Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 3. apríl 2006

Einstakir Evrópusambandssinnar reyna nú hvað þeir geta að tengja Evrópusambandið inn í umræður um þá stöðu sem upp er komin í varnarmálum Íslands. Þær tilraunir eru í ætt við vandræðalegt upphlaup Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, í byrjun árs 2004 þegar hún viðraði hliðstæðar yfirlýsingar. Þær vangaveltur hljóðnuðu þó fljótt eftir að fulltrúi frá varnarmálaskrifstofu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Pieter C. Feith, kom hingað til lands og gerði lýðum ljóst að ekki væri raunhæft að gera ráð fyrir því að sambandið tæki að sér varnir landsins ef Bandaríkjamenn tækju þá ákvörðun að hverfa af landi brott. Til þess hefði Evrópusambandið einfaldlega ekki bolmagn og það jafnvel þó Ísland væri þar aðili.

Ástæðan fyrir þessu sagði Feith vera þá að sá herafli sem Evrópusambandið væri að byggja upp væri hugsaður til þess að bregðast við einstökum deilum og árásum en ekki til að sinna viðvarandi vörnum. Þannig væri grundvallarmunur að þessu leyti á Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu sem væri varnarbandalag. Þetta ítrekaði síðan Richard Wright, umsjónarmaður samskipta Evrópusambandsins við EFTA ríkin, í heimsókn hans til Íslands nú fyrir skemmstu. En jafnvel þó Evrópusambandið stefndi að því að verða fært um að sjá um viðvarandi varnir þá tæki það án efa mörg ár í uppbyggingu og má ætla að í millitíðinni yrði búið að finna viðunandi lausn á varnarmálum Íslendinga. Svo er þó ekki eins og áður segir.

Það er því kannski ekki að furða að ýmsir klóri sér í kollinum og skilji ekkert í því þegar reynt er að blanda Evrópusambandinu inn umræður um varnarmál Íslands og þá ekki síður í ljósi þeirrar einföldu staðreyndar að þau Evrópuríki, sem rætt hefur verið um að hugsanlega geti komið að vörnum landsins, eru þegar ásamt Íslandi aðilar að Atlantshafsbandalaginu sem er, eins og áður segir, varnarbandalag! Ef t.a.m. Bretar samþykktu að koma að vörnum Íslands með einhverjum hætti þyrftu þeir ekki frekar að hafa Evrópusambandið með í ráðum en þegar þeir ákváðu að taka þátt í innrásinni í Írak ásamt Bandaríkjamönnum eins og staðan er í dag.

Hitt er svo annað mál að Evrópusambandið gengur vissulega sífellt meira á fullveldi aðildarríkja sinna á hverju sviðinu á fætur öðru og er m.a. stefnt að því í Brussel að sambandið taki meira eða minna yfir utanríkis- og varnarmál þeirra. Sú er þó ekki raunin enn sem komið er þó líklegt verði að telja að sú verði niðurstaðan á endanum. Þess er þó sennilega að bíða í einhver ár enn. En á meðan Atlantshafsbandalagið er til staðar, og Ísland er aðili að því, liggur beinast við að ræða um varnarmál landsins á þeim vettvangi verði niðurstaða íslenzkra stjórnvalda sú að Bandaríkjamenn bjóði ekki upp á lausnir sem duga Íslendingum.

Á þessari stundu er því algerlega ótímabært að afskrifa áframhaldandi varnarsamstarf við Bandaríkjamenn og er vægast sagt furðulegt upphlaupið í þeim, sem vilja endilega troða Íslandi inn í Evrópusambandið, vegna stöðunnar í varnarmálum landsins. Það sýnir aðeins örvæntingu þeirra þegar kemur að Evrópumálunum, hangið er bókstaflega á hverju hálmstrái. Staðreyndin er sú - eins og áður er komið inn á - að þrátt fyrir einlæga óskhyggju íslenzkra Evrópusambandsinna þá er Evrópusambandið einfaldlega ekki í neinni aðstöðu til að taka að sér varnir Íslands og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð og það jafnvel þótt Ísland myndi gerast þar aðili.

Þess utan má geta þess í lokin að ég er persónulega þeirrar skoðunar, og hef verið lengi, að við Íslendingar eigum að stefna að því að taka sem allra mest að okkur að sjá um eigin varnir.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband