Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 22. maí 2006

Fyrir helgi fóru fram einkennilegar umræður í Brussel um það hver næstu skref kynnu að verða varðandi frekari stækkun Evrópusambandsins. Allt í einu var Ísland komið inn í þær vangaveltur þó ekkert hafi vitaskuld gerzt hér á landi sem gefur tilefni til þess. Þetta hófst með því að Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn sambandsins, var spurður að því á fundi rannsóknarstofnunarinnar European Policy Centre hvort Ísland kynni að koma til greina sem aðildarríki í náinni framtíð og svaraði Rehn því til að svo kynni að verða og þá hugsanlega á eftir Rúmeníu og Búlgaríu sem nú standa í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Hann lagði þó áherzlu á að engin ósk hefði komið frá Íslendingum um aðild.

Rehn tók ennfremur fram að aðild Ísland kæmi ekki til skoðunar fyrr en eftir að komið hefði verið á fyrirhuguðum breytingum á stofnanakerfi Evrópusambandsins og endurskoðun á fjárlögum þess. Þ.e. eftir að fyrirhuguð stjórnarskrá sambandsins hefur tekið gildi sem allar líkur eru á að hún muni gera á einn eða annan hátt. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að gildistaka stjórnarskrárinnar mun sízt gera Evrópusambandið meira aðlaðandi en það þegar er fyrir Íslendinga. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, José Manuel Barroso, brást hins vegar við ummælum Rehn með því að lýsa efasemdum sínum um að fleiri ríki ættu eftir að fá aðild að Evrópusambandinu en þau ríki sem þegar væri verið að ræða við.

Þó umræðurnar hafi verið einkennilegar var fréttaflutningurinn af þeim hér heima enn furðulegri. Gildir þá einu hvort um er að ræða Morgunblaðið, NFS eða Ríkisútvarpið. Helzt mátti skilja það sem svo að hér á landi væru menn óðir og uppvægir að ganga í Evrópusambandið og það eina sem stæði í vegi fyrir því að af því yrði væri að grænt ljóst fengist frá Brussel. Þetta byggðist m.ö.o. orðum allt á því hvað Olli Rehn og félagar tækju ákvörðun um að gera. Sú er þó vitaskuld langt því frá raunin.

---

Hugmyndir eru nú uppi innan Framsóknarflokksins að flýta flokksþingi hans og halda það í nóvember nk. í stað fyrri hluta næsta árs. Opinbera skýringin á þessu er 90 ára afmæli flokksins, en tillagan um þetta er komin frá formanninum, Halldóri Ásgrímssyni. Því er kannski ekki að furða að maður velti því fyrir sér hvort hann sé ekki á leið úr formannsstólnum og hafi í hyggju gefa nýjum leiðtoga svigrúm til þess að undirbúa flokkinn undir þingkosningarnar á næsta ári?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband