Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 16. janúar 2006

Baugsmiðlarnir eru ekki fjölmiðlar sem starfræktir eru í fjárhagslegum tilgangi heldur pólitískum. Þetta er auðvitað ekkert sem ekki hefur verið vitað lengi. Það má vel vera að forystumenn Baugs skipti sér ekki af rekstri þessara fjölmiðla á hverjum einasta degi, en hvenær sem þeir telja sig þurfa að hafa áhrif á almenningsálitið á Íslandi og móta það eftir eigin vilja og hagsmunum þá eru fjölmiðlar þeirra miskunnarlaust misnotaðir í þeim tilgangi. Í því sambandi þykir gott að hafa mismunandi fjölmiðla í takinu til að koma mismunandi upplýsingum á framfæri, þegar þess gerist þörf, og til mismunandi hópa í þjóðfélaginu – þ.á.m. eitt sorprit. Enda hafa þessir fjölmiðlar löngum forðast það eins og heitan eldinn að flytja fréttir af forystumönnum Baugs sem talizt gætu neikvæðar (ítarlega er fjallað um misbeitingu Baugs á fjölmiðlum sínum í grein Páls Vilhjálmssonar í nýjasta tölublaði tímaritsins Þjóðmál).

Þetta er síðan klárlega ástæðan fyrir því að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, þvertók fyrir það í tvígang (síðast fyrir rúmri viku) að selja Björgólfsfeðgum DV svo þeir gætu lagt það niður. Hann vildi ekki einu sinni ræða hugsanlegar verðhugmyndir í því sambandi. Einhver kaupsýslumaðurinn hefði nú séð sér leik á borði og kannað hvort hann gæti ekki selt blaðið háu verði fyrst sózt væri stíft eftir því – ekki sízt þegar fyrir liggur að það er rekið með tapi eins og Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar móðurfélags DV, viðurkenndi loks í Kastljósinu sl. föstudag. Áður hafði því verið ítrekað harðneitað. Gunnar sagði að reksturinn væri engu að síður „viðunandi“. En hvernig getur taprekstur á fyrirtæki talizt viðunandi? Jú, ef fyrirtækið er rekið í öðrum tilgangi en fjárhagslegum – t.d. pólitískum.

Í fréttum NFS á föstudaginn kom þetta m.a. fram í umfjöllunum um DV-málið: „Nokkrir eigendur hafa látið í ljós megna andúð á blaðinu. Björgólfur Guðmundsson reyndi í tvígang að kaupa DV og leggja það niður vegna umjöllunar um hann og fjölskyldu sína. Gunnar Smári kannast ekki við þetta tilboð og segir með ólíkindum ef auðugir menn reyndu að kaupa fjölmiðil til þess eins að leggja hann niður ef þeir væru ósáttir við umfjöllun um sig.“ Gunnar Smári sagði ennfremur við sama tækifæri að það væri ótrúlegt ef mönnum dytti slíkt í hug á Vesturlöndum. Í fréttum Ríkisútvarpsins á laugardaginn sagði síðan eftirfarandi: „Fjölmiðlar geta gengið kaupum og sölum en það væri hneyksli ef auðmenn þögguðu niður í miðlum ef þeim líkaði ekki umræðan, segir formaður Blaðamannafélags Íslands.“ Í fréttinni var ennfremur talað um "aðför" að frelsi fjölmiðla í þessu sambandi.

En hvað sem því líður þá veit ég nú betur en að Baugur, stærsti eigandi Dagsbrúnar, sé einmitt þessa dagana að velta alvarlega fyrir sér að kaupa útgáfufélag danska dagblaðsins Berlingske Tidende, að margra mati ekki sízt vegna þess að blaðið hefur verið hvað gagnrýnast af dönskum fjölmiðlum á fjárfestingar fyrirtækisins í Danmörku. Væntanlega er þó ekki hugmyndin að leggja það niður ef af þessum kaupum verður, enda um að ræða fjölmiðil á talsvert hærra plani en DV, en fjárfestingin er klárlega ekki hvað sízt hugsuð til að skrúfa niður í gagnrýnni umfjöllun um Baug í dönskum fjölmiðlum. En það þarf þó auðvitað ekki að líta út fyrir landssteinana í þessu sambandi, enda er þetta klárlega helzta ástæðan fyrir því að Baugsmenn fóru út í það að fjárfesta í íslenzkum fjölmiðlafyrirtækjum.

En kannski er það bara hneyksli og aðför að fjölmiðlafrelsinu ef hugmyndin er að kaupa fjölmiðla og leggja þá niður vegna neikvæðrar umfjöllunar (hvernig sem það er nú fengið út), en aftur á móti ekki þegar fjölmiðlar eru keyptir í því skyni að tryggja sér jákvæða umfjöllun í þeim og fjölmiðlamarkaðir fylltir til að koma í veg fyrir að aðrir geti haslað sér þar völl.

---

Jóhannes Jónsson í Bónus er annars sagður hafa verið hlynntur því að selja Björgólfsfeðgum DV ólíkt syni hans. Hins vegar var haft eftir honum í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudaginn að blaðið yrði ekki fjarlægt úr verzlunum Bónus þótt hann hefði oft á tíðum ímugust á því að eigin sögn. Sagði hann ástæðuna vera þá að viðskiptavinurinn réði því hvað væri til í Bónus: „Kúnninn drepur vöruna.“ Staðreyndin er þó sú að tóbak hefur t.a.m. aldrei verið selt í verzlunum Bónus og sú ákvörðun var því ljóslega ekki tekin vegna þess að viðskiptavinir Jóhannesar hafi haft eitthvað um málið að segja.

Yfirlýsing Jóhannesar er því auðvitað algerlega marklaus og þannig séð ekkert því til fyrirstöðu að hætt væri að selja DV í Bónus ef vilji væri fyrir því. Það er þó auðvitað fyrst og síðast ákvörðun eigenda og stjórnenda fyrirtækisins. Yfirlýsingin er hins vegar lýsandi fyrir nálgun þeirra sem ráðið hafa ferðinni hjá DV á DV-málinu öllu saman sem öll hefur meira eða minna gengið út á að fría sig alfarið ábyrgð á því með einum eða öðrum hætti hvernig haldið hefur verið á málum hjá blaðinu.

---

 

Annars las ég í Fréttablaðinu í gær að sr. Toshiki Toma, presti innflytjenda, hefði borizt nafnlaust hótunarbréf sem hann hyggst kæra. Vil ég hvetja hann eindregið til að gera það, enda er það framferði að senda fólki slíkt eitthvað sem ávallt ber að fordæma, sama hver stendur fyrir því eða af hvaða ástæðum. Var ennfremur greint frá því í fréttinni að Alþjóðahúsið við Hverfisgötu hefði boðist til að aðstoða sr. Toshiki við að kæra málið. Segir sr. Toshiki við Fréttablaðið að hann hafi þá grunnstefnu að þegja ekki.

Sama á við um mig. Ég hef sjálfur lent í því að berast slíkt hótunarbréf þar sem mér var m.a. hótað dauða ef ég hætti ekki að tjá skoðanir mínar á innflytjendamálum. Það gerðist í byrjun árs 2004 og tilkynnti ég það strax til lögreglu. Fljótlega var komizt á snoðir um það hver hefði sent bréfið og kannski er það ákveðin kaldhæðni að það skuli einmitt hafa verið þáverandi starfsmaður Alþjóðahússins sem var að verki.

Sá ég mér ekki annað fært en að kæra umræddan einstakling eftir að hafa frétt að hann hefði sent öðrum manni sambærilegt hótunarbréf. Var sendandinn að lokum dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fésekt í janúar í fyrra og vona ég að hann hafi látið sér það að kenningu verða.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband