Föstudagur, 31. mars 2006
Hvernig á umræðan að vera, Halldór?
Í tengslum við all sérstæðan spádóm sinn á dögunum, um að Ísland verði komið í Evrópusambandið fyrir árið 2015, hefur Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, ítrekað talað um að umræðan hér á landi um Evrópumálin þurfi að þorskast. Þeim ummælum hefur þó ekki fylgt nein útlegging á því hvað átt er við og hvernig umræðan þurfi að vera til þess að Halldór telji hana þroskaða. Reyndar hefur hann sagt að það sé forsenda þess að Ísland geti gengið í Evrópusambandið að umræðan þroskist sem aftur bendir óneitanlega til þess að það sem Halldór eigi við sé að umræðan þurfi að miða að Evrópusambandsaðild til að hún geti talizt þroskuð. Þannig sé um að ræða sama sjónarmið og hjá ófáum öðrum Evrópusambandssinnum að umræða um Evrópumálin sé alls ekki umræða um Evrópumálin nema hún gangi út á það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.
Þetta er að vísu ekki í fyrsta skiptið sem Halldór talar út og suður um Evrópumálin og er með yfirlýsingar sem síðan fylgir enginn haldbær rökstuðningur. Skemmst er að minnast ítrekaðra yfirlýsinga hans um að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sé að verða úreltur, hafi ekki fylgt þróuninni innan Evrópusambandsins og hvað þetta hét nú allt saman. Þessu fylgdu hins vegar aldrei neitt sem sýndi fram á að þessi gagnrýni ætti við einhver rök að styðjast. Enda hefur Halldór undir það síðasta varla minnst á þetta og sama er að segja um ýmsa aðra sem tóku þátt í þessum grátkór með honum. Það hefur nefnilega einmitt ítrekað verið bent á af aðilum EES-samningsins að hann virki stórvel og jafnvel betur en menn gerðu ráð fyrir í upphafi. Hins vegar sjá Evrópusambandssinnar samninginn í dag fyrir sér sem hindrun fyrir því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og vilja hann því fyrir alla muni feigan sem aftur varpar ljósi á málflutning Halldórs og félaga.
Ég vil bara leggja til við Halldór að hann fari að breyta aðeins til og bæði tala skýrar um Evrópumálin og færa kannski einhver rök fyrir yfirlýsingum sínum ef hann hefur áhuga á því að vera tekinn alvarlega. Hann hefur t.d. ítrekað verið spurður að því af fjölmiðlamönnum í gegnum tíðina hvort hann vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki - nú síðast bara fyrir skemmstu - en verður alltaf jafn vandræðalegur og svarar svo einhverju sem hvorki er fugl né fiskur. Sama er að segja um spádóm hans um að Ísland verði komið í sambandið fyrir árið 2015. Honum fylgdi enginn rökstuðningur um það hvað benti til þess að svo yrði.
Þannig að það er kannski ekki að furða að maður spyrji: Hvernig á umræðan að vera, Halldór?
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 23:16 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004