Leita í fréttum mbl.is

Gróa á Leiti og einn maður sem sagði mér í teiti

Jón Ólafsson, athafnarmaður hefur fengið að stíga svanavals undir eigin tónlist í fjölmiðlum alla þessa viku. Út er komin Jónsbók hin síðari undir öruggri ritstjórn Einars Kárasonar hins ágæta rithöfunds. Nú borgar sig reyndar að fara varlegum orðum um athafnarmanninn svona ef maður vill halda öllum milljónunum sem þegar er búið að leggja til hliðar. Hann hefur haft af því unun síðustu ár að fara eifaldlega í meiðyrðamál við þá sem hafa vogað sér að gagnrýna hann eða hans vinnubrögð. En nóg um það.

Það var búið að skapa talsverða spennu í kringum viðtal Kastljóssins við Jón Ólafsson sem sýnt var sl. þriðjudag í tengslum við útkomu fyrrnefndar bókar. Þarna átti víst að afhjúpa einhver meint samsæri Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins gegn Jóni í gegnum tíðina. Ekki skemmdi fyrir athyglinni að viðtalið hafði ekki farið í loftið kvöldið áður eins og auglýst hafði verið. Nú hlaut eitthvað rosalegt að hafa gerst, viðtalið jafnvel stoppað og menn teknir á teppið. Já, allt er nú til. En viðtalið fékk út á þetta töluverða auglýsingu – ókeypis.

Það kom því sennilega ófáum á óvart hversu innihaldslaus svör Jóns voru þegar á hólminn var komið. Það vantaði ekki að Jón væri með alls kyns ásakanir í garð ýmissa sjálfstæðismanna, en þegar kom að því að færa einhver rök fyrir þeim eða koma með einhver dæmi sem gætu sýnt fram á að þær væru á rökum reistar var komið að galtómum kofanum.
Jón gat einfaldlega ekki sýnt fram á neitt um að Davíð eða Sjálfstæðisflokkurinn eða nokkur innan hans hafi sett stein í götu hans eins og hann orðaði það. Þórhallur Gunnarsson gekk ítrekað á hann í viðtalinu í Kastljósinu og bað hann að nefna einhver dæmi um þessar ásakanir en Jón neitaði að verða við því og kom sér undan því á alla lund. Undir það síðasta spurði Þórhallur hvort hann gæti nefnt EITT dæmi sem styddi mál hans. Svarið var loðið og innihaldslaust.

Það eina sem Jón hafði fram að færa voru innantómar dylgjur og gróusögur eins og reyndar við var að búast sem er einmitt sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að Jón hefur sjálfur haldið því fram að ýmsar sögur um hann sjálfan væru ekki á rökum reistar, eins og t.d. að hann hafi komið undir sig fótunum í upphafi með eiturlyfjasölu. M.a. fóru lokamínútur viðtalsins í Kastljósinu meira eða minna í að hann var að kveinka sér undan þeim sögum, en gat svo ekki fært nein rök sjálfur fyrir ásökunum sínum í garð Davíðs og Sjálfstæðisflokksins.

Eina sem Jón nefndi í þessa veruna var að honum hefði verið tjáð að Skúli Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóri, hefði sagt fullur í gleðskap að embætti hans hefði verið boðin aukafjárveiting upp á 40 milljónir króna ef hann tæki skattamál Jóns og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til rannsóknar. Auðvitað mun Jón aldrei gefa upp hver sagði honum þetta og sá aðili gæti þess vegna allt eins verið uppspuni einn. Það er a.m.k. allt eins líklegt og að það sé rétt að hann sé til og hafi sagt Jóni þetta. En hvernig sem það er gengur þessi saga ekki upp, þó ekki nema bara fyrir þær sakir að Skúli Eggert er stakur bindindismaður og hefur verið í þrjá áratugi. Og fyrir utan það, þá er einkennilegt að Jón og Einar skuli velja sér hugsanlega fylleríssögu utan út bæ til að hnekkja á hugsanlegum óvinum sínum. Engu skiptir hvort sagan er sönn eða ekki. Bara að hún henti þeim. En það er kannksi það besta sem þeir hafa.

Í Fréttablaðinu 16. nóvember sl. sagði Jón síðan eftirfarandi: ,,Ef einhver tekur eitthvað til sín úr bókinni þá skelfur viðkomandi eflaust. Það er allt satt og rétt sem er í bókinni. Ef einhver sér sig knúinn til þess að svara fyrir sig eða verja sig þá er það vegna þess að viðkomandi hefur slæma samvisku."

Þetta eru auðvitað furðuleg ummæli svo ekki sé meira sagt. Heldur Jón að það sem fram kemur í bókinni geti ekki verið umdeilt eins og annað? Að það geti ekki verið að einhverjir telji ekki rétt fjallað um hlutina í henni? Það eru auðvitað yfirgnæfandi líkur á því og í besta falli fáránlegt að gefa sér að það sé ekki hægt að hafa eitthvað við innihald bókarinnar að athuga án þess að það geti átt fullan rétt á sér. Þessi ummæli Jóns er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að hann óttist að gerðar verði athugasemdir við það sem fram kemur í bókinni.

Þetta á að verða mjög snjall leikur hjá Jóni. Þarna fara hann og Einar Kárason, yfirlýstur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, mikinn gegn flokknum og mönnum innan hans. Síðan segja þeir bara, ,,tja, þeir taka þetta til sín sem eiga. Ef einhver þarf að verja sig eða telur að hann þurfi þess þá hlýtur hann að vera sekur um það sem við segjum að hann sé sekur um.” – Einmitt. Þeir frændur Jón og Einar stilla þarna öllum upp við vegg. Let them deny it!!

Það helsta sem Jón hafði fram að færa voru dylgjur og gróusögur. Einn maður hafði sagt öðrum manni sem hafði síðan sagt Jóni að Davíð væri á móti honum. Annar maður sagði öðrum manni sem sagði síðan Jóni að einn maður hafði sagt öðrum manni að kannski ætti að gera eitthvað gegn Jóni. Það var jú annar maður sem sagði það líka eftir að hinn hafði sagt það áður. Þá bara hlýtur þetta að vera satt. Sértaklega ef hinn sagði þetta líka. Ef að lygin er sögð nógu oft þá hlýtur hún að vera sönn – eða hvað?

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband