Leita í fréttum mbl.is

Um menningarheima

Samúel P. Huntington ræðir átök milli menningarheima í bók sinni The Clash of Civilization and the Remaking of World Order, sem kom fyrst út árið 1996. Ensk-kínverksi rithöfundurinn Timothy Mo sagði um bókina að hún væri ein af þessum sjaldgæfu bókum sem mótar heiminn ásamt því að lýsa honum. Þegar átök verða á milli menningarheima er nánast alltaf vísað til bókarinnar. Hún er orðin að undirstöðuriti fyrir þá sem vilja vera gjaldgengir í samræðum um málefni líðandi stundar.

Oft er leitað álits Huntingtons þegar þegar átök virðast eiga sér stað milli menningarheima, en það kemur mörgum á óvart hvað Huntington er varfærinn í yfirlýsingum. Hann taldi til dæmis að árásin á Bandaríkin 11. september 2001 væri ekki til marks um átök milli menningarheima heldur væri hún árás kaldrifjaðra villimanna á hið siðmenntað samfélag í öllum heiminum. Það er alls ekki ætlun Huntingtons að auka æsing og tortryggni milli menningarheima, heldur að lýsa ástandinu svo að menn geti tekið skynsamlegar ákvarðanir. Hann tók til dæmis mið af kenningum sínum um menningarheima þegar hann gagnrýndi Íraksstríðið. Hann sagði að það myndi falla í grýttan jarðveg hjá ríkissjórnum og íbúum íslamska menningarheimsins og tvístra þeirri samstöðu sem hafði náðst gegn hryðjuverkum.

Huntington telur að á jörðinni séu um þessar mundir átta stórir menningarheimar (major civilizations):

1. Kínverski menningarheimurinn (Sinic civilization)
Kínverski menningarheimurinn nær yfir Kína, kínversk samfélög eins og og Tævan og Singapore, og skyld menningarsamfélög á borð við Kóreu og Víetnam. Kjarnaland hins kínverska menningarheims er að sjálfsögðu Kína og og höfuðborgin Beijing valdamiðstöðin. Hugtakið lingua franca er notað yfir tungumál sem fólk, sem talar ólík tungumál, notar til samskipta. Lingua franca í kínverska menningarheiminum er mandarínska, sem er jafnframt mest talaða tungumál heimsins.

2. Japanski menningarheimurinn (Japanese civilzation)
Kjarnaland japanska menningarheimsins er eina þjóðríki hans, það er að segja Japan. Höfuðborgin, Tokyo, er að sjálfsögðu valdamiðstöðin og japanska lingua franca.

3. Menningarheimur Hindú (Hindu Civilization)
Indland er langstærsta ríkið í menningarheimi Hindúa. Valdamiðstöðin er höfuðborginni Delhi, en álitamál er með lingua franca. Það hefur verið enska og er að ég held enn. Þegar Norður-Indverji, sem talar Hindí, og Austur-Indverji eða Bangladesh-hindúi , sem talar Bengalí, skilst mér að þeir ræði saman á ensku. Hins vegar sækir Hindi mjög á. Það er eitt mest talaða tungumál heimsins og er tungumál Bollywood myndanna, sem eru fleiri en hinar ensku Hollywood myndir. Margir Indverjar vilja að hindí taki við af ensku sem lingua franca í menningarheimi Hindúa og það gæti orðið raunin áður en langt um líður.

4. Íslamski menningarheimurinn (Islamic civilization)
Íslamski menningarheimurinn nær yfir Norður-Afríku, Austurlönd nær og stór svæði í suð-austur Asíu. Hann hefur ekkert kjarnaland, sem skapar ákveðin vandamál. Ef koma upp átök milli íslamska menningarheimsins og annars menningarheims er til dæmis enginn einn aðili sem hægt er að ræða við og semja við. Nokkur lönd gera tilkall til þess að vera kjarnaríki hins íslamska menningarheims, einkum Egyptaland, Saudi Arabía, Íran, Pakistan og Indónesía. Huntington leggur reyndar til að Tyrkir hætti við niðurlægjandi menningarheimaskipti og gerist leiðtogar hins íslamska menningarheims. Tyrkir eru torn country, sem merkir að landið tilheyrir ákveðnum menningarheimi, en leiðtogar þess vilja að landið tilheyri öðrum menningarheimi. Kemal Ataturk gerði Tyrkland að torn country og það er í raun enn á milli hins vestræna og íslamska menningarheims. Lingua franca í síðarnefnda menningarheimnum er arabíska, sem gerir stöðu Egyptalands og Saudi Arabíu vænlega í baráttunni um að gerast leiðtogar menningarheimsins.

5. Rétttrúnaðar menningarheimurinn (Orhodox civilization)
Rétttrúnaðar menningarheimurinn er fyrverandi Sovétríkin og nokkur ríki austur Evrópu. Rússland er kjarnaland, höfuðborgin Moskva er valdamiðstöðin og lingua franca er rússneska. Þau lönd Austur-Evrópu sem hafa gengið í Evrópusambandið hafa í raun skipt um menningarheima. Úkraína er torn country.

6. Vestræni mennningarheimurinn (Western civilization)
Að mati Huntingtons teljast flest ríki Evrópu, Kanada, Bandaríkin og Eyjaálfa til hins vestræna menningarheims. Hann segir Vesturlönd hafa tvo kjarna. Annars vegar Bandaríkin, með valdamiðstöð í Washington, og hins vegar Frakkland / Þýskaland (sem ég kýs að kalla Karlamagnúsarríkin, með valdamiðstöð í Brussel. Bretland gegnir síðan mikilvægu hlutverki sem brú á milli þessara kjarnasvæða. Lingua franca á Vesturlöndum er að mínu mati enska, þó að Karlamagnúsarríkin muni seint kvitta undir það. Frakklandi og Þýskalandi dreymir reyndar um að mynda sinn eigin menningarheim og er Evrópusambandið tæki til þess. Það voru mikil mistök hjá þeim að halda að það væri hægt með til dæmis Bretland og Spán í sambandinu. Karlamagnúsarríkin hefðu átt að takmarka aðild að Evrópusambandinu við Niðurlönd, Ítalíu, Austurríki og ef til vill Slóveníu, Króatíu, Ungverjaland, Rúmeníu, Tékkland, Slóvakíu og Pólland. Þá hefði Evrópusambandið getað orðið grunnur að nýjum menningarheimi. Bretland hefði þá sennilega orðið hluti af menningarheimi enskumælandi manna (e. Anglosphere), en Spánn orðið kjarnaríki í Íberó-Ameríku, það er að segja menningarheimi rómönsku Ameríku ásamt Íberíuskaganum (Spáni og Portúgal). Norðurlöndin hefðu þá haft nokkra sérstöðu; í raun verið á milli Anglosphere og Karlamagnúsar-Evrópu.

7. Menningarheimur rómönsku Ameríku (Latin American Civilization)
Margir vilja meina að rómanska Ameríka tilheyri Vesturlöndum, en Huntington er á öðru máli. Menningarheimur rómönsku Ameríku er sama marki brenndur og íslamski menningarheimurinn að því leyti að hann hefur ekkert kjarnaríki. Brasilíumenn eru langfjölmennastir, en það háir þeim að þeir tala portúgölsku, en ekki spænsku eins og öll önnur ríki menningarheimsins. Mexíkóar eru torn country eins og Tyrkland og ekki líklegir um þessar mundir til að leiða menningarheiminn. Argentínumenn voru líklegir á tímabili, en efnhagsástandið í Argentínu á undanförnum árum hefur veikt stöðu þeirra. Landamæradeila Bandaríkjanna og Mexíkó eru til marks um spennu milli Vesturlanda og Rómönsku Ameríku.

8. Afríski menningarheimurinn (African civilization)
Afríka sunnan Sahara myndar ef til vill sér menningarheim. Það er að segja sá hluti Afríku sem tilheyrir ekki íslamska menningarheimnum. Menningarheimurinn á ekkert kjarnaland, en Suður-Afríka er líklegur kandídat. Lingua franca um þessar mundir er einkum enska og franska, en oft hefur verið stungið upp á því að afríska tungumálið Swahili verði lingua franca fyrir menningarheiminn. Átökin í Darfur héraði í Súdan eru til marks um átök afríska og íslamska menningarheimsins. Íslamski menningarheimurinn á reyndar í átökum við alla þá menningarheima sem liggja að honum landfræðilega, að undanskildum hinum kínverska.

Ég hugsa að margir gretti sig eða brosi út í annað þegar rætt er um menningarheima á þann hátt sem hér er gert og það er ekki laust við að ég geri það sjálfur. Ástæðan er sú hugsun sem hlýtur að læðist að fólki að um sé að ræða einhvern heilaspuna sem gefur ekki upp rétta mynd af raunveruleikanum. Sú gagnrýni á að mínu mati rétt á sér og vissulega er um einföldun að ræða. Huntington svarar þessu þó vel í formála The Clash of Civilization. Í fyrsta kafla bókarinnar leggur hann áherslu á nauðsyn þess að einfalda hinn flókna veruleika mannlegs samfélags:

Þessi mynd [mín] af stjórnmálum heimsins eftir lok kaldastríðsins, sem eru mótuð af menningarþáttum og felur í sér samskipti milli ríkja og hópa frá mismunandi menningarheimum, er mikil einföldun. Hún sleppir miklu, afskræmir sumt og hylur annað. Eigi að síður, ef við eigum að hugsa alvarlega um heiminn og bregðast á áhrifaríkan hátt við aðstæðum í honum, er nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar einhvers konar einfaldaða mynd af raunveruleikanum, einhverja kenningu, heildarhugmynd, líkan eða viðmið. Án slíkrar vitsmunalegrar smíðar er, eins og William James sagði, aðeins „bölvuð, ærandi óreiða“. Thomas Kuhn sýndi fram á, í hinu sígilda verki The Structure of Scientific Revolution, að vitsmunaleg og vísindaleg framrás verður þegar viðmið, sem í auknum mæli reynist ófært um að skýra nýlega uppgötvaðar staðreyndir, er leyst af hólmi af nýju viðmiði, sem getur skýrt þessar staðreyndir betur. Kuhn skrifaði: „Kenning verður að virðast betri en aðrar kenningar, en hún þarf ekki að vera, og er í raun aldrei, þannig úr garði gerð að hún útskýri allar þær staðreyndir sem lagðar eru fyrir hana.“ Til þess að rata á framandi landsvæði „þarf venjulega einhvers konar kort“, eins og John Lewis Gaddis benti svo viturlega: „Kortagerð er, eins og sjálft hugarstarfið, nauðsynleg einföldun sem gerir okkur fært að sjá hvar við erum og hvert við stefnum.“

Þessi efnisgrein í bók Huntington svarar fjölmörgum gagnrýnisröddum, sem álíta kenningar hans vera mikla einföldun. Á þeim árum sem liðin eru frá útkomu bókarinnar hafa æ fleiri áttað sig á að skynsamlegt hefði verið að styðjast við heimsmynd Huntingtons við töku ákvarðana. Án einfaldaðrar myndar af heiminum getur verið erfitt að bregðast við aðstæðum á skynsaman hátt. Það má orða það þannig að sífellt fullkomnari og flóknari einfaldanir séu þær vörður sem maðurinn verður að fylgja í ferð sinni að skilningstrénu, sem hann sér í hillingum en mun þó trúlega aldrei finna. En þó að leiðarendanum verði aldrei náð er ferðin svo sannarlega ómaksins verð.

Sagan er ekki aðeins lykillinn að samtímanum heldur einnig lykillinn að góðri framtíð. Hún er reynslubanki, sem gefur okkur til kynna hvað hefur reynst vel og hvað ekki. Til þess að skilja söguna er gagnlegt að notast við aðrar fræðigreinar og smíða kenningar, sem auka skilning okkar, en mikilvægt er þó að hafa ávallt í huga að þessar kenningar eru einfaldanir á flóknari veruleika.

Ég held að það sé gagnlegt að notast við heimsmynd Samúels P. Huntingtons, en verð þó að viðurkenna að ég fæ dálítið óbragð í munninn vegna hættunar á að það gleymist að fólk er alltaf fólk, þó að umhverfi og aðstæður móti það að einhverju leyti á misjafnan hátt. Upp í hugann koma vísuorð Tómasar um að hjörtu mannanna svipi saman í Súdan og í Grímsnesinu.

Ásgeir Jóhannesson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband