í Evrópu þar sem múslimar eru fjölmennir, s.s. í úthverfum ýmissa franskra borga. Þar gilda í raun ekki lög viðkomandi lands nema þá að litlu leyti og lögreglan þorir allajafna ekki inn í þau af ótta við afleiðingarnar (samanber óeirðirnar í Frakklandi í nóvember sl.). Í viðtali við norska dagblaðið Klassekampen fyrr á þessu ári sagði Hege Storhaug, hjá mannréttindahugveitunni Human Rights Service, að hún myndi gjarnan vilja sjá þann múslimska trúarleiðtoga sem segði að Sharia lögin yrðu ekki ráðandi í Noregi ef múslimar kæmust þar í meirihluta. Ýmsir múslimskir trúarleiðtogar hafa sömuleiðis haldið því fram að lýðræðið sé heiðið stjórnfyrirkomulag sem samrýmist ekki íslam og múslimar hvattir til að hunza lýðræðislegar kosningar. T.d. gerðist þetta í tengslum við sveitarstjórnarkosningar í Danmörku s.l. haust.
Eins og ég hef oft sagt er ég sannfærður um að minnihluti múslima í heiminum séu öfgamenn. Hins vegar er það ógnvænlega að öfgamennirnir virðast oftar en ekki hafa gríðarleg ítök og áhrif á meðal þeirra sem hófsamir eru. Líkt og gerðist í Evrópu á miðöldum þegar kaþólska kirkjan gein yfir öllu og lítil aðgreining var á milli hins veraldlega og andlega - rétt eins og víðast hvar í múslímaheiminum í dag. Gott dæmi um þetta er teikningamálið svokallað sem hófst í Danmörku eins og kunnugt er. Múslimskir trúarleiðtogar, einkum í Danmörku, kynntu undir því máli og ekki sízt í ríkjum múslima með tilheyrandi ofbeldisverkum og hatri. Það mál varð raunar til þess að hópur hófsamra múslima gekk fram fyrir skjöldu og sagði trúarleiðtogana ekki vera sína fulltrúa.
Hvað varðar þá spurningu hvort múslimar verði orðnir meirihluti íbúa í einhverjum Evrópuríkjum innan fárra áratuga má vel vera að ýmsir telji það þróun sem ekkert sé við að athuga verði hún að raunveruleika. Það má þó allt eins og ekki síður gera ráð fyrir að mörgum lítist ekki á þá framtíðarsýn. Það er vitaskuld furðulegt að ekki hafi farið fram nein umræða um þetta í Evrópu að kalla megi. Og enn furðulegra að evrópskir ráðamenn eins og Jens Orback skuli tala opinberlega um það að þróunin verði svona eins og málið sé bara frágengið og ekkert við það að athuga. En í ljósi þess félagslega rétttrúnaðar sem einkennt hefur málaflokkinn er þetta vissulega ekkert einkennilegt. Það eru vitaskuld litlar líkur á því að hægt sé að ræða annars hvaða mál sem er, og hvað þá komast að einhverri skynamlegri niðurstöðu, ef aðeins má ræða það frá einni hlið og öðrum ekki.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
(Myndin með greininni er af forsíðu hins virta brezka tímarits The Spectator frá því í nóvember sl. þar sem fjallað var um þetta mál á sömu nótum og hér er gert.)
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Hjörtur J., Mið-austurlönd | Breytt 27.4.2007 kl. 22:26 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004