Leita í fréttum mbl.is

Framtíðarhópur Samfylkingarinnar

Nú á sko að taka á því. Samfylkingin hélt um s.l. helgi málfund.
Samfylkingin ætlar sér stóra hluti í íslenskri pólitík og heldur því reglulega málfundi til að, jú væntanlega „ræða málin.”
Hvort að niðurstaða komi út frá fundunum er svo annað mál.

Það er athyglisvert að vita að Samfylkingin skuli starfrækja það sem hún kallar „Framtíðarhóp Samfylkingarinnar.” Já það er til nefnd eða ráð (orð sem koma oft fyrir
hjá vinstrimönnum) sem hefur það hlutverk að móta stefnu flokksins í framtíðinni. Yfirmaður þessarar nefndar er sá aðili sem ekki fékk vinnu vorið 2003, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
,,Á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar sumarið 2003 var samþykkt að setja á fót framtíðarhóp til að móta og útfæra nánar þá stefnu flokksins sem samþykkt var á stofnfundi í maí árið 2000." (Tekið af vef framtíðarhóps Samfylkingarinnar)

Þegar í ljós kom að Samfylkingunni hafði ekki tekist að fella þáverandi og núverandi ríkisstjórn var ákveðið að halda, - jú málþing. Í þetta skipti var það þó kallað flokkstjórnarfundur. Þá var ákveðið að þar sem Ingibjörg Sólrún væri nú atvinnulaus og biðlaun hennar frá Reykjavíkurborg væru á enda, skyldi hún veita þessum hóp forstöðu.
Líklegast þykir mér að Samfylkingarmenn hafi vaknað upp við það að stefna þeirra s.l. 3-4 ár var innihaldslaus og að þingmenn flokksins hefðu ekki afkastað miklu.
Því var þörf á að stofna „framtíðarhóp” sem átti í alvöru að koma einhverju í verk.
En nýi hópurinn var þó ekki merkilegri en það að forstöðumaður hans gat sinnt því verki samhliða háskólanámi í London. Kannski að menn hafi ekkert gert sér miklar vonir um „framtíð” næststærsta stjórnmálaflokks á Íslandi. Pæling.

En það eru nokkur atriði sem eru umhugsunarverð varðandi þennan hóp. Það eru fimm manns sem mynda „kjarnahóp” framtíðarhópsins. Þau eru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi alþingismaður, Sverrir Teitsson háskólanemi og Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar. Nú hefur Samfylkingin verið iðin við að gagnrýna kynjahlutföll hjá flestum öðrum stjórnmálaflokkum. Þessi flokkur hefur látið hátt í sér heyra varðandi [meint] brot bæði æðstu embættismanna, og svo stjórna hinna flokkanna á jafnréttislögunum. Hins vegar eru 60% af kjarnahóp framtíðarhóps (prófið að segja það tíu sinnum hratt) konur. Það má því skilja það þannig að það séu framtíðaráform Samfylkingarinnar að 60% allra þeirra aðila sem bjóða sig fram í flokknum og fyrir flokkinn skuli vera konur. Einum þingmanni flokksins fannst það meira að segja nauðsynlegt að dreifa jafnréttislögunum til ríkisstjórnarinnar um daginn. Ætli það hafi staðið eitthvað um 60% hlut kvenna þar. Já það er gott að Samfylkingin er með jafnréttishugarfarið á hreinu fyrst að enginn annar er það. Kannski finnst mönnum íhaldsmaðurinn vera að gera of mikið úr þessu. En svo er nú ekki miðað við hvað Samfylkingin hefur lagt mikið upp úr „jafnréttismálum.”

Já, það eru fimm manns sem hafa það hlutverk að móta framtíð Samfylkingarinnar.
Á sama tíma er skotið harkalega að Sjálfstæðisflokknum (m.a. af Svanfríði Jónasdóttur í Silfri Egils fyrir örfáum vikum) fyrir að vera með fámenna karlaklíku sem tekur grófar ákvarðanir í reykfylltum bakherbergjum (þó svo að fæstir af leiðtogum Sjálfst.flokksins reyki í raun og veru).

Það hlýtur að vera erfitt að vera Össur Skarphéðinsson. Það er vera kosinn réttilega formaður flokks á flokksþingi en þurfa síðan að sanna öðru hvoru að hann sé í raun formaður hlýtur að vera erfitt. Kannski er Össur einfaldlega ekki góður leiðtogi, um það skal þó ekki dæmt hér. Nú er auðvitað spurning hvort að Ingibjörg Sólrún skuli leiða framtíðarhóp Samylkingarinnar með sjálfa sig í huga sem formann flokksins. Hún hefur nú tilkynnt framboð sitt til formanns fyrir landsfund flokksins á næsta ári.
Gera má fastlega ráð fyrir því að hinir fjórir í kjarnahópnum styðji hana heilshugar.
Ætli hún sjái þó framtið í flokknum með Össur sem formann?
Getur Ingibjörg leitt áfram framtíðarhóp tapi hún kosningunum á næsta ári?

Það stendur til að kjarnahópurinn sem hér hefur verið nefndur kynni hugmyndir sínar á næsta ári. Þannig að það verða s.s. liðin fimm ár frá stofnun flokksins þangað til að stefna hans verður í raun og veru lögð á borðið. Ekki kæmi á óvart þó að Samfylkingin myndi siðan stofna nefnd eða „vinnuhóp” sem hefði síðan það hlutverk að „útfæra” hugmyndir framtíðarhóps. (mikið að gæsalöppum enda „spes” flokkur)

Já það er skrítið að flokkur sem lagði af stað með mikla hugsjón skuli enn vera að móta framtíðarstefnu sína. Hugmyndin á bakvið flokkinn var að sameina alla vinstrimenn. Mikið var lagt upp úr (og er enn) að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að víkja úr ríkisstjórn. Hugsjónin var mikil og markmiðið hærra.
Ekkert af þessu hefur þó tekist. Ekki hefur tekist að fella ríkisstórnina (þó svo að Össur hafi verið tilbúinn að setja svilkonu sína út í kuldann og ganga til samstarfs við „ömurlega flokkinn” eins og Ingibjörg lét úr úr sér um sl. helgi)

Það sem stendur því eftir er að það ríkir mikil hagsæld fyrir þá sem það velja eftir stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Samfylkingin hins vegar stendur varla í lappirnar og er enn að reyna að móta stefnu sína.
Kannski að menn hefðu átt að koma sér saman um stefnu fyrst og stofna svo stjórnmálaflokk sem átti að sigra landið.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband