Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006

Mogginn fegrar Hamas

Fyrirsögnin ,,Hamas í sáttahug?” prýddi forsíðu Morgunblaðsins þann 5. apríl síðastliðinn. Fréttin fjallaði um bréf sem al-Zahar, utanríkisráðherra Hamas stjórnarinnar, sendi Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Í bréfinu segir al-Zahar, að Palestínumenn vilji lifa með öllum nágrönnum sínum. Fréttin byggði á frétt AFP fréttastöðvarinar, en þeir eins og t.d. Associated Press og CNN og aðrar stórar fréttastofur þykjast geta lesið milli línanna að Ísraelar séu í hópi þeirra nágranna sem Hamas menn vilji ,,lifa með”.

Þeir sem fylgjast vel með málefnum mið-austurlanda hljóta allir að sjá að þessi skilningur er fráleitur. Það liggur algjörlega í augum uppi að Hamas stjórnin vill ekki ,,lifa með” Ísraelum. Al-Zahar er nýbúinn að láta hafa það eftir sér í viðtali við kínverska fjölmiðla að hann láti sig dreyma um útrýmingu Ísraelsríkis, auk þess sem hann sagði í nýlegu viðtali að þó að Bandaríkjamenn gæfu Palestínumönnum allan auð Bandaríkjanna, í skiptum fyrir viðurkenningu á tilverurétti Ísraela, þá myndi hann aldrei fallast á það – jafnvel þó það kostaði þá alla lífið. Ég tel að menn geti ekki tekið mikið skýrar til orða en þetta. Meira að segja AFP hlýtur að skilja að al-Zahar ber engan ,,sáttahug” til Ísraela. Frétt þeirra er einfaldlega óheiðarleg. Hamas samtökin vilja að Palestínumenn lifi í friði með öllum nágrönnum sínum þegar sá dagur kemur, að Ísrael er ekki lengur til. Þetta hafa þeir ítrekað æ ofan í æ, aftur og aftur og einu sinni enn.

Ég veit satt að segja ekki hvað vakir fyrir vestrænum fjölmiðlum þegar þeir reyna að fegra ímynd þessarar nýju ríkisstjórnar Palestínumanna. Hamas samtökin eru ekkert annað en ofbeldisfull fasista samtök. Það er ámælistvert að fegra þeirra ímynd.

Annars er þessi fegrunarárátta stóru fréttastöðvanna ekki ný af nálinni. Þær hafa reynt að gera sem minnst úr ódæðisverkum Palestínumanna, en um leið hafa þeir sagt okkur skilmerkilega frá ofbeldisverkum Ísraela. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á fréttaflutningi Reuters árið 2003 kom eftirfarandi í ljós:

Þegar ofbeldisverk voru framin af Ísraelum, var Ísrael nefnt í 100% fyrirsagna Reuters, og sagnorðið í fyrirsögninni var alltaf í germynd: ,,Ísraelskar hersveitir drápu Palestínumann á Vesturbakkanum.”

Þegar ofbeldisverk voru framin af Palestínumönnum, var gerandinn, eða orðið Palestína, Palestínumenn o.s.frv, aðeins notað í 33% af fyrirsögnum Reuters, og sagnorð fyrirsagnarinnar í þolmynd: ,,Strætisvagn springur í Jerúsalem.”

Slagsíðan verður varla skýrari.

Sindri Guðjónsson
sindri79@gmail.com


Mánudagspósturinn 10. apríl 2006

Í ágúst á síðasta ári var haldin ráðstefna í Reykjavík á vegum samtakanna Mont Pelerin Society sem margir kannast vel við. Ráðstefnan, sem stóð í nokkra daga, þótti takast mjög vel og sóttu hana fjölmargir. Á meðal merkari gesta á henni var Vaclav Klaus, forseti Tékklands, og flutti hann afar fróðlegt erindi sem bar heitið „The Intellectuals and Socialism: As Seen from a Post-Communist Country Situated in Predominantly Post-Democratic Europe“. Í erindinu fjallaði Klaus m.a. um nýjar birtingarmyndir sósíalismans, ýmsar hugmyndafræðir sem væru sósíalískar í grunninn og sem vinstrimenn hafi í auknum mæli farið að leggja áherzlu á og skýla sér á bak við eftir fall Sovétríkjanna. Sósíalisminn væri alls ekki dauður, hann hefði aðeins verið að stóru leyti færður í nýjar umbúðir sem þættu vænlegri til markaðssetningar.

Meðal þeirra hugmyndafræða sem Klaus tiltók í þessu sambandi eru umhverfisverndarhyggja (þar sem náttúran er sett í forgang en ekki frelsið) og róttæk mannréttindahyggja (þar sem ótrúlegustu hlutir eru skilgreindir sem mannréttindi). Þá nefndi Klaus m.a. fjölmenningarhyggjuna, feminismann og Evrópuhyggjuna (stuðningur við samrunaþróunina innan Evrópusambandsins) til sögunnar. Erindi Klaus er um margt mjög fróðlegt og hvet ég fólk endilega til að kynna sér það nánar, en það má m.a. nálgast á heimasíðu höfundar. Sömuleiðis er hægt, ef fólk kýs þann kostinn frekar, að hlýða á ræðuna á netinu á vefsíðunni The Brussels Journal.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

„An honest man can feel no pleasure in the exercise of power over his fellow citizens.“

Thomas Jefferson

Sjálfstæðir kjósendur

Í bókinni, Parties without Partisans, fjallar Russel J. Dalton meðal annars um minnkandi flokkshollustu almennt og veltir því upp hvort hana megi jafnvel rekja til pólitískra hneykslismála og hvort stjórnmálaflokkar standi sig almennt verr nú á dögum en áður fyrr. Hann gengur nú ekki svo langt að fullyrða að minnkandi flokkshollusta sé vegna pólitískra hneykslismála en gefur því þó aðeins gaum með því að vísa í að minnkandi flokkshollusta í BNA varð áberandi í kringum Víetnam stríðið og Watergate hneykslið. Það sama gerðist í Bretalandi þegar breska stjórnin átti í miklum erfiðleikum með stjórn efnahagsmála á 7. og 8. áratugnum. Hann hrekur þó þessa kenningu til baka síðar í kaflanum og kennir öðrum breytum um.

Þá má e.t.v. vera að þegar hneykslismálin fóru að opinberast meir en áður og stjórnkerfið varð opnara að flokkshollusta hafi orðið minni. Samfélagið er mögulega meira vakandi fyrir slíkum hlutum auk þess sem fjölmiðlar eru duglegir við að flétta ofan af slíku ef spilling á sér stað. Það fer hins vegar eftir því hvernig maður skilgreinir flokkshollustu. Í fyrsta lagi er hægt að segja að flokkshollusta sé fólgin í þeim sem skráðir eru í flokkinn og taka þátt í starfi hans. Hins vegar er hægt að skilgreina flokkshollustu á þeim sem meira og minna ,,alltaf” kjósa flokkinn.

En það er auðvelt að hrekja þá fullyrðingu að flokkshollustan hafi minnkað vegna pólitískra hneykslismála og að stjórnmálaflokkar hafi staðið sig verr en áður.

Dalton vill meina að aðrir hlutir orsaki minnkandi flokkshollustu. (Við skulum hafa í huga að hér er átt við skráða og virka flokksmeðlimi) Ber þar helst að nefna að ungt fólk í dag er ekki að finna tilgang í því að vera skráð í stjórnmálaflokk. Það er e.t.v. lítið á því að ,,græða” að vera í stjórnmálaflokk þar sem einstaklingar eru orðnir sjálfsstæðari og minna þörf að vera ,.laumufarþegi” (ath. mín orð, ekki Daltons) í stjórnmálaflokk til að koma sér áfram. Áberandi er minnkandi flokkshollusta meðal menntamanna sem gefur okkur einnig þá mynd að fólk treystir frekar á sjálfstæði sitt og menntun heldur en stjórnmálaflokka. Þetta á við um öll vestræn ríki, ekki bara Ísland.

Einnig er erfitt að fullyrða að stjórnmálaflokkar hafi eitthvað staðið sig ,,betur” á árum áður. Allir geta þó verið sammála um að þeir voru meira áberandi og tengsl við stjórnmálaflokkar voru e.t.v. nauðsynlegri (ef þannig má að orði komast) en nú til dags. Ef við töku Ísland sem dæmi að þá þótta í varla annað koma til greina en að ríkisvaldið (þ.e.a.s. stjórnmálmennirnir) lagfærðu og tókust á við t.a.m. hagsveiflur, gjaldþrot fyrirtækja, uppbyggingu nýrra fyrirtækja og svo frv. Þó vissulega hafi verið dæmi um einkarekstur þá var mikil krafa um opinberan rekstur. Það var e.t.v. talið ,,öruggara.” [1] Frjálshyggjumenn myndu segja að of mikil afskipti ríkisvaldsins séu slæm á meðan sósíalistar myndu segja að þau væru af hinu góða. Þess vegna er erfitt að setja mælikvarða á hvort að stjórnmálaflokkar hafi staðið sig vel eða ekki.

Ég tel einfaldlega að flokkshollustu hafi minnkað af því að stjórnmálaflokkarnir hafa orðið minna að segja um daglegt líf hins almenna borgara en áður. Menn þurfa ekki lengur flokksskírteini til að fá lán í banka, fá vinnu og margskonar ,,velvilja” í þjóðfélaginu. Almenningur er orðinn sjálfstæðari en áður var og það teldist til tíðinda ef að einhver annað hvort græðir á því og/eða geldur þess að vera í stjórnmálaflokki. [2]

Ungir ,,kjósendur” hugsa meira um að koma undir sig fótunum á eigin vegum heldur en að stjórnmálaflokkarnir sjái um þá og skipta sér því minna af stjórnmálum. Að sama skapi hafa margir flokkar, bæði hérlendis og erlendis, færst nær inn á miðjuna og gefið kjósendum minna val á að skilgreina sig sem hægri eða vinstri. Það er alveg ljóst að um leið og einstaklingur er genginn í flokk á hann erfitt með að sjá eitthvað gott við aðra flokka og telur sig vera bundinn sínum flokki. Það er einfaldlega minna um slíkt í dag.

Til viðbótar vil ég meina að um leið og ungt fólk vill koma undir sig fótunum á eigin dáðum þá vill það samt vita hvað stjórnmálaflokkarnir hafa að bjóða. Því vill almenningur vera frjáls um að geta valið á milli ef þeim þykir henta. Þannig að fyrirgreiðslupólitíkin snýst ekki lengur um að ,,redda” mönnum lóðum, lán eða stöður heldur er hún í raun komið í annað form, gjaldfrjálsa leikskóla, opinbera styrki við hin og þessi málefni, íbúðarlán, feðraorlof og svo frv. Hvor mönnum þyki þetta góð þróun eða ekki verður ekki tíundað hér en væri efni í aðra grein.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


[1] Ath. mín ágiskun. Það eru ekki til nenar heimildir um að opinber rekstur hafi nokkuð verið öruggari en einkarekstur. En ég leiði líkum að því að menn hafi haldið það hér áður.

[2] Ef undan er skilið pólitískar tilnefningar í hinar ýmsu opinberar stöður, s.s. embættismenn, sendiherrar og svo frv. Hvað mönnum síðan finnst um slíkar tilnefningar er svo annað mál og verður ekki tíundað hér frekar.


Samfylkingin um varnar- og öryggismál

Hvernig stendur á því að formaður Samfylkingarinnar og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn hafa ekkert til málanna að leggja í varnar- og öryggismálum landsins, annað en að saka núverandi ráðamenn um seinagang og sinnuleysi?

Eins og alþjóð veit hafa bandarísk yfirvöld tilkynnt að þeir munu hverfa af landi brott með herþotur sínar og björgunarþyrlur. Þó liggur það ljóst fyrir að varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjannna er enn í fullu gildi og ekki við öðru að búast en að bæði löndin komi til með að uppfylla hann.

Það er hins vega mjög athyglisvert að horfa á stjórnarandstöðuþingmenn fjalla um málið. Það eina sem t.a.m. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur haft til málanna að leggja er að gera lítið utanríkisstefnu landsins, saka menn um að vera ekki viðbúnir og svo frv.

Á Alþingi fyrir um tveimur vikum sagði Ingibjörg Sólrún í umræðum að ráðamenn þjóðarinnar hefur lagt uppí langferð með gamla staðalímynd og árangurinn enginn. Ingibjörg hins vegar lagði ekkert nýtt til málanna, engar hugmyndir um varnarsamstarf, enga framtíðarsýn, ekkert.

Í ræðu sinni gleymdi hún líka að minnast á núverandi varnarsamning og aðild Íslands að NATO. Vissi hún ekki örugglega að þessum tveimur atriðum?

Það síðasta sem Ingibjörg getur gert er að saka ríkisstjórnina um að hafa sofnað á verðinum. Fylgdist hún ekki með fréttum þegar það lá ljóst fyrir að Íslendingar myndu taka yfir verkefni þyrlusveitar varnarliðsins?

Björn Bjarnason hefur á þeim þremur árum sem hann hefur verið dómsmálaráðherra eflt sérsveit lögreglunnar. Það er einn liður í að efla öryggi og varnir landsins. Viðbrögð vinstrimanna voru algjörlega út í hött. Það eftirminnilegasta er líklega þegar Helgi Hjörvar tilkynnti dómsmálaráðherra að hann væri ekki Bruce Willis. Ekki voru færð ítarlegri rök Samfylkingarinnar gegn eflingu sérsveitarinnar.

Og það er annað sem vert er að skoða. Fyrir um ellefu árum síðan talaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra (þá menntamálaráðherra) um að Íslendingar þyrftu að fara að huga að því og undirbúa sig til að taka á sig fleiri verkefni varðandi varnir og öryggi landsins. Í ellefu ár hafa vinstrimenn málað Björn Bjarnason upp sem stríðsæsingarmann og ekkert annað lagt til málanna. Þeir hafa sakað Björn um að vilja stofna íslenskan her, sem hann hefur þó aldrei sagt. Það er orðið hálfgerð sögusögn (e.myth) að núverandi dómsmálaráðherra vilji stofna her. Slíkar yfirlýsingar engar stoð undir sér.
En innihaldslausar yfirlýsingar er engu að síður oft helsti drifkraftur Samfylkingarinnar

Nú má ekki gleyma því varnarþörf landsins er ekki fullnægt með fjórum herþotum. Vinsti mönnum finnst skorta skilgreiningu á hættumati. ,,Hver ætti s.s. að ráðast á okkur?” er ekki óalgeng spurning. Það er alveg rétt, við eigum ekkert ríki sem óvin í augnablikinu. Hins vegar er margs konar atriði sem vert er að huga að, t.a.m. alþjóðleg glæpastarfssemi, s.s. eiturlyfjaumferð, mannsal, kynlífsþrælkun. Að sama skapi er hryðjuverkaógn út um allan heim, og Ísland er þar ekki undanskilið. Allt ,,ógnar” þetta öryggið þjóðarinnar. Hins vegar er unnið hörðum höndum að því að bæta og efla þær deildir stjórnkerfisins sem snúa að þessu.

Á meðan þarf Samfylkingin að ná í gamlan formann Alþýðuflokksins (sem þó segist vera hættur í stórnmálum) til að móta utanríkisstefnu flokksins. Flokkurinn er búinn að vera til í næstum áratug og hefur ekki enn mótað sér almennilega utanríkisstefnu. Það eina sem hefur komið frá Ingibjörgu og Samfylkingunni í þessum málum er að við eigum að leita til Evrópusambandsins hvað varðar varnir landsins. Slíkar yfirlýsingar opinbera enn og aftur vanþekkingu Ingibjargar og skósveina hennar á málinu. Evrópusambandið hefur sjálft ekki komið sér upp almennilegri varnarstefnu og er ekki að fara að sinna vörnum landa sem ekki eru í sambandinu.

Gisli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Mánudagspósturinn 3. apríl 2006

Einstakir Evrópusambandssinnar reyna nú hvað þeir geta að tengja Evrópusambandið inn í umræður um þá stöðu sem upp er komin í varnarmálum Íslands. Þær tilraunir eru í ætt við vandræðalegt upphlaup Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, í byrjun árs 2004 þegar hún viðraði hliðstæðar yfirlýsingar. Þær vangaveltur hljóðnuðu þó fljótt eftir að fulltrúi frá varnarmálaskrifstofu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Pieter C. Feith, kom hingað til lands og gerði lýðum ljóst að ekki væri raunhæft að gera ráð fyrir því að sambandið tæki að sér varnir landsins ef Bandaríkjamenn tækju þá ákvörðun að hverfa af landi brott. Til þess hefði Evrópusambandið einfaldlega ekki bolmagn og það jafnvel þó Ísland væri þar aðili.

Ástæðan fyrir þessu sagði Feith vera þá að sá herafli sem Evrópusambandið væri að byggja upp væri hugsaður til þess að bregðast við einstökum deilum og árásum en ekki til að sinna viðvarandi vörnum. Þannig væri grundvallarmunur að þessu leyti á Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu sem væri varnarbandalag. Þetta ítrekaði síðan Richard Wright, umsjónarmaður samskipta Evrópusambandsins við EFTA ríkin, í heimsókn hans til Íslands nú fyrir skemmstu. En jafnvel þó Evrópusambandið stefndi að því að verða fært um að sjá um viðvarandi varnir þá tæki það án efa mörg ár í uppbyggingu og má ætla að í millitíðinni yrði búið að finna viðunandi lausn á varnarmálum Íslendinga. Svo er þó ekki eins og áður segir.

Það er því kannski ekki að furða að ýmsir klóri sér í kollinum og skilji ekkert í því þegar reynt er að blanda Evrópusambandinu inn umræður um varnarmál Íslands og þá ekki síður í ljósi þeirrar einföldu staðreyndar að þau Evrópuríki, sem rætt hefur verið um að hugsanlega geti komið að vörnum landsins, eru þegar ásamt Íslandi aðilar að Atlantshafsbandalaginu sem er, eins og áður segir, varnarbandalag! Ef t.a.m. Bretar samþykktu að koma að vörnum Íslands með einhverjum hætti þyrftu þeir ekki frekar að hafa Evrópusambandið með í ráðum en þegar þeir ákváðu að taka þátt í innrásinni í Írak ásamt Bandaríkjamönnum eins og staðan er í dag.

Hitt er svo annað mál að Evrópusambandið gengur vissulega sífellt meira á fullveldi aðildarríkja sinna á hverju sviðinu á fætur öðru og er m.a. stefnt að því í Brussel að sambandið taki meira eða minna yfir utanríkis- og varnarmál þeirra. Sú er þó ekki raunin enn sem komið er þó líklegt verði að telja að sú verði niðurstaðan á endanum. Þess er þó sennilega að bíða í einhver ár enn. En á meðan Atlantshafsbandalagið er til staðar, og Ísland er aðili að því, liggur beinast við að ræða um varnarmál landsins á þeim vettvangi verði niðurstaða íslenzkra stjórnvalda sú að Bandaríkjamenn bjóði ekki upp á lausnir sem duga Íslendingum.

Á þessari stundu er því algerlega ótímabært að afskrifa áframhaldandi varnarsamstarf við Bandaríkjamenn og er vægast sagt furðulegt upphlaupið í þeim, sem vilja endilega troða Íslandi inn í Evrópusambandið, vegna stöðunnar í varnarmálum landsins. Það sýnir aðeins örvæntingu þeirra þegar kemur að Evrópumálunum, hangið er bókstaflega á hverju hálmstrái. Staðreyndin er sú - eins og áður er komið inn á - að þrátt fyrir einlæga óskhyggju íslenzkra Evrópusambandsinna þá er Evrópusambandið einfaldlega ekki í neinni aðstöðu til að taka að sér varnir Íslands og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð og það jafnvel þótt Ísland myndi gerast þar aðili.

Þess utan má geta þess í lokin að ég er persónulega þeirrar skoðunar, og hef verið lengi, að við Íslendingar eigum að stefna að því að taka sem allra mest að okkur að sjá um eigin varnir.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


Gullkornið á sunnudegi

„Success is the ability to go from one failure to another with no loss of enthusiasm.“

Sir Winston Churchill


« Fyrri síða

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband