Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2006

Geðvondur þingmaður

,,Best að svara þessum andskotum..”
- Yfirskrift á pistli sent út af póstlista Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.

Enn og aftur fer Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins (sem annars er ekki mjög frjálslyndur) mikinn á heimasíðu sinni. Í þetta sinn tekur hann út reiði sína á Staksteinum Morgunblaðsins. Staksteinar voru víst eitthvað vondir við hann um helgina og jafnaðargeðsmaðurinn Magnús sættir sig auðvitað ekki við einhverja gagnrýni.

Það er nú ekki ætlun mín að taka sérstaklega upp hanskann fyrir Morgunblaðið, þó að um ágætis blað sé að ræða. Það er hins vegar athyglisvert þegar ,,háttvirtur” þingmaður eins og Magnús á víst að vera æsir sig á þennan hátt og skrifar eitthvað út í loftið án þess að færa fyrir því nokkur rök. Hann byrjar á því að segja Staksteina ,,hendi skít” í andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Seinna í greininni segist hann þó aldrei lesa blaðið en fer þó frjálsum orðum um að kalla það málgagn Sjálfstæðisflokksins og málpípu sérhagsmunaíhaldsins, hvað sem það nú er. Vonandi á hann ekki við Íhald.is, þó að við séum jú nokkuð sérstakir.

Gagnrýni Moggans var þó ekki harðari en það að höfundi Staksteina fannst skrýtið að þingmaður Frjálslynda flokksins skyldi kenna fjölmiðlum og stjórnarmeirihlutanum um minnkandi traust almennings til þingsins. Já, þetta er sami þingmaður og skrifaði fullur inn á spjallvef um það að hann vildi ,,... fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnaminnihlutan hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum.”

Magnús heldur síðan langa tölu um að þetta minnkandi traust almennings til Alþingis sé allt Sjálfstæðismönnum að kenna. Ekki er Magnús þó málefnalegri en svo að hann fer með dylgjur og rógburð um menn og maka þeirra.

Magnús segir m.a. ,,Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er nýorðinn stjórnarformaður eins olíufélaganna sem grunuð eru um að hafa stolið milljörðum af viðskiptavinum sínum.”
Hann gleymir því þó að minnast á það að það eru nýjir eigendur að þessu olíufélagi sem ekkert ólöglegt hafa gert.

Og hinn rólegi þingmaður heldur áfram, ,,Við getum líka litið til þess að núverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins er hugsanlega flæktur í alvarlegt fjármálahneyksli eftir brask með stofnfjárlhluti [...] Hann er þá ekki sá eini af núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið viðriðinn vafasama gjörninga á fjármálasviðinu.”
Þetta eru sterkustu rök Magnúsar. Svona svara hann gagnrýni. Hann sakar menn um að vera ,,hugsanlega” flækta í eitthvað og einhverjir aðrir hafi verið viðrinir eitthvað vafasamt.

En það besta kom í lokin, lesum nú vel og vandlega, ,,Ég gæti líka talið upp langan lista og sagt ljótar sögur af því hvernig vilji Alþingis er hreinlega hunsaður af framkvæmdavaldinu. Til að mynda í nokkrum nýlegum þeim tilvikum þar sem þingið hefur verið svo vitlaust að vísa ályktunum sínum til ríkisstjórnarinnar. [...] Ég held ekki. Hér á landi ríkir ekki þingbundið lýðræði, heldur þingbundið einræði og mér dettur ekki einu sinni í hug að fara að snobba fyrir þessu rugli sem oft er í gangi við Austurvöll.
Ég bara vinn þarna.”

Það er nú gott að vita að Magnús bara vinnur þarna. Er það ekki stóralvarlegt mál ef vilji Alþingis er hunsaður af framkvæmdarvaldinu? Ætlar Magnús bara að sitja á þessum langa lista og ljótum sögum og ekkert að aðhafast? Hvað er orðið um lýðræðið í landinu? Hvar endar þetta allt saman?
Eða er þessi setning Magnúsar kannski bara enn einn rógburðurinn?

Menn eins og Magnús æsa sig við minnstu tilefni. Ef honum er mótmælt brúkar hann munn og kallar menn ljótum nöfnum. Á Alþingi (sem Magnús ber ekki mikla virðingu fyrir) eru menn sem gaspra um málefni án þess að vita nokkuð um þau, þar eru einstaklingar sem halda margra tíma ræður án þess að segja nokkuð bara til þess að tefja mál sem þeim líkar ekki. Þar eru einstaklingar sem kunna ekki að gera bindishnút og neita að ganga með bindi. Þar eru tækisfærirsinnar sem segja A í dag og B á morgun ef skoðankönnun gefur til kynna að A sé ekki vinsælt. Næst stærsti flokkur landsins er enn í ,,stefnumótunarvinnu" þó svo að hann sér búinn að vera starfandi í um sjö ár.

En þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með langmesta fylgið í könnunum er minnkandi traust almennings til Alþingis er víst Sjálfstæðismönnum að kenna. Einmitt.

Og við þetta er svo að bæta að Magnús var óánægður með það að RÚV skyldi ekki rjúfa dagskrá þegar jarðskjálfti varð hér fyrr í vikunni. Samkvæmt hans eigin orðum var ,,einhver sinfónía í gangi” þegar hann ætlaði að stilla á stöðina til að leita sér upplýsingar um skjálftann. Til að öðlast meiri athygli spurði hann síðan forsætisráðherra hvort einhver aðgerðaráætlun væri til um slíkt hættuástand. Vildi þingmaðurinn meina að RÚV hefði gjörsamlega bruðgðis öryggishlutverki sínu.

Það er auðvitað rétt að Rás eitt var ekki snör í snúningum. Ef Magnúsi finnst ,,einhver sinfónía” óþörf ætti hann kannski að snúa sér að framkvæmdarstjóra síns eigin flokks enda gegnir hún því vafasama hlutverki að vera formaður Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins. Það gengur auðvitað ekki að menningarhlutverk RÚV gangi yfir öryggishlutverk RÚV. NFS hefur þó engu ríkisboðnu hlutverki að gegna og sagði frá skjálftanum, það gerði Rás tvö reyndar líka.

Skemmst er þó frá því að segja að það myndaðist ekkert hættuástand.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Mánudagspósturinn 6. mars 2006

Íslam í Evrópu er heitt málefni í dag, ekki sízt í kjölfar teikningamálsins svokallaða. Ég var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils í gær þar sem við ræddum einmitt um þessi mál. Er skemmst frá því að segja að að mínu mati er vandamálið í þessu sambandi að sjálfsögðu ekki fólkið sjálft, þ.e. múslimarnir. Múslimar eru vitaskuld ekkert verra fólk en hverjir aðrir og þar finnst bæði gott fólk sem og svartir sauðir eins og annars staðar. Munurinn er kannski sá að svörtu sauðirnir á þeim bænum eru sennilega hættulegustu mennirnir sem finnast í heiminum í dag. Ég hef hins vegar persónulega alltaf nálgast innflytjendamálin í heild fyrst og fremst á forsendum einstaklingshyggjunnar vegna þeirrar einföldu staðreyndar að við erum jú öll einstaklingar þegar allt kemur til alls, óháð kynþáttum, trúarbrögðum, kynjum, uppruna o.s.frv. Að mínu mati snýst þetta aðallega um hugsunarhátt. Vitanlega mótar umhverfið fólk allajafna mjög mikið og þar með t.a.m. sá menningarheimur sem það elst upp við.

Það hefur verið sagt um múslima að sú samfélagsgerð sem þeir búi flestir við í múslimskum ríkjum sé að mörgu leyti hliðstæð og sú sem við Evrópumenn bjuggum við á miðöldum, þar sem trúarlegir leiðtogar voru á kafi í veraldlegum málum og höfðu þar gríðarleg áhrif, enda engin sérstök skil á milli trúarlegs og veraldslegs valds þá. Reyndar bara á annan veginn þó því veraldlegir höfðingjar áttu ekki að skipta sér af andlegum málefnum og gátu jafnvel átt á hættu að vera bannfærðir ef þeir vildu ekki hlýta valdi kirkjunnar manna eins og dæmi eru um.

Svona er þetta enn hjá múslimum víðast hvar að því er bezt virðist og þennan heim hafa þeir flutt með sér til Evrópu og komizt upp með vegna fjölmenningarstefnunnar, miskilins umburðarlyndis, barnaskapar og ekki sízt pólitískrar rétthugsunar sem eiga að stóru leyti auðvitað uppruna sinn í slæmri samvizku Evrópumanna vegna nýlendutímans og glæpa nasista í stríðinu. Sambærileg þróun hefur ekki átt sér stað í múslimaheiminum og hér á Vesturlöndum varðandi aðskilnað veraldlegs og andlegs valds og því er þetta allt saman enn í einum graut á þeim bænum eins og ýmsir hafa orðað það.

Ég er sjálfur sannfærður um að minnihluti múslima séu öfgamenn, en ég held engu að síður að það sé ljóst að öfgamennirnir hafi gríðarlega mikil völd á meðal margra múslima, jafnvel mikils meirihluta þeirra. Hliðstætt og var með kaþólsku kirkjuna á miðöldum. Þessir öfgamenn hafa áhrif sín og völd aðallega í krafti ótta og þá auðvitað fyrst og síðast trúarlegs ótta. Fremst í flokki þessara einstaklinga fara hinir svokallaðir ímamar sem virðist hafa ríka tilhneigingu til að verða bókstafstrúaðir öfgamenn. Það er því kannski ekki að furða að ríki eins og Danmörk, Frakkland og Holland hafi verið að reyna að koma slíkum aðilum úr landi.

Vandamálið er þó m.a. það að í krafti nútímatækni geta þessir öfgamenn komið boðskap sínum á framfæri til skoðanabræðra sinna á Vesturlöndum, t.d. í gegnum internetið. Annar galli er að flestir þessara ímama eru þegar komnir með ríkisfang í viðkomandi löndum og því hægara sagt en gert að vísa þeim úr landi. T.d. mun raunin vera sú núna í Danmörku. Rætt hefur verið um það í dönsku ríkisstjórninni að vísa ímömum, sem tóku þátt í að æsa upp hatur í garð Danmerkur og Dana í múslimaheiminum, úr landi en niðurstaðan mun hafa verið sú við nánari athugun að það væri einungis hægt í undantekningartilfellum þar sem þeir eru flestir komnir með danskt ríkisfang.

Ég er alveg viss um að næsta öfgastefna sem við þurfum að takast á við sé íslamisminn sem er sem slíkur alveg sambærilegur á við nasismann, kommúnismann og fasismann eins og Salmann Rushdie og félagar bentu á í yfirlýsingu á dögunum. Sameiginleg einkenni eru t.d. andúðin á gyðingum, andstaða við lýðræðið og hugmyndin um að viðkomandi aðilar séu á einhvern hátt yfir aðra hafnir. Það sem gerir íslamismann hins vegar mun hættulegri og erfiðari viðureignar er að hann skákar í skjóli trúarbragða og spilar á þá aðila á Vesturlöndum sem virðast tilbúnir að umbera allt sem framkvæmt er í nafni þeirra.

Að lokum má nefna að ýmis samtök íslamista, bæði í löndum múslima og í Evrópu, líta þá þróun mjög jákvæðum augum að múslimar flytjist í miklum mæli til Evrópu og Vesturlanda og ýta jafnvel undir hana. Frá þeirra bæjardyrum séð er í raun um svipaða hugmyndafræði að ræða og hjá nasistum með "Lebensraum". Tryggja sér varanleg yfirrráð yfir ákveðnum landssvæðum í krafti fólksfjölda. Þetta er vitaskuld ekkert nýtt í sögunni og má t.d. benda á hvernig nýlendustefnan var framkvæmd í Ameríku. Það má því í raun segja að við séum í dag að verða vitni að nýrri nýlendustefnu sem að þessu sinni beinist gegn Evrópumönnum sjálfum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Tekjuskattur og útsvar; ekki það sama!

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi lagði fyrir um hálfu ári fram tillögu um það í borgarstjórn að borgin sýni fordæmi í útgáfu launaseðla og skilgreini þar tekjuskatt greiddan til ríkissins annars vegar og útsvar greitt til sveitafélagsins hins vegar. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp til breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Það felur í sér að launagreiðendum verði skylt að aðgreina útsvarið og tekjuskatt á launaseðlum starfsmanna sinna.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur bent á í skýrslu greiða þeir sem hafa undir 262 þúsund krónum í mánaðarlaun meira í útsvar til sveitarfélaga en í tekjuskatt til ríkisins. Þetta er eitthvað sem ekki allir gera sér grein fyrir. Það er nú ekki að fáviskunni einni saman heldur liggur þetta ekki allt ljóst fyrir. Mjög auðvelt er að greiða úr því með því að fyrrnefnt frumvarp nái í gegn.

Í Bandaríkjunum kemur í flestum fylkjum fram á launaseðlum starfsmanna hvernig greiðslu skattanna er háð. Skattgreiðslunni er skipt í ríkisskatt (state tax) annars vegar og alríkisskatt (federal tax) hins vegar. Þar liggur ljóst fyrir hvort og þá hvað mikið af skattgreiðslum starfsmanna fer til fylkisins sem það býr í og hversu mikið fer til Washington. Í mörgum tilfellum eru skattgreiðslur þrískiptar þar sem einnig kemur fram hvernig ríkisskatturinn (state tax) skiptist á milli fylkisins og sveitafélags viðkomandi.

Þetta þýðir það að fólk tekur vel eftir því hvort að Arnold hækkar eða lækkar skatta í Kaliforníu eða hvort að Georg hækkar þá eða lækkar í Washington. Það fer ekkert á milli mála hver er að skattpína eða lækka skatta. Á Íslandi hins vegar koma háskólaprófessorar fram og segja ríkisstjórnina skattpína fólk en minnast ekki einu orði á skattahækkanir (sem líka geta komið fram í auknum þjónustugjöldum) sveitafélaganna. Íbúar Reykjavíkur eiga rétt á að fylgjast betur með skattpíningu R-listans. Að sama skapi geta íbúar Seltjarnarness glatt sig yfir lækkandi útsvari á sínum launaseðlum.

Það er ekkert sem segir að það þurfi að innheimta 36,72% skatt. Í raun ættu íbúar Seltjarnarness að eiga kost á því að þurfa ekki að greiða svo mikinn skatt þar sem hann er í raun lægri. Í stað þess að fá endurgreiðslu í ágúst gætu íbúar sveitafélagsins borgað minna allan ársins hring.

Núverandi (og vonandi fráfarandi) borgarstjórnarmeirihluti hefur ekki viljað taka undir tillögu Kjartans þar sem þeim finnst það líklega of flókið að aðgreina skattgreiðslurnar á þennan hátt. Borgarstjórnarmeirihlutinn heldur líklega að launafulltrúar borgarinnar handskrifi alla launaseðla og reikni launin út með gömlum vasareiknum. Nú, nema þá að R-listamenn vilji ekki að það liggi fyrir svart á hvítu fyrir öllum starfsmönnum sínum hversu mikið þeir greiða í skatt aftur til vinnuveitanda síns. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað flestir starfsmenn borgarinnar eru með í laun. Eg leyfi mér nú samt að giska á að um 60 – 70% þeirra sé með undir 262 þúsund á mánuði.

Það er ekkert flókið við að aðgreina skattgreiðslun launamanna. Hjá flestum fyrirtækjum þýðir það að launafulltrúar þeirra þurfa að bæta við einum dálki í Navision eða hvaða forrit sem þeir nota til að reikna út launin hjá starfsmönnum.

Hér má sjá einfalt dæmi um aðgreiningu skattgreiðslna. Við skulum gefa okkur að Jón Jónsson sé með 175 þús krónur í föst mánaðarlaun og búi í Reykjavík (þar sem útsvarið er í hámarki). Til að einfalda dæmið er ekki gert ráð fyrir yfirvinnu eða neinum öðrum aukagreiðslum. Hins vegar er gert ráð fyrir auka lífeyrissparnaði þar sem hann er vonandi orðinn algengur sem hjá flestum. Að frádregnum lífeyrissparnaði er skattstofninn 161 þúsund. Jafnframt er gert ráð fyrir greiðslu í verkalýðsfélag. Launaseðlar flestra eru nú lengri og með fleiri upplýsingum, s.s. yfirvinna, matarstyrkur, starfsmannafélög og svo frv. Hér að neðan er þó aðeins einfaldasta útgáfa án allra aukatekna eða gjalda.

Jón greiðir um 30 þús. krónur í skatt af launum sínum að frádregnum persónuafslætti sem Ríkið veitir. Hann borgar helmingi meira til borgarinnar heldur en til ríkisins. Þetta vill R-listinn ekki að liggi ljóst fyrir.

Jón Jónsson

Launaliðir

Taxti:

Launaupphæð

Mánaðarlaun

1,00

175.000 kr.

175.000 kr.

175.000 kr.

Frádráttarliðir

Taxti

Frádráttarupphæð

Verkalýðsfélag

1%

1.750 kr.

Lífeyrirssjóður

4%

7.000 kr.

Lífeyrissparnaður

4%

7.000 kr.

Skattstofn

161.000 kr.

23,69%

38.141 kr.

Persónuafsl.

- 29.029 kr.

100%

- 29.029 kr.

Útsvar

161.000 kr.

13,03%

20.978 kr.

45.840 kr.

Útborgað

129.160 kr.

Greitt í ríkissjóð

9.112 kr.

Greitt í útsvar

20.978 kr.

Samt. í skatt:

30.090 kr.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@simnet.is


Nasistinn Hugo Chavez

Konan mín er þeirrar ,,gæfu” aðnjótandi að fá sent til sín blað BSRB. Ég man eftir að hafa lesið þar grein aftarlega í blaðinu um vinstri múgsefjunarsamkomu í landinu rauða – Venúsúela – þar sem einræðisherrann Chavez var varinn hægri vinstri, eða aðallega vinstri. Það kemur nú kannski ekkert á óvart ef ritstjórn blaðs BSRB er í takt við formann sinn sem lengi hefur verið hrifinn af roðanum í austri (og nú kannski í suðri líka).

Chavez og góðvinur hans Castro, sem bannar þegnum sínum hér um bil allt milli himins og jarðar, eru miklir dýrlingar meðal róttækra vinstrimanna hérlendis. Þeir á Múrnum eru ekki hrifnir af hinum kristilega hægri væng repúblikanaflokksins. Einnig fyrirlýta þeir alla kynþáttafordóma. Róttækir vinstrimenn eru ekki trúaröfgamenn og ekki rasistar, annað en íhaldssamir “far-right” fanatíkusar.

En hlustum aðeins á Hugo Chavez:

,,Afkomendur þeirra sem krossfestu Krist (gyðingar) hafa hrifsað til sín auð jarðarinnar, minnihluti hefur tekið sér eignarrétt yfir gulli heimsins, og silvrinu, og jarðefnunum, vatninu, góðu jörðunum, olíunni, auðæfunum, og þeir hafa látið auðinn í hendur fárra útvaldra.”

Já, þetta er allt þessum gyðingunum að kenna! Það er megin inntak ræðu sem Huga Chavez flutti á aðfangadag jóla.

Svona málflutningur er í anda Hitlers, KKK og fleiri. Ræða Chavez hefði sómað sér vel í málgangi nasista, í dagblöðum þriðjaríkisins, og annarsstaðar þar sem gyðingafordómar hafa blómstrað.

Chavez er greinilega gagntekinn af gyðingahatri, og beitir fyrir sig trúarlegum tilfinningarökum. Hvað ætli hentistefnu málgagnið Múrinn segi um þetta? Líklega ekki neitt.

Sindri Guðjónsson


« Fyrri síða

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband