Leita í fréttum mbl.is

Mogginn fegrar Hamas

Fyrirsögnin ,,Hamas í sáttahug?” prýddi forsíðu Morgunblaðsins þann 5. apríl síðastliðinn. Fréttin fjallaði um bréf sem al-Zahar, utanríkisráðherra Hamas stjórnarinnar, sendi Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Í bréfinu segir al-Zahar, að Palestínumenn vilji lifa með öllum nágrönnum sínum. Fréttin byggði á frétt AFP fréttastöðvarinar, en þeir eins og t.d. Associated Press og CNN og aðrar stórar fréttastofur þykjast geta lesið milli línanna að Ísraelar séu í hópi þeirra nágranna sem Hamas menn vilji ,,lifa með”.

Þeir sem fylgjast vel með málefnum mið-austurlanda hljóta allir að sjá að þessi skilningur er fráleitur. Það liggur algjörlega í augum uppi að Hamas stjórnin vill ekki ,,lifa með” Ísraelum. Al-Zahar er nýbúinn að láta hafa það eftir sér í viðtali við kínverska fjölmiðla að hann láti sig dreyma um útrýmingu Ísraelsríkis, auk þess sem hann sagði í nýlegu viðtali að þó að Bandaríkjamenn gæfu Palestínumönnum allan auð Bandaríkjanna, í skiptum fyrir viðurkenningu á tilverurétti Ísraela, þá myndi hann aldrei fallast á það – jafnvel þó það kostaði þá alla lífið. Ég tel að menn geti ekki tekið mikið skýrar til orða en þetta. Meira að segja AFP hlýtur að skilja að al-Zahar ber engan ,,sáttahug” til Ísraela. Frétt þeirra er einfaldlega óheiðarleg. Hamas samtökin vilja að Palestínumenn lifi í friði með öllum nágrönnum sínum þegar sá dagur kemur, að Ísrael er ekki lengur til. Þetta hafa þeir ítrekað æ ofan í æ, aftur og aftur og einu sinni enn.

Ég veit satt að segja ekki hvað vakir fyrir vestrænum fjölmiðlum þegar þeir reyna að fegra ímynd þessarar nýju ríkisstjórnar Palestínumanna. Hamas samtökin eru ekkert annað en ofbeldisfull fasista samtök. Það er ámælistvert að fegra þeirra ímynd.

Annars er þessi fegrunarárátta stóru fréttastöðvanna ekki ný af nálinni. Þær hafa reynt að gera sem minnst úr ódæðisverkum Palestínumanna, en um leið hafa þeir sagt okkur skilmerkilega frá ofbeldisverkum Ísraela. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á fréttaflutningi Reuters árið 2003 kom eftirfarandi í ljós:

Þegar ofbeldisverk voru framin af Ísraelum, var Ísrael nefnt í 100% fyrirsagna Reuters, og sagnorðið í fyrirsögninni var alltaf í germynd: ,,Ísraelskar hersveitir drápu Palestínumann á Vesturbakkanum.”

Þegar ofbeldisverk voru framin af Palestínumönnum, var gerandinn, eða orðið Palestína, Palestínumenn o.s.frv, aðeins notað í 33% af fyrirsögnum Reuters, og sagnorð fyrirsagnarinnar í þolmynd: ,,Strætisvagn springur í Jerúsalem.”

Slagsíðan verður varla skýrari.

Sindri Guðjónsson
sindri79@gmail.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband