Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 19. júní 2006

Ómerkilegheitum Jóhanns Haukssonar, fyrrv. blaðamanns á Fréttablaðinu, virðast lítil takmörk sett. Eins og kunnugt er hefur hann staðið í deilum við Þorstein Pálsson, ritstjóra blaðsins, og Sigurjón M. Egilsson, fréttaritrstjóra þess, síðan í byrjun þessa mánaðar, en þá stóð til að fela honum önnur verkefni á blaðinu en hann hafði áður sinnt. Á fundi Jóhanns með þeim félögum var sú skýring gefin að Jóhann hefði blandað um of sínum persónulegu skoðunum í skrif sín fyrir blaðið. Við það sætti Jóhann sig ekki og sagði upp í fússi, rétt eins og hann hafði áður gert á Ríkisútvarpinu þegar til stóð að ráða fréttastjóra án hans blessunar.

Málflutningur Jóhanns í málinu hefur verið vægast sagt einkennilegur. Fyrst í stað hélt hann því fram í fjölmiðlum að Þorsteinn og Sigurjón hafi "gefið í skyn" að tölvupóstur frá Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra,  þar sem hann gerði athugasemdir við skrif Jóhanns um hleranamálið svokallað, hafi orðið þess valdandi að ákveðið var að færa hann til í starfi. Eftir að Þorsteinn hafði sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins, þar sem  m.a. kom fram að þetta væri alger uppspuni, breytti Jóhann frásögn sinni yfir í það að athugasemdir dómsmálaráðherra hefðu verið "nefndar" á fundinum með þeim Sigurjóni og Þorsteini eða "tilteknar" .

Það mun vera alveg rétt hjá Jóhanni að athugasemdirnar hafi verið nefndar til sögunnar á fundinum, þó ekki af þeim Þorsteini og Sigurjóni heldur aðeins af honum sjálfum. Jóhann spurði hvort athugasemdir dómsmálaráðherra kæmu málinu við en því var alfarið neitað. Ómerkilegar tilraunir hans, í þá veru að reyna telja fólki trú um að Þorsteinn og Sigurjón hafi nefnt athugasemdir dómsmálaráðherra sem ástæðu þess að færa ætti hann til innan Fréttablaðsins, eru augljósar. Þetta kemur t.a.m. berlega í ljós í ítarlegu viðtali Blaðsins við Jóhann sl. laugardag þar sem hann gerir aldrei þessu vant enga tilraun til að halda því fram að tölvupóstur dómsmálaráðherra hafi komið málinu við. Einungis að hann hafi spurt hvort svo væri en fengið neitun.

Í viðtalinu við Blaðið segir Jóhann orðrétt: "Ég bað um einstök dæmi til rökstuðnings [fyrir því hvers vegna til stæði að færa hann til innan Fréttablaðsins] en dæmin komu aldrei. Einu skýringarnar sem komu voru frá fréttaritstjóranum um að hér yrði fólk fært til og það mundi verða gert áfram, punktur! Ritstjórinn sagði eitthvað á þá leið að það væri ekki eitthvað eitt að ræða [sic] heldur byggðist þetta á heildarmati. Ég var engu nær og spurði hvort umkvörtun Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem sent var í tölvupósti væri orsökin. Ekki var ég að slá neinu föstu heldur spurði. Þá sagði ég við tvímenningana að ég liti á þetta sem vantraustsyfirlýsingu og að það væri verið að lækka mig í tign. Daginn eftir var annar fundur þar sem við
þrír komum saman en þá var ég búinn að viða að mér blöðum og vildi fá dæmi. Á fundinum komu engar frekari skýringar en áður höfðu komið fram."

Það er ekki hægt að segja annað en að framkoma Jóhanns í þessu máli sé fyrir neðan allar hellur svo ekki sé meira sagt. Blekkingar og hálfsannleikur. Eitthvað sem sömuleiðis var uppi á teningnum í skrifum hans um hleranamálið svokallað. Og svo þykist Jóhann vera fórnarlamb í þessu máli?

---

Og meira um þetta mál. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, er sennilega með seinheppnari mönnum hér á landi. Í það minnsta var sú raunin sl. föstudag, en þá birtist eftir hann grein um mál Jóhanns Haukssonar í Blaðinu sem greinilega var ætlað að koma höggi á Þorstein Pálsson sem þó verður að teljast í hæta máta misheppnað útspil. Í upphafi greinarinnar segir Mörður orðrétt:
 
"Jóhann segir að á fundi með ritstjóra og fréttaritstjóra hafi verið vitnað til tölvubréfs sem dómsmálaráðherra skrifaði ritsjóranum [sic] út af grein Jóhanns um hleranamálið. Því neitar Þorsteinn Pálsson. - Væri ekki rétt að birta það bréf í Fréttablaðinu svo lesendur geti dæmt sjálfir um innihald þess - einkum hvað Björn fór fram á við flokksfélaga sinn og fyrrverandi formann í ritstjórastóli Fréttablaðins?" Síðar í greininni segir síðan: "Meðan yfirmenn Fréttablaðið [sic] segja ekki alla söguna stendur uppá þá sú einfalda skýring að þesi athöfn sé af pólitískum rótum - blaðið vilji ekki tyggja flokkinn og ríkisstjórn hans."
 
Öll grein Marðar gengur út á það að setja saman einhverja furðulega samsæriskenningu byggða á því einu að tölvupóstur Björns Bjarnasonar hafi ekki verið opinberaður. Mörður hefur hins vegar greinilega ekki kynnt sér málið betur en svo í æsingnum við að reyna að slá pólitískar keilur að hann veit ekki að Björn sendi ekki aðeins afrit af umræddum tölvupósti til Jóhanns samhliða því sem hann var sendur til Þorsteins heldur birti hann einnig á heimasíðunni sinni.

Þetta gerðist fyrir meira en hálfum mánuði síðan og ætti að hafa verið nógu áberandi í umræðum um þetta mál allt til að þess að fara ekki framhjá Merði hefði hann haft fyrir því að kynna sér staðreyndir þess. Björn vakti síðan aftur athygli á þessu á heimasíðu sinni 12. júní sl. Það er því kannski ekki von að maður spyrji hvort hægt sé að vera seinheppnari en þetta í pólitíkum æðibunugangi?

---

Fyrir utan það að bera með sér löngun Marðar Árnasonar til að flæma Þorstein Pálsson úr ritstjóratóli Fréttablaðsins sýnir grein hans vel þá örvæntingu sem greinilega fer ört vaxandi hjá mörgum innan Samfylkingarinnar um að flokkurinn sé að missa þá stöðu sem hann áður hafði gagnvart blaðinu. Angistin leynir sér ekki.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband