Mánudagur, 24. apríl 2006
Mánudagspósturinn 24. apríl 2006
Við Hildur Edda Einarsdóttir, stjórnarmaður í Ungum jafnaðarmönnum, höfum aðeins verið að ræða um hugmyndafræðilegan grunn sósíalismans að undanförnu í kjölfar greinar sem ég reit á vefritið Hugsjónir.is á dögunum undir fyrirsögninni Sósíalískur fótboltaleikur . Hildur hefur nú tjáð sig í tveimur greinum um málið, nú síðast fyrir helgi á Pólitík.is. Ekkert í þessum greinum hefur þó hrakið það sem ég hef sagt í mínum greinum um það á hverju sósíalisminn og vinstrisinnaðar stefnur byggist á í grunninn. Þvert á móti hefur hún einmitt staðfest það sem mín skrif grundvölluðust á. Þ.e. að grunnhugsun sósíalismans sé ávallt sú að það sé ekki nóg að fólk hafi jöfn réttindi heldur eigi hið opinbera að beita sér fyrir því að jafna stöðu þess með því að taka eignir sumra einstaklinga, eða annað sem þeim hefur áskotnast með eigin fyrirhöfn t.a.m. sæti á lista í prófkjöri, af þeim án þeirra samþykkis og afhenda þær öðrum án þess að hinir síðarnefndu eigi nokkurn rétt til þeirra.
Ég geri mér auðvitað fullkomlega grein fyrir því að vinstrimenn líta ekki á málið með þessum augum. Fyrir þeim er þarna aðeins um að ræða spurningu um sanngirni og réttlæti eins og kom t.a.m. mjög skýrt fram í máli Hildar. Í því sambandi tala vinstrimenn gjarnan um svokallað félagslegt réttlæti. En hvaða réttlæti felst í því að neyða fólk til þess að láta af höndum eigur sínar, sem það hefur aflað sér með fullkomlega lögmætum hætti, og afhenda þær síðan einhverjum öðrum fyrir milligöngu ríkisins að viðlagðri refsingu? Staðreyndin er sú að skattheimta ríkis, sem og annarra opinberra aðila, gagnvart þegnum þess er ekkert annað en ofbeldi, þ.e. þjófnaður. En eins og ég þarf auðvitað ekki að segja Hildi er gjarnan litið svo á að hið opinbera, þá aðallega ríkið, hafi einkarétt á að beita fólk ofbeldi innan yfirráðasvæðis síns. Þar með talin er skattheimta. Hér eru vitaskuld á ferðinni afar einkennilegar hugmyndir um sanngirni og réttæti sem eiga rætur sínar í þeirri marxísku hugmyndafræði að eignir séu þjófnaður. Skattheimta er þess utan í rauninni ekkert annað en ákveðin birtingarmynd þjóðnýtingar á eignum fólks.
Hins vegar hefur í flestum ríkjum verið til staðar talsverð sátt í gegnum tíðina um að í lagi sé að hið opinbera innheimti upp að ákveðnu marki skatta af þegnum sínum til að standa straum af kostnaði vegna sameiginlegra stofnana viðkomandi ríkis. Hins vegar greinir menn vægast sagt mjög á um hversu mikil sú skattheimta (þ.e. ofbeldi) eigi að vera og í hvað sé rétt að verja þeim fjármunum. Þannig hafa vinstrimenn löngum verið hlynntir háum sköttum á almenning, sem renna eigi í sameiginlega sjóði eins og það er gjarnan kallað, á meðan hægrimenn hafa lagt áherzlu á að halda slíku ofbeldi í lágmarki.
Í sjálfu sér hefði maður haldið að flestir gætu verið sammála um að ofbeldi væri af hinu slæma og að æskilegt væri að draga úr slíku eins og hægt væri með góðu móti. En það er þó allajafna öðru nær þegar vinstrimenn eru annars vegar eins og dæmin sanna. Skemmst er að minnast þess hvernig haldið hefur verið á málum við stjórn Reykjavíkurborgar í valdatíð R-listans þar sem heildarálögur á borgarbúa hafa stórlega aukizt, þá annað hvort vegna skattahækkana (ekki sízt með því að hækka útsvarið upp í löglegt hámark í fyrsta skipti í sögu borgarinnar) eða með því að innleiða nýja skatta.
Vinstrimenn eru nefnilega upp til hópa haldnir þeirri meinloku að hið opinbera geti ekki aflað sér tekna nema með skattheimtu (þ.e. ofbeldi) ef marka má stefnur, áherzlur og yfirlýsingar þeirra í gegnum tíðina. Þeim virðist þannig fyrirmunað að skilja að með því að lækka skatta geta tekjur hins opinbera af sköttum einmitt aukizt verulega þar sem skattalækkanir virka allajafna sem vítamínsprautur út í samfélagið og stuðla að auknum umsvifum. Ríkið fær þannig minni sneið af stærri köku í stað stærri sneiðar af minni köku áður. Gott dæmi um þetta er lækkun fyrirtækjaskatta hér á landi úr 33% árið 1995 í 18% í dag. Sú lækkun hefur skilað ríkinu mun meiri tekjum en áður var.
Í orðabók vinstrimanna er jafnvel til orðasambandið vannýttir tekjustofnar, þ.e. opinbert fé sem stjórnmálamönnum eða embættismönnum hefur ekki tekizt að eyða þrátt fyrir oftar en ekki mikla hæfileika á því sviði. Við slíkar aðstæður dettur vinstrimönnum allajafna ekki í hug að tilefni sé til að verja þessum fjármunum til þess að lækka álögur á almenning heldur þarf þess í stað að finna eitthvað til að eyða þeim í og oftar en ekki reynist það litlum erfiðleikum bundið.
Önnur meinloka ófárra vinstrimanna er að telja hægrimenn á móti velferðarkerfinu. Það er mikil fjarstæða að halda því fram. Flestir hægrimenn eru hlynntir því að til staðar sé ákveðið sameiginlegt öryggisnet í sem byggist á því grunnsjónarmiði að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft og bera sem mesta ábyrgð á eigin lífi. Hins vegar eru hægrimenn ekki haldnir þeirri þröngsýni vinstrimanna að telja að velferð fólks sé eitthvað sem aðeins geti þrifist í faðmi opinberra aðila. Hægrimenn telja einfaldlega að ef einkaaðilar geti sinnt velferð fólks jafn vel eða betur en hið opinbera þá sé sjálfsagt og eðlilegt að sú leið sé farin. Rétt eins og með flesta aðra hluti. Þetta mega vinstrimenn hins vegar allajafna ekki heyra minnzt á.
Eins og ég sagði í grein minni á Hugsjónir.is, og kom lítillega inn á hér á undan, eru alls kyns vinstrisinnaðar sértækar aðgerðir sem ætlað er að stuðla að jafnri stöðu fólks gott dæmi um grunnhugsun sósíalismans, hlutir eins og kynjakvótar, fléttulistar og jákvæð mismunun. Hildur Edda segist í síðari grein sinni á Pólitík.is vera hlynnt fléttulistum en á móti kynjakvótum. Hins vegar nefnir hún enga afstöðu til sögunnar gagnvart jákvæðri mismunun. Þetta þrennt er þó í raun einn og sami hluturinn. Reglur um fléttulista fyrir prófkjör fela þannig t.a.m. í sér kynjakvóta, þ.e. að einhver þjóðfélagshópur eigi að eiga ákveðið hlutfall sæta á viðkomandi framboðslista vegna kynferðis, aldurs eða annars. Þetta er síðan nákvæmlega það sem jákvæð mismunun gengur út á.
Að lokum vegna óánægju Hildar með það að ég skyldi vekja athygli á ummælum hennar um íhaldsstefnuna og íhald.is sem hún lét falla á vefsíðunni Arndís.is þar sem hún kallaði þetta tvennt m.a. sora. Hildur telur víst að þetta hafi verið ómaklegt af mér að mér skilst vegna þess að ummælin hafi verið athugasemd (comment) á viðkomandi heimasíðu og að fyrir vikið hafi þau af einhverjum ástæðum ekkert heimildagildi. Hún viðurkennir þó í síðari grein sinni á Pólitík.is að umrædd afstaða hennar til íhaldsstefnunnar (og þá væntanlega íhald.is líka) sé skýr og opinber. Einkum í því ljósi sætir vitanlega furðu hvers vegna hún skuli bregðast jafn illa við því að ég skyldi vekja máls á þessari opinberu og skýru afstöðu og velta fyrir mér hver rökin fyrir henni kynnu að vera fyrst þeirra var ekki getið.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Meginflokkur: Mánudagspósturinn | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 23:09 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004