Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2006

Mánudagspósturinn 9. janúar 2006

Eitt af því sem veldur íslenzkum Evrópusambandssinnum erfiðleikum í áróðri sínum fyrir því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið er fullveldið. Á sínum tíma voru íslenzkir Evrópusambandssinnar hlynntir því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið yrði lögfestur hér á landi og þvertóku þá fyrir að í honum fælist einhver fullveldisskerðing. Í dag er eitt af áróðursbrögðum þeirra að reyna að telja fólki trú um þá vitleysu að með því að ganga í Evrópusambandið myndi Ísland endurheimta það fullveldisafsal sem EES-samningurinn hafði í för með sér! M.ö.o. hafa menn þarna farið í heilan hring í málflutningi sínum og þetta er almenningi síðan boðið upp á.

Vissulega hefur EES-samningurinn í för með sér ákveðna fullveldisskerðingu fyrir Ísland þar sem við þurfum að taka upp í gegnum hann ákveðinn hluta af löggjöf Evrópusambandsins. Sá hluti er þó sáralítill af heildarlöggjöf sambandsins eins og kom berlega í ljós í úttekt skrifstofu EFTA á því sl. vor. Aðeins er um að ræða 6,5% löggjafar Evrópusambandsins sem fellur undir EES-samninginn en ekki 80% eins og forystumenn íslenzkra Evrópusambandssinna höfðu fram að því ítrekað haldið að þjóðinni og þ.á.m. sjálfskipaðir “Evrópusérfræðingar”. Sérfræðiþekkingin sú náði þó ekki lengra en þetta.

Staðreyndin er sú að ef Ísland gengi í Evrópusambandið er klárt mál að áhrif okkar yrðu sáralítil innan þess. Við höfum margfalt meira um eigin mál að segja eins og staðan er í dag en raunin yrði nokkurn tímann innan sambandsins. Og sama er að segja um áhrif okkar á alþjóðavettvangi. Þróunin innan Evrópusambandsins er með auknum hraða í þá átt að vægi aðildarríkjanna sé í samræmi við íbúafjölda þeirra og eðli málsins samkvæmt er sá mælikvarði okkur Íslendingum ekki beint hagstæður. Sem dæmi má nefna að á þing Evrópusambandsins myndum við í bezta falli fá þrjá fulltrúa af 730. Þessir þrír fulltrúar myndu síðan mjög ólíklega koma allir frá sama stjórnmálaflokknum þannig að óvíst er hvort þeir myndu endilega sjá einhverja ástæðu til að vinna saman nema í helzt í undantekningartilfellum.

Íslenzkir Evrópusambandssinnar virðast sumir halda að Ísland yrði stórveldi við það að ganga í Evrópusambandið og þannig hefur maður t.d. heyrt því fleygt frá slíkum aðilum að sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins yrði ekkert vandamál fyrir okkur því þegar Ísland væri orðið aðili að því myndum við hafa svo gríðarleg áhrif á mótun hennar og gætum nánast breytt henni bara eins og okkur sýndist. Skemmst er nú frá því að segja að Bretar, eitt af stóru ríkjunum í Evrópusambandinu, hafa verið aðilar að því síðan árið 1972 og allar götur síðan reynt mikið til að breyta sjávarútvegsstefnu þess þannig að hún hentaði hagsmunum þeirra en án nokkurs árangurs.

Og svona mætti halda lengi áfram. Málið er einfaldlega það að við höfum ekkert í Evrópusambandið að gera þó einhverja íslenzka Evrópusambandssinna langi voðalega mikið til þess. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það? Ísland er að koma svo margfalt betur út úr alþjóðlegum úttektum á árangri þjóða en nokkurn tímann Evrópusambandið, aftur og aftur og aftur. Nei, í Evrópusambandið höfum við ekkert erindi!

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

 


Besta Bítlalagið

Hver sem hefur fé af öðrum með valdi, eða með því að hóta honum einhverskonar ofbeldi eða frelsisskrerðingu, hefur gerst sekur við Almenn hegningarlög (nr.19 frá 1940). Þetta á þó ekki við um hið opinbera sem hefur einkarétt á því að taka peninga af fólki sem ekki vill láta þá af hendi. Þeir gera þetta í krafti þess að þeir einir mega beita ofbeldi. Flestir telja að þessi löglegi peninga stuldur ríkisins sé nauðsynlegur. Það þarf í það minnsta að halda uppi lögum og reglu, reka dómstóla og sjá um landvarnir svo að dæmi séu tekin. Verkefni þessi eru auðvitað fjármögnuð með skattheimtu.

En það eru ekki allir sem skilja að þetta ofbeldi hins opinbera ber að takmarka eins og frekast er unnt. Það er siðferðisleg skylda stjórnvalda að hafa skatta eins lága og hægt er því ekki er fallegt að stela, ekki einu sinni í þágu góðra málefna. Þetta segir sig sjálft. Ríkinu ber að hlífa mönnum við ofríki sínu eins og frekast er unnt. Bítlarnir urðu fyrir barðinu á stelvísum yfirvöldum Bretlands á sínum tíma, og sömdu við það tækifæri þetta ágæta lag:

Let me tell you how it will be
There's one for you, nineteen for me
'Cause I'm the taxman, yeah, I'm the taxman

Should five per cent appear too small?
Be thankful I don't take it all
'Cause I'm the taxman, yeah I'm the taxman

If you drive a car, I'll tax the street,
If you try to sit, I'll tax your seat.
If you get too cold I'll tax the heat,
If you take a walk, I'll tax your feet.

Don't ask me what I want it for
If you don't want to pay some more
'Cause I'm the taxman, yeah, I'm the taxman

Now my advice for those who die
Declare the pennies on your eyes
'Cause I'm the taxman, yeah, I'm the taxman
And you're working for no one but me.

Sindri Guðjónsson


Græðgi; úrelt hugtak sósíalista

Já, hún er alveg óþolandi þessi græðgisvæðing. Allaveg finnst hinum sósíalísku stjórnarandstöðuþingmönnum það. Og þetta er allt saman okkur hægri mönnunum að kenna. Við erum víst búnir að gera fólk svo gráðugt með því að segja því að það þurfi ekki að greiða háa skatta og gefa því von um að halda laununum sínum eftir sjálft. Já, og svo ýta lágir skattar á fyrirtæki víst líka undir græðgi. Þessir glæpamenn sem stunda fyrirtækjarekstur eru auðvitað bara gráðugir og hugsa bara um eigin hag.

Þetta er það sem heyrist reglulega frá vinstrimönnum, íslenskum sósíalistum. Steingrímur J. Sigfússon er í mörg ár búinn að tala um að hér sé allt á leiðinni til ansk... af því að græðgin sé svo mikil. Um daginn horfði ég á fréttaannál Stöðvar tvö frá árinu 1999. Það var kosningaár og að sjálfsögðu birtist viðtal við Steingrím þar sem hann sagði að hér færi allt niður ef sama ríkisstjórn sæti þá áfram. Nú þessi sama ríkisstjórn hefur lifað af tvær kosningar eftir það og ekki hefur ,,ástandið” versnað. Það hefur þvert á móti stórbatnað. Skattar eru að lækka og skuldir ríkisins á sama tíma. (gamla fréttaannála er hægt að nálgast á vef-TV á Vísi.is - stórskemmtilegt áhorf)

Jóhanna Sigurðardóttir er líka mjög skemmtilegur alþingismaður. Hún má eiga það að ólíkt flestum kollegum sínum í Samfylkingunni er hún oftast málefnaleg í umræðum sínum og hér skal ekki efast um þungbærar áhyggjur hennar af þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Gallinn við Jóhönnu er bara sá að hún heldur að flestir sem eiga yfir hundrað þúsund krónur í banka séu hálfgerðir glæpamenn og hafi stolið því frá þeim sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Kannski ekki málefnaleg gagnrýni hjá mér en lýsir samt í fáum orðum pólitík Jóhönnu. En við hægri menn og Jóhanna erum líklega sammála því að það er fólk sem hefur það ekki gott og það er markmið okkar allra að bæta úr því. Okkur greinir bara á hvernig það skuli gert. Það er efni í annan pistil.

En snúum okkur þá að græðginni. Jóhanna byrjaði árið á því að tala um græðgisvæðingu í pistli á heimasíðu sinni. Hún er ekki sú eina sem notar þetta orð óspart, græðgisvæðing. En hvað eiga vinstri menn eiginlega við þegar þeir tala um græðgisvæðingu? Hver er gráðugur? Hvar eru mörkin á milli þess eins að reka fyrirtæki annars vegar og vera gráðugur hins vegar? Er bakarinn hérna á horninu gráðugur? Er Jón Ásgeir gráðugur? Eru tannlæknarnir sem ráða gjaldskránni sinni sjálfir gráðugir? Eru forsvarsmenn Icelandair gráðugir en forsvarsmenn Iceland Express ekki? Meira að segja verkalýðsforingjar saka alla sem vel gengur í fjármálum um græðgi.

Þetta er allt spurningar sem eiga rétt á sér og vinstrisinnaðir stjórnmálamenn geta ekki svarað. Ef að bakari opnar bakarí, hvar liggja þá mörkin á milli þess að hann sé að reka lítið fyrirtæki eða að hann sé gráðugur? Ég geri ráð fyrir því að hann vilji að fyrirtæki sitt reki sig vel og með hagnaði. Er hann þá ekki gráðugur? Er Jói Fel gráðugur? Hann opnaði sínum tíma lítið bakarí á Holtavegi en er nú kominn með framleiðslu á ýmiss konar vörum, sjónvarpsþáttum, bókum og fl. Hann er líklega að efnast vel á þessu öllu saman. Er hann þá gráðugur í augum sósíalista? Ef svo er, hvenær varð hann þá gráðugur? Ef svar þeirra er að hann hafi orðið gráðugur í upphafi þá hljóta allir fyrirtækja eigendur stórir og smáir að vera gráðugir. Þeim langar öllum ganga vel.

Eru Baugsfeðgar gráðugir? Ef já, voru þeir þá gráðugir þegar þeir opnuðu litla búð í Skútuvogi eða þegar eignir þeirra fóru að telja í milljörðum? Þetta eru köld skilaboð stjórnmálamanna til atvinnulífsins. Það vill oft gleymast að þessi fyrirtæki sem eru svona rosalega ,,gráðug” skaffa mörg þúsund manns á Íslandi vinnu.

Eru menn orðnir gráðugir þegar þeir greiða forstjórum sínum háar upphæðir í laun? Ég mundi þvert á móti halda að þeir væru gjafmildir. Er að græðgi að borga stjórnendum fyrirtækja góð laun. Eða er það kannski hluti að ,,græðgisvæðingunni” að efna samning við fráfarandi forstjóra Icelandair? Hefðu menn frekar viljað að konan yrði svikinn um gerðan samning? Hvers konar skilaboð hefðu það verið til atvinnuþátttöku kvenna?

Já, það er hægt að spyrja sig endalaust. Vinstrimenn hafa að ég held engin svör við þessum spurningum heldur nota þeir orð eins og græðgisvæðing, mannréttindabrot, spillingu, lýðræði og svo frv. sem pólitískt vopn í baráttunni um völd. Þetta er þeirra ,,tískuhugtök” um þessar mundir og þýða orðið ekki neitt fyrir hinn almenna mann. Þegar ríkisstjórnin tekur ákvörðun sem vinstrimenn eru ósáttir við er það brot á lýðræði. Þegar ekki er gengið á eftir kröfum vinstrimanna er það mannréttindabrot, hvorki meira né minna. Þegar hæfir lögfræðingar eru ráðnir dómarar er það pólitísk spilling, jafnvel þó að ekki sé hægt að setja út á störf þeirra.

Stjórnmálamenn þurfa að vera ábyrgir orða sinna en ekki alltaf að gaspra eitthvað út í loftið sem missir síðan meiningu sína. Það er allt í lagi þó að Steingrímur, Jóhanna, Ingibjörg Sólrún og fleiri vilji koma hér á sósíalískri stjórn. Við vitum öll hvar þau standa í pólitík (nema kannski Ingibjörg Sólrún því hún er í pólitískri eyðimörk eftir að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum eins og bent er á hér.)

Eigum við að spyrja okkur hvernig efnahagsástandið væri ef hér hefði verið sósíalísk vinstri stjórn síðasta hálfan annan áratuginn. Þá væru þeir reyndar ekki að saka neinn um græðgi enda væri ekki jafnmikið fjármagn í umferð. Ætli væri ekki eins farið fyrir ríkiskassanum og Reykjavíkurborg, bæði skuldir og skattar á uppleið? Og allt í nafni samhjálpar og aukinnar þjónustu en ekki óráðsíu stjórnmálamanna.

Það hlýtur bara að vera að öllum sem langar að ganga vel í einhverju séu gráðugir.

Græðgi ; átfrekja, áköf löngun, girnd.
Íslenska Orðabókin

p.s. ég nota áberandi mikið orðið sósíalisti hér því þáð er furðulegt að þeir sem vilja hvað minnst kannast við hann eru vinstrimennirnir sjálfir sem aðhyllast sósíalisma.

Gísli Freyr Valdórsson


Mánudagspósturinn 2. janúar 2006

Egill Helgason fjallar um tímaritið Þjóðmál í nýlegum pistli á Vísir.is. Þar segir hann m.a. að í tímaritinu sé að finna mikið af efni sem gott sé að lesa og ennfremur segir hann mikinn feng í að því virðist ætlað að endurspegla ólík hægrisinnuð sjónarmið. Því mati Egils er ég að sjálfsögðu sammála og má geta þess að mér þykir sjálfum oft áhugavert að lesa skrifin hans á Vísir.is og horfa á þáttinn hans. En annað slagið þykir mér Agli þó verða æði hált á svellinu eins og kemur vissulega fyrir flesta menn á einhverjum tímapunkti. Þannig segir hann áfram um efni Þjóðmála í áðurnefndum pistli: „Þarna eru greinar sem má flokka undir frjálshyggju [...], aðrar sem eru skrifaðar af virðulegri íhaldsmennsku og svo er þarna grein eftir Ragnhildi Kolka sem er dæmigerð fyrir þá hægrimenn sem eru fullir tortryggni gagnvart fjölmenningarsamfélaginu.“

Ég get ekki skilið þetta síðasta öðruvísi en svo að Egill sé þarna að skírskota til tortryggni í garð fjölmenningasamfélagsins með neikvæðum hætti. Ég veit hins vegar ekki betur en að hann hafi sjálfur skrifað á mjög hliðstæðum nótum og Ragnhildur um þessi mál í pistlum á Vísir.is fyrir fáeinum vikum, þá einkum í tengslum við óeirðirnar í Frakklandi. Þar skírskotaði hann m.a. í greinar sem birtar voru í hinu virta brezka tímariti The Spectator í nóvember sl. þar sem fjallað var með mun meira afgerandi hætti um þessi mál en nokkurn tímann í grein Ragnhildar (eða hefur verið gert af minni hálfu ef út í það er farið). Því til viðbótar sagði Egill í einum af pistlum sínum að vart yrði á móti því mælt að fjölmenningarhyggjan væri á síðasta snúningi í Evrópu, m.ö.o. að hún væri við það að sigla í strand. Og hvað er þá að því þó fólk sé tortryggið í garð hennar?!

Hins vegar er staðreyndin sú að fjölmenningarhyggjan (sem gengur í meginatriðum út á að mörg ólík þjóðfélög verði til innan eins þjóðfélags og er þannig andstaða þess sem nefnt hefur verið aðlögun) hefur þegar fyrir löngu siglt í strand. Fjöldi fólks er einfaldlega fyrst núna að þora að viðurkenna það og tala um það opinberlega, eitthvað sem það lagði ekki í áður vegna þeirrar fasísku pólitísku rétthugsunar sem gegnsýrt hefur alla "umræðu" um þessi mál hingað til, sagt fólki hvaða skoðanir það megi hafa á þeim og hverjar ekki og haldið því þannig í hugarfarslegri gíslingu. Þeir sem staðið hafa fyrir þessum fasisma og viðhaldið honum eru síðan oftar en ekki þeir sömu og slá sér hvað mest á brjóst og kalla sig einlæga lýðræðissinna. Staðreyndin er þó sú að pólitísk rétthugsun er sennilega eitthvert það ólýðræðislegasta fyrirbæri sem fyrirfinnst undir sólinni. Þeir sem tala fyrir og beita sér fyrir slíkri skoðanakúgun geta aldrei talizt sannir lýðræðissinnar!

Það er allt annað mál að samfélög séu opin fyrir jákvæðum og uppbyggilegum erlendum áhrifum og straumum sem eiga samleið með þeim og aðlaga má með góðu móti að þeim samfélagsgerðum sem fyrir eru. Slíkt hlýtur auðvitað að teljast sjálfsagt og eðlilegt og sömuleiðis það að samfélög bjóði velkomna aðflutta einstaklinga sem eru tilbúnir að verða hluti af þeim og leggja það á sig sem þarf til að svo megi verða með aðstoð þeirra sem fyrir eru. Sennilega þarf heldur ekki að fara mörgum orðum um þá staðreynd að gott fólk er alls staðar að finna algerlega óháð því hvaðan það er úr heiminum, uppruna, kynþætti eða nokkru slíku. Fyrst og síðast eru allir vitanlega einstaklingar og það er það sem máli skiptir. Þetta þarf þó vitanlega allt að eiga sér stað með ábyrgum og skynsömum hætti. Velheppnuð aðlögun aðfluttra einstaklinga að viðkomandi samfélögum er þar algert lykilatriði.

Sú vinstrisinnaða hugmyndafræði fjölmenningarhyggjan hefur aftur á móti einfaldlega verið vegin, metin og léttvæg fundin. Ófáar þjóðir hafa nú þurft að horfast í augu við þá staðreynd að fenginni biturri reynslu. Niðurstaðan er sú að þessi stefna gengur ekki upp frekar en kommúnisminn þó einhverjum kunni að þykja hún hljóma óskaplega vel á prenti. Það er þó ekki þar með sagt að slíkt virki vel í raunveruleikanum eins og sagan sýnir sennilega bezt. Fjölmenningarstefnan hefur ekki leyst nein vandamál heldur þvert á móti skapað fjöldann allan af þeim sem spurning er hvort nokkurn tímann verður hægt að finna lausnir á.

En fyrst ég minntist á Egil Helgason í byrjun greinarinnar þá hefur hann nú víst viðurkennt það, m.a. í viðtali við Blaðið fyrir ekki svo löngu síðan, að hann eigi það til að skipta annað slagið um skoðanir. Þetta mætti orða svo í bundnu máli með glettnu ívafi:

Egill fer í ótal hringi,
ekki í neinu á silfrið spar.
Hann ætti að vera inni á þingi,
íþróttin er stunduð þar.
(R.K.)

Með pólitískt rangthugsandi kveðju til Andra Óttarssonar Deiglupenna sem haldinn er þeirri óskhyggju (eða þráhyggju réttara sagt) að ég og við á Íhald.is höfum einhverjar annarlegar skoðanir þegar kemur að innflytjendamálum þó hann geti ekki fært fyrir því nein haldbær rök hvað þá meira. Aðeins dylgjur og innantómar fullyrðingar eru þar á boðstólum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Fyrri síða

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband