Leita í fréttum mbl.is

Pólitísk rétthugsun

Við lifum í nútímasamfélagi. Við erum stöðugt minnt á að ýmsar skoðanir sem viðgengust á árum áður dugi ekki lengur. Í „nútímaþjóðfélagi“ er meira umburðarlyndi og meira svigrúm til frjálslyndari skoðana en áður hefur viðgengist. Það er að sjálfsögðu allajafna hið besta mál. Fólk áttar sig t.a.m. á því að það er ekki lengur hlutverk hins opinbera að móta skoðanir okkar eða lífsstíl heldur myndum við okkur skoðanir og tökum ákvarðanir út frá þeim og stöndum síðan og föllum með þeim ákvörðunum. Tjáninga- og skoðanafrelsi er líklega einn mikilvægasti hlekkurinn í frjálslyndu þjóðfélagi.

En andstæðinga tjáningar- og skoðunarfrelsisins er víða að finna. Fólk sem er uppfullt af pólitískum rétttrúnaði og getur engan veginn unað því að til séu aðrir sem hafa aðrar skoðanir en það sjálft á lífinu og tilverunni. Því þarf að kæfa þær skoðanir í fæðingu, koma í veg fyrir að þær heyrist með því að viðhalda ótta meðal fólks um einhvers konar félagslega útskúfun, að það verði sett á svarta lista og eigi sér ekki aftur viðreisnar von. Það er einkennilegt þegar „frjálslynda“ fólkið, sem við erum jú vonandi sem flest, ætlar að banna öðrum að hafa skoðanir af því að þær einfaldlega „passa“ ekki við nútímann.

Samtökin ’78 eru einn slíkra aðila eins og hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, fékk að reyna í byrjun ársins. Og nú hafa samtökin kært Gunnar Þorsteinsson, forstöðumann Krossins, fyrir grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 26. febrúar sl. þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að það þjónaði ekki hagsmunum barna að alast upp hjá samkynhneigðum pörum. Burtséð frá því hvað fólki kann að finnast um skoðanir Gunnars er vert að spyrja hvort það telji rétt að banna forstöðumanni fríkirkjusafnaðar að hafa þessa skoðun og lýsa henni yfir? Á pastorinn í Kópavogi yfir sér dóm vegna ummæla sinna? (Rétt er að taka fram að ég tel ekki að Samtökin ’78 tali fyrir munn allra samkynhneigða á Íslandi.)

Gunnar er kærður á grundvelli 233a gr. almennra hegningalaga þar sem segir að „hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Nú skarast á tillitsemi og umburðarlyndi. Samtökin ’78 ætlast til þess að þeim sé sýnd tillitsemi annars eigi sá sem það ekki gerir það á hættu að verða ákærður. Formaður samtakanna hefur borið það eitt fyrir sig að skrif Gunnars hafi „sært“ marga meðlimi samtaka hennar. Það særði líklega ekkert sannkristna þegar ung stúlka, „krossfest“, var keyrð fáklædd í vagni niður Laugaveginn í Gay Pride göngu samtakanna fyrir örfáum árum? Jú, ætli það hafi ekki gert það, en hins vegar réð umburðarlyndi þeirra ferðinni þrátt fyrir skortinn á ,,tillitsemi” umsjónarmanna göngunnar.

En það furðulegasta við kærumál Samtakanna ’78 er að ef forsvarsmenn þeirra eru ósáttir við ummæli Gunnars liggur beinast við að svara honum. Ef hann hefur jafn rangt fyrir sér og samtökin vilja meina ætti það að vera hægðarleikur. Það að samtökin skuli hins vegar kjósa að kæra Gunnar bendir ekki til þess að málefnastaða þeirra sé ýkja sterk. Það kemur hins vegar ekki á óvart í tilfelli þessara samtaka sem hafa í gegnum tíðina byggt baráttu sína að stóru leyti á pólitískri rétthugsun og þeirri skoðanakúgun sem hún felur í sér og treyst á að þau gætu þannig kæft niður alla gagnrýni á sig og sinn málstað.

Staðreyndin er sú að enginn er yfir gagnrýni hafinn, hvorki Samtökin ’78 né aðrir. Samtökin hafa í gegnum tíðina óspart gagnrýnt Gunnar Þorsteinsson og aðra fyrir trú þeirra og skoðanir þeirra á samkynhneigð og m.a. ráðist heiftúðlega gegn Þjóðkirkjunni, biskupi Íslands og ófáum fríkirkjusöfnuðum.

Og sumir þingmenn hafa jafnmikið umburðarlyndi og Samtökin ’78. Það eru aðeins örfáar vikur síðan þingmaður Samfylkingarinnar hvatti þá presta landsins sem ekki hafa viljað lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir að gefa saman samkynhneigð pör, að láta af afturhaldssemi sinni og fordómum. Með þessu var þingmaðurinn (fyrirgefið, þingkonan) að lýsa því yfir að hennar pólitísku skoðanir væru hafnar yfir trúarsannfæringu séranna. Þeir sem telja að hjónaband sé aðeins á milli karls og konu eru útmálaðir sem fordómafullir afturhaldssinnar. Skemmst er þó frá því að segja að íslenska orðabókin skilgreinir hjónaband sem samband milli karls og konu. Kannski að ritstjórar hennar séu að sama skapi bara fordómafullir afturhaldssinnar?

Gisli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is

Greinin birtist áður í morgunblaðinu þann 11.mars 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband