Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 31. júlí 2006

Ég renndi yfir grein Hallgríms Helgasonar, föður bláu handarinnar, á síðum Fréttablaðsins í morgun þar sem hann fjallar um landbúnaðarkerfið íslenzka og hversu úrelt og fáránlegt það er. Þetta er vitaskuld hárrétt hjá Hallgrími og aldrei of oft minnt á það á meðan þetta blessað kerfi er við líði. Bændum er haldið í fátækt í gegnum opinberar niðurgreiðslur fyrir tilstuðlan landbúnaðarkerfisins í stað þess að þeim sé veitt frelsi til að markaðssetja sína vöru á frjálsum markaði eins og aðrir öllum til hagsbóta.

Það furðulegasta við þetta allt er kannski það að það munu einmitt vera bændur sjálfir sem eru mest mótfallnir því að landbúnaðarkerfið verði afnumið og frelsi komið á. Í því sambandi mætti nefna að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sl. haust fórum við nokkrir ungir sjálfstæðismenn í ræðustól undir forystu Davíðs Arnar Jónssonar og lögðum fram þá tillögu að kerfið yrði afnumið.

Þetta framtak vakti augljóslega mikla reiði á meðal bænda í salnum og komu þeir nokkrir í ræðustól í kjölfarið til að lýsa yfir megnri andstöðu sinni við tillöguna. Var augljóst af máli þeirra að þeir voru bæði reiðir og hneykslaðir yfir þessu "uppátæki" okkar unga fólksins sem eru vitaskuld furðuleg viðbrögð þó ekki nema í ljósi þess að afnám landbúnaðarkerfisins hefur lengi verið eitt af helztu stefnumálum ungra sjálfstæðismanna. Og ef við eigum ekki að tala fyrir okkar stefnumálum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og reyna að koma þeim í gegn, hvað höfum við þá þangað að gera?

Ég fagna því vissulega gagnrýni Hallgríms á landbúnaðarkerfið og vona eins og hann að þetta úrelta niðurgreiðslukerfi ríkisins verði afnumið sem allra fyrst. Að sama skapi vona ég að þar verði ekki látið staðar numið og úrelt niðurgreiðslukerfi ríkisins til handa íslenzkum listamönnum og rithöfundum verði að sama skapi afnumið hið fyrsta. Einhvern veginn efast ég þó um að rithöfundurinn Hallgrímur sé reiðubúinn að taka undir það sjónarmið. En kannski ef hann væri bóndi...

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband