Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 17. apríl 2006

Fyrir nokkru birtist grein á vefritinu Hugsjónir.is eftir mig undir fyrirsögninni „Sósíalískur fótboltaleikur“ þar sem ég dró upp einfalda mynd af því út á hvað sósíalisminn sem hugmyndafræði, sem og ýmis afbrigði hans eins og sósíaldemókratisminn, gengi í raun og veru út á í grunninn. Benti ég á það, sem við hægrimenn höfum í gegnum tíðina margoft vakið athygli á, að þegar vinstrimenn tala um jafnrétti þá eiga þeir ekki við eiginlegt jafnrétti, þ.e. að allir hafi sama rétt og sömu reglur gildi um alla, heldur eitthvað sem miklur heldur mætti kalla jafnstöðu þar sem allir væru svo gott sem í sömu meðalmennskunni. Tók ég tvö dæmi í þessum efnum, annað af fótboltaleik og hitt af skólaprófi. Orðrétt lauk greininni á þessum orðum:

„Í grundvallaratriðum er hugmyndin ævinlega sú að það sé ekki nóg að fólk hafi jöfn réttindi heldur eigi hið opinbera að grípa inn í, þegar sumir einstaklingar hafa fyrir lífinu og ná árangri en aðrir gera það ekki, og jafna stöðu þeirra. Þá gjarnan með einhverjum sértækum aðgerðum eins og það er kallað (t.d. með svokallaðri „jákvæðri mismunun“, „kynjakvótum“ og „fléttulistum“ svo dæmi séu tekin), enda gengur ekki að mati vinstrimanna að fólk sem hefur fyrir lífinu, hvort sem það er með því að leggja á sig langskólanám eða öðru, hafi það betra en þeir sem ákveða af einhverjum ástæðum að gera það ekki.“

Eins og ég átti von á og tók fram í greininni kom hún greinilega við kauninn á ýmsum vinstrimönnum. Þannig ritaði Hildur Edda Einarsdóttir t.a.m. grein á vefrit Ungra jafnaðarmanna, Pólitík.is, 15. apríl sl. þar sem hún finnur grein minni flest til foráttu. Í stuttu máli segir hún það ekki sanngjarnt að taka dæmi af fótboltaleik eða skólaprófi til að lýsa mismunandi árangri einstaklinga eftir því hversu mikið þeir leggja á sig í lífinu til að ná honum. Hún segir að ekki standi allir jafnfætis í byrjun eins og í þessum dæmum þar sem sumir séu ríkir, og hafi af þeim sökum mikil völd, á meðan aðrir séu fátækir og hafi engin völd eins og hún orðar það. Hún tekur síðan sjálf m.a. það dæmi að þetta sé eins og að láta blint fótboltalið keppa við lið þar sem allir leikmennirnir eru sjáandi.

Að leggja að jöfnu blindu og fátækt er vitaskuld fáránlegt. Blinda er eitthvað sem allajafna verður ekki sigrast á en það sama verður ekki sagt um fátækt, sérstaklega ekki á Íslandi alsnægtanna í dag þar sem fátækt er varla til. Það getur hver sem er unnið sig upp úr fátækt ef hann bara leggur sig eftir því. Ég leyfi mér raunar að fullyrða að flestir þeir sem náð hafa miklum árangri í lífinu hér á landi í dag, og tekist að öðru leyti að koma sér vel fyrir í lífinu, hafa ekki gert það vegna þess að þeir eiga eða hafa átt ríka foreldra heldur fyrst og fremst vegna eigin framtakssemi og dugnaðar. Oftar en ekki er í þeim efnum um að ræða fólk sem kemur einfaldlega frá afar venjulegum heimilum, venjulegt fólk.

Ég veit ekki í hvaða þjóðfélagi Hildur heldur að hún búi, svo virðist sem hún sé föst í einhverju 19. aldar samfélagi og telji að venjulegt fólk eigi enga möguleika á að ná árangri í lífinu þó það leggi hart að sér nema með ríkulegri aðstoð hins opinbera. Þannig er það þó almennt séð ekki á Íslandi í dag eins og flestir vita. Það er þess utan sennilega ekkert eins agandi fyrir mannskepnuna og að þurfa að hafa fyrir hlutunum. Ekkert sem getur gert manninum eins gott og að ná árangri í lífinu fyrir eigin dugnað og fyrirhöfn. En það verður alltaf til fólk sem öfundast út í aðra vegna árangurs þeirra og telur að það sjálft eigi að fá hlutdeild í honum sí svona og af því bara.

Annars er staðreyndin sú að hæglega má ganga of langt í átt til velferðar, hvort sem það er fyrir tilstuðlan hins opinbera eða t.a.m. ríkra foreldra. Þetta er í raun alveg sami hluturinn að því leyti að það hefur í raun sömu áhrif á það fólk sem í hlut á. Enginn hefur einfaldlega gott af því að fá of mikið upp í hendurnar án þess að þurfa að hafa fyrir því sjálfur. Slíkt hefur í flestum tilfellum aðeins mannskemmandi áhrif á fólk. Þá gildir einu hvort um er að ræða dekur af hálfu hins opinbera eða af hálfu ríkra foreldra. Þegar velferð fer að hafa þau áhrif á fólk að það nennir ekki að hafa fyrir hlutnunum sjálft þá er einfaldlega eitthvað að.

---

Þess utan þá þótti mér athyglisvert að Hildur skyldi ekki minnst einu orði á þau þrjú dæmi sem ég tók um svokallaðar sértækar aðgerðir sem vinstrimenn margir hverjir eru mjög hrifnir af í því skyni að koma á meintu jafnrétti, þá gjarnan á milli kvenna og karla. Þá á ég við svokallaða „jákvæða mismunun“, „kynjakvóta“ og „fléttulista“ . Þetta þrennt er einmitt alveg lýsandi fyrir sósíalismann. Einstaklingarnir eiga ekki að ná árangri í lífinu á eigin verðleikum heldur á eitthvert utanaðkomandi vald að “rétta” stöðu þeirra sem taldir eru standa höllum fæti.

Ég er mikill jafnréttissinni og tel sem slíkur að kyn eða annað slíkt eigi ekki að skipta máli t.d. í ráðningum í stöður, aðeins einstaklingurinn og verðleikar hans. Það var sjónarmið kvenfrelsishreyfingarinnar í upphafi, en í seinni tíð hefur þetta breytzt og nú skiptir kyn öllu máli að mati að mati margra þeirra sem þykjast vera jafnréttissinnar.

---

Að lokum þetta. Í upphafi greinar sinnar segir Hildur að greinin mín hafi verið fræðandi og hafi þannig m.a. varpað ljósi á hugsunarhátt hægrimanna að hennar mati. Það er auðvitað hið bezta mál, en svo virðist sem hún hafi alls ekki þurft á þeirri fræðslu að halda að eigin mati og hafi þegar myndað sér mjög afgerandi skoðanir í þeim efnum – allavega þegar kemur að íhaldsstefnunni. Þannig skrifaði hún eftirfarandi á vefsíðuna Arndís.is 21. febrúar sl.: „Íhald.is er sori, en það er nú ekkert skrítið miðað við hvað íhaldsstefnan sem slík er mikill sori.“ Hildur sá einmitt sérstaka ástæðu til að skírskota til mín sem íhaldsmannsins Hjartar Guðmundssonar, sem í sjálfu sér er auðvitað hið bezta mál og einungis hrós fyrir mína parta. Ég efast þó einhvern veginn um að það hafi verið tilgangur Hildar ;)

Ummæli hennar eru auðvitað afskaplega “málefnaleg” og í samræmi við það fylgdi nákvæmlega enginn rökstuðningur. Ekki einu sinni heiðarleg tilraun til þess. Hvað ætli Hildi findist um það ef t.a.m. ég skrifaði eða segði einhvers staðar opinberlega: „Pólitík.is er sori, en það er nú ekkert skrítið miðað við hvað jafnaðarstefnan sem slík er mikill sori.“? Ég er ekki viss um að henni myndi líka það og af mjög skiljanlegum ástæðum verð ég að segja. Persónulega myndi ég t.d. aldrei láta slíkt út úr mér. En kannski skiptir öllu máli fyrir jafnaðarmanninn Hildi hvort um er að ræða Jón eða sr. Jón?

Eigandi síðunnar, Arndís Anna Gunnarsdóttir ritstjóri Pólitík.is, svaraði síðan Hildi að bragði: „Mest kemur mér á óvart að menn skuli viðurkenna opinberlega að vera íhaldsmenn. Í mínum huga er það allavega hálfgert fúkyrði... Svona eins og að eigna sér urlið siðblindur.is, eða afturhald.is eða álíka.“ Hildur bætti síðan um betur og var ekkert að skafa utan af því: „Ætli þessi url séu frátekin, siðblindur.is og afturhald.is? Annars væru þau kjörin til þess að vísa beint í ihald.is. Sori.is skilst mér að sé líka laust og ekki er það verra uppnefni.“ Þarna kemur skýrt fram að það sem að baki lá hjá henni var að uppnefna, eitthvað sem mun sennilega seint geta talizt málefnalegt. Maður veltir því eðlilega fyrir sér hvort þær stöllur hafi gert sér grein fyrir því að þær væru að ræða málin fyrir opnum tjöldum? Það verður ekki beint sagt að þessar samræður séu til marks um mikinn pólitískan þroska eða bara þroska almennt.

Mér, og sjálfsagt fleirum, þykja þessi skrif annars mjög fróðlegt þar sem þau veita óneitanlega ákveðna innsýn í hugsunarhátt þeirra Hildar og Arndísar. Ég vona þó innilega að hér hafi aðeins verið um að ræða afmörkuð hliðarspor af þeirra hálfu og ennfremur dettur mér ekki í hug að gefa mér það að um sé að ræða dæmigerðan hugsunarhátt íslenzkra vinstrimanna. En hvað sem því líður er bara að sjá hvort ummæli hinna mjögsvo “málefnalegu” jafnaðarmanna verði nú fjarlægð af Arndís.is. Gaman að þessu ;)

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband