Leita í fréttum mbl.is

Herinn fer; ný tækifæri

Íslandi er nú ekki öllu lokið þó að Bandaríkjaher dragi saman seglin á Keflavíkurflugvelli. Jafnvel þó að vinstrimenn hafi ekkert til málanna að leggja annað en að gera grín af ríkisstjórninni er ljóst að fjölmörg tækifæri liggja fyrir Íslendinga. Það skal ekki gleyma því að á Keflavíkurflugvelli hafa búið rúmlega 5000 manns og í raun má segja að þar sé allt til alls. Hér langar mig til að viðra mína framtíðarsýn á þessi mál. Einhverjum kann að finnast þetta langsótt en það sem hér er skrifað er skrifað með langtímamarkmið í huga. Hér er þó aðeins farið yfir skipulagsmál og möguleikana á nýtingu svæðisins. Hlutverki Gæslunnar og öðrum öryggis- og varnarmálum mun ég gera skil síðar.

Nú liggur ljóst fyrir eins og áður sagði að Bandaríkjaher mun draga saman seglin á Keflavíkurflugvelli. Helsta starfssemi hersins hefur verið í kringum þær þotur sem nú eru þar staddar (þyrlurnar eru ,,fylgihlutur” þotanna). Jafnframt því hefur þar verið ratsjárstöð og annars konar starfsemi Bandaríkjahers, en þó ekki mikil.

Íslendingar eru sjálfbjarga þjóð. Ég hef ekki áhyggjur af því að minn gamli heimabær, Keflavík, og næsta nágrenni muni þjást vegna breyttra aðstæðna. Það má vel vera að þessar breytingar hitta suma illa fyrir og til þess skal að sjálfsögðu tekið fullt tillit, enda ekki þeim að kenna. Það hefur hins vegar legið í loftinu lengi að þessara breytinga væri von og það er gaman að sjá viðbrögð bæjarstjóra Reykjanessbæjar sem eru full af jákvæðni og framtíðarhugmyndum.

Á meðan Ingibjörg Sólrún hlakkar yfir ,,vandræðum” ríkisstjórnarinnar hafa þeir sem af einhverri alvöru vilja fjalla um málið þegar hafið vinnu að úrlausnum bæði varna landsins og atvinnu- og lífskjörum á Suðurnesjum. Á meðan Ingibjörg hefur ekkert til þeirra mála að leggja (enda hefur hún ekkert vit á varnarmálum eins og hún hefur svo oft orðið uppvís af) ætti hún að hafa sig hæga leyfa öðrum að leysa málið.

Eins og áður sagði hafa yfir fimm þúsund manns búið á Keflavíkurflugvelli. Þar er allt til alls, hús og íbúðir, verslanir, skólar, kirkjur, sjúkrahús, íþróttahús, veitingastaðir, kvikmyndahús og svo frv. Í stað þess að reisa ,,nýtt” bæjarfélag með öllu tilheyrandi er allt meira og minna tilbúið fyrir íbúa Keflavíkurflugvallar.

Í stuttu máli vil ég að eftirfarandi verði gert.

  1. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði rifinn og landið nýtt undir annað. Líklega er bæði hægt að nýta það undir íbúðarhverfi og útivstarsvæði, en það er nú efni í aðra umræðu.
  2. Innanlandaflug verði flutt til Keflavíkur og í stað tveggja flugvalla (eins og nú er) verði rekinn einn flugvöllur. Varla þarf að taka fram að það er auðvitað miklu hagkvæmara. Flugstarfssemi Landhelgisgæslunnar verði líka flutt til Keflavíkur þó svo að stjórnstöð hennar geti verið áfram í Skógarhlíð.
  3. Hugsanlega má bæta Reykjanesbrautina enn frekar. Nú fer brátt að ljúka tvöföldun brautarinnar en það mætti bæta við fleiri akreinum eða koma á lest þar á milli. Tal um að setja á stofn hraðlest á milli Keflavíkur og Höfuðborgarsvæðisins hefur hingað til ekki fallið í góðann jarðveg enda hefur ekki þótt þörf fyrir hana. En með meira flugi í Keflavík og engu í Reykjavík er hugsanlega kominn grundvöllur fyrir einhverju slíku.
  4. Keflavíkurflugvöll væri hægt að nýta undir margt. Eins og áður sagði er þar allt til staðar. Hægt væri að nýta gömlu flugstöðina, flugskýlin og fleiri byggingar sem tengst hafa flugi undir ýmisslegt. Ísland á t.a.m. mjög góða flugvirkja, hægt væri að stofna fyrirtæki sem þjónustar flugvélar.

Uppbyggingu fyrirtækja er viðskiptamanna að ráða úr. Nú á dögum eru íslenskir viðskiptamenn fullir af hugmyndum og ég hef ekki áhyggjur af því að þarna leggist allt í eyði. Einhverjir hafa nefnt hugmyndir um háskólaþorp, það er hægt að hugsa margt vitlausara. En mig langar að líta á þetta frá stjórnmála viðhorfi. Eg tel að markaðurinn og frjáls viðskipti muni leysa úr öðru. Eg er þess fullviss að Íslendingar muni nýta vel það sem fyrir er á Keflavíkurflugvelli.

Höfuðborgarsvæðið er ekki að minnka. Það þarf að styrkja tengslin á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins þannig að þetta sé sama atvinnu og íbúðarsvæðið. Hafnarfjörður og Keflavík geta enn vaxið í áttina hvort að öðru.

Vonandi fara íslenskir stjórnmálamenn að sinna skipulagsmálum með framtíðarsýn í huga. Það er ekki langt í að það þurfi að bæta veginn á milli Reykjavíkur og Selfoss, jafnvel þó að nýbúið sé að bæta veginn vesta við Hellisheiði. Það er nýjasta dæmið um að skammtímasýn þar sem aðeins er verið að ,,redda” hlutunum þangað til næsta vandamál kemur upp.

Það sem ég er hér að reyna að sýna fram á að ef stjórnvöld halda áfram að hafa viðskiptaumhverfi á Íslandi aðlagandi eru ótal tækifæri í nýju bæjarfélagi. Ef stjórnmálamenn átta sig á því að þarna liggja möguleikar og setja ekki stein í götu þeirra þá munu viðskipta- og athafnamenn láta til skarar skríða og nýta svæðið vel.

Á meðan aðrir leysa vandamál getur Ingibjörg Sólrún haldið áfram að reyna að slá pólitískar keilur með því að gera lítið úr ríkisstjórninni. Það hins vegar hjálpar engum, sérstaklega ekki íbúum Keflavíkur og nágrennis.

Góða helgi...

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband