Mánudagur, 13. febrúar 2006
Mánudagspósturinn 13. febrúar 2005
Það telst varla til frétta lengur að Halldór Ásgrímsson tjái sig með jákvæðum hætti um þá hugmynd að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ummæli hans í ræðu á ráðstefnu Viðskiptaráðs Íslands á dögunum, þar sem hann spáði því að Ísland yrði komið inn í sambandið árið 2015, hafa því varla komið neinum á óvart. Klárlega má gera ráð fyrir að Halldór myndi tjá sig enn jákvæðar um þessi mál ef ekki væri fyrir þær staðreyndir að bæði hans eigin flokkur og samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn eru andvígir aðild að sambandinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fagnaði ummælum Halldórs eins og við var að búast og sagði samhljóm með eigin flokki og Framsóknarflokknum í þessu máli. Hið rétta er hins vegar að samhljómur er á milli Halldórs og Samfylkingarinnar í málinu sem aftur er auðvitað ekkert nýtt.
Fjölmiðlar létu þó sumir eins og þarna væri á ferðinni rosaleg frétt. Fréttablaðið gekk sennilega hvað lengst og birti frétt á forsíðu sinni 9. febrúar sl. undir fyrirsögninni Stjórnarflokkarnir eru ósamstíga um aðild að ESB. Hvað er nýtt? Þetta er þó reyndar ekki rétt samanber það sem fram kemur hér að ofan. Framsóknarflokkurinn er einfaldlega ekki hlynntur því að ganga í Evrópusambandið, og ekki einu sinni að sækja um aðild, eins og berlega má lesa í ályktun flokksþings flokksins frá því fyrir ári. Það er svo allt annað mál hvaða persónulegu skoðanir Halldór Ásgrímsson kann að hafa á málinu. Halldór er vitanlega ekki flokkurinn þó einhverjir kunni að halda það og kannski hann sjálfur.
Það kemur heldur ekki á óvart að Halldór kvarti yfir skorti á umræðu um Evrópumálin á Íslandi. Eins og raunin er með aðra Evrópusambandssinna telst það væntanlega ekki umræða að mati Halldórs nema hún snúist um það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Umræða sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að Ísland eigi ekki erindi í sambandið er þannig ekki umræða og þ.a.l. er engin umræða í gangi um málið. Halldór kvartaði t.a.m. undan slíku umræðuleysi á vettvangi atvinnulífsins en eins og kunnugt er hafa Samtök atvinnulífsins komizt að þeirri niðurstöðu að aðild að Evrópusambandinu sé ekki fýsilegur kostur fyrir Íslands eins og sakir standa. Og það er ekkert einkennilegt þó ófáir hafi komizt að þeirri niðurstöðu.
Ísland stendur mikið sterkar að vígi utan Evrópusambandsins en í raun öll aðildarríki þess eins og t.a.m. alþjóðlegar úttektir á árangri ríkja hafa ár eftir ár sýnt. Ef eitthvað er er forskot Íslands í þeim efnum að aukast fremur en hitt. Efnahagslíf Evrópusamandsins er í mjög slæmum málum og ef eitthvað er í því sambandi þá fer því aðeins versnandi. Stöðnun ríkir, viðvarandi fjöldaatvinnuleysi er til staðar, hagvöxtur er víðast hvar lítill sem enginn o.s.frv. að miklu leyti vegna evrunnar og þeirra miðstýringar sem hún hefur í för mér sér. Og til að kóróna þetta allt eru miklar blikur á lofti varðandi framtíð evrusvæðisins að mati sérfræðinga og ganga sumir svo langt að spá endalokum þess innan fárra ára.
Það er einfaldlega ekkert sem bendir til þess að Ísland muni verða aðili að Evrópusambandinu innan tíu ára. Það er þvert á móti margfalt meiri líkur á að svo verði ekki. Spádómur Halldórs er því vægast sagt einkennilegur. Enda gat hann ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna Ísland ætti að hafa gengið í sambandið fyrir þann tíma. Fyrir utan það að enginn veit hvernig sambandið muni líta út árið 2015 eins og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, kom inn á á dögunum. Ekkert bendir til þess að Svíar, Danir og Bretar muni taka upp evruna sem gjaldmiðil á næstu árum eða bara yfir höfuð, eitthvað sem Halldór sagði hafa lykiláhrif í þessum efnum. Litlar sem engar líkur verða heldur að teljast á því að Evrópusambandið eigi eftir að láta af þeirri gríðarlegu miðstýringaráráttu sem alla tíð hefur einkennt það og færist sífellt meira í aukana. Og það er ekkert sem bendir til þess að Evrópusambandið eigi eftir að breyta sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sinni þannig að það muni henta Íslendingum eða bjóða upp á einhverjar sérlausnir í því sambandi.
Og fyrst komið er inn á sjávarútvegsmálin þá mætti bæta því við að á dögunum var Steingrímur S. Ólafsson, fjölmiðlafulltrúi ríkisstjórnarinnar, í viðtali við fréttavefinn Euobserver.com vegna ummæla Halldórs. Þar sagði hann m.a. (í minni þýðingu): Það er alltaf einhver sem segir að við getum ekki gert þetta [gengið í Evrópusamandið] vegna sjávarútvegsmálanna og þar með er umræðunni lokið. Það vill nú svo til að Halldór Ásgrímsson er einmitt sjálfur einn þeirra sem hefur ítrekað útilokað aðild að Evrópusambandið þurfi Ísland að búa við sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins. Steingrímur gæti því allt eins verið að gagnrýna hann með þessum orðum sínum.
Þannig sagði Halldór t.a.m. í ræðu á Akureyri 10. september 2004: Er eitthvert vit í því að krefjast þess að þjóð sem byggir afkomu sína á fiskveiðum afhendi yfirráðin yfir auðlindum sínum til aðila sem hefur sýnt að er óhæfur til að stjórna eigin auðlindum? Okkur hefur hvað eftir annað verið sagt að þetta sé það sem við þurfum að láta af hendi gegn inngöngu." Í viðtali við finnska dagblaðið Hufvudstadsbladet í júlí sama ár að tilgangslaust væri að velta því fyrir sér hvort Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu á meðan stefna sambandsins væri sú að fiskimið séu sameign aðildarríkjanna. Það að aðild að sambandinu sé ekki á dagskrá og henti ekki hagsmunum Íslendinga, m.a. og ekki sízt vegna sjávarútvegsmálanna, er einnig stefna ríkisstjórnarinnar sem Steingrímur kom fram sem fulltrúi fyrir í umræddu viðtali við Euobserver.com! Hvað gengur manninum eiginlega til?
Staðreyndin er einfaldlega sú að þegar allt kemur til alls er enginn áhugi fyrir því að ganga í Evrópusambandið á Íslandi, hvorki pólitískur né annar. Bakland Halldórs í þessu sambandi er svo gott sem ekkert. Íslenzkir Evrópusambandssinnar geta kvartað yfir því eins og þeir vilja að umræðan um Evrópumálin sé ekki á þeirra forsendum, talað um að Evrópusambandið sé bannorð á Íslandi eins og formaður Samfylkingarinnar gerði um áramótin, eða hvað annað. Það breytir því þó ekki að það er þeirra hlutverk að reyna að sannfæra fólk um meint ágæti þess að Íslandi gangi í Evrópusambandið en ekki annarra. Vissulega eru þeir ekki öfundsverðir af því hlutskipti en það er engu að síður það hlutskipti sem þeir hafa kosið sér. Þyki íslenzkum Evrópusambandssinnum ekki nógu mikið rætt um málaflokkinn frá þeirra hlið geta þeir ekki kennt öðrum um en sér sjálfum.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Meginflokkur: Mánudagspósturinn | Aukaflokkar: Evrópumál, Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 23:27 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004