Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2005

Reykingar og rétturinn til að skaða aðra

Þann 30. mars sl. birti ég grein í Morgunblaðinu um frumvarp fjögurra þingkvenna – þeirra Sivjar Friðleifsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur, Jónínu Bjartmarz og Þuríðar Bachman - til laga m.a. þess efnis að reykingar verði bannaðar á öllum veitingahúsum og skemmtistöðum frá og með 1. maí 2006. Þar reifaði ég að nokkru röksemdir fyrir minni afstöðu til málsins. Grein þessi er að meginefni sú sama og ég birti þar, þó með nokkurri viðbót. Áður hef ég tjáð mig efnislega um málefnið.

Núverandi löggjöf
Rétt er að halda því til haga að samkvæmt núgildandi lögum er meginreglan sú að reykingar eru bannaðar á veitinga og skemmtistöðum. Fyrsta og 2. málsgrein 9. greinar núverandi tóbaksvarnarlaga númer 6/2002 orðast svo:

9. gr. Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar á veitinga- og skemmtistöðum á afmörkuðum svæðum, en tryggja skal fullnægjandi loftræstingu, sbr. 4. mgr. Meiri hluti veitingarýmis skal þó ávallt vera reyklaus og tryggja skal að aðgangur að því liggi ekki um reykingasvæði.

Ljóst er að settu marki hefur ekki verið náð með þessum lagagreinum. Því fer fjarri að þessi skipting í reyklaus svæði og reyksvæði hafi tekist. Loftræsting er alla jafna engan veginn fullnægjandi á viðkomandi stöðum og langt er frá því að meirihluti staðanna sé reyklaus eins og lögin gera þó ráð fyrir. Þessi þrönga undantekningarregla 2. málsgreinar hefur þannig gert mönnum kleift að sniðganga lögin.

Mótstöðumenn frumvarpsins
Margir frjálshyggjumenn hafa tekið einarða afstöðu gegn frumvarpinu og færa einkum hugmyndafræðileg rök fyrir þeirri afstöðu. Helstu rökin sem þeir færa fram máli sínu til stuðnings byggjast á friðhelgi eignaréttarins og eru þess efnis að eigendum hvers staðar eigi að vera í sjálfsvald sett hvort þeir leyfi þar reykingar eður ei, auk þeirra raka að mönnum er í sjálfsvald sett hvort þeir sækja veitingahús eða ekki.

Menn segja það rangt að neyða eigendur kaffi- eða veitingastaða til að nota eignir sínar á einhvern ákveðinn hátt. Frjálshyggjufélagið og Heimdallur ályktuðu bæði gegn frumvarpinu skömmu eftir að það kom fram og voru ályktanirnar í aðalatriðum byggðar á sömu rökum. Þá má nefna nokkrar nýlegar greinar um efnið sem margar hverjar eru að mínum dómi ágætar, þó margir höfunda þeirra taki aðra afstöðu í málinu en ég geri. Meðal þeirra er grein eftir Magnús Davíð Norðdahl á vefritinu Djöflaeyjunni eftir Ými Örn Finnbogason á Deiglunni greinar á Sus.is eftir Hafstein Þór Hauksson og Björgvin Guðmundsson . Einnig fjallaði Andri Óttarsson um málið á Deiglunni á nokkuð öðrum nótum og bendir réttilega á að vert er að sporna gegn reykingum í viðurvist barna sem ekki hafa aldur né þroska til að meta áhættu og afleiðingar óbeinna reykinga.

Í grein Daníels Jakobssonar á sama vefriti þar sem kveður við nokkuð annan tón og höfundur reifar tillögur um millilendingu. Þá má nefna að skömmu eftir að ég ritaði fyrri grein mína um málefnið birti Agnar Freyr Helgason þessa grein á vefriti ungra frjálslyndra. Þar bendir hann á brotalamir sem hann telur vera á grein minni, einkum vegna áðurnefndra röksemda um yfirráð eigenda veitingastaðanna yfir eignum sínum. Afstaða mín er hins vegar óbreytt. Röksemdirnar um friðhelgi eignarréttarins og um valfrelsi einstaklinga um hvort þeir sæki veitinga og skemmtistaði eru vissulega fullgildar, en ég tel að fleiri sjónarmið komi inn í þetta mat.

Friðhelgi eignarréttarins
Mörg dæmi eru um það í lögum að mönnum séu bannaðar tilteknar athafnir á eignum sínum, jafnvel athafnir sem almennt eru löglegar. Svo virðist sem mönnum yfirsjáist það gjarnan þegar þeir tala eins og reykingabann væri fordæmalaus skerðing eignarréttar veitingahúsaeigenda, og telja frumvarpið jafnvel brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Eigendur veitingastaða þurfa til dæmis að uppfylla ákveðin skilyrði um hollustuhætti eins og Jakobína Árnadóttir hjá Lýðheilsustofnun benti á í viðtali við Morgunblaðið 21. febrúar sl. og áréttað var í leiðara blaðsins degi síðar. Þar er einnig tekið ágætt dæmi um eiganda veitingahúss sem tekur upp á því að dæla daufri blöndu að eiturgasi út í andrúmsloftið í húsnæði sínu. Er það kannski óréttmæt skerðing á eignarréttinum að banna honum það? Ég held að flestir fallist á að svo er ekki, jafnvel þó að gestir staðarins viti af tiltækinu. Fleiri dæmi mætti nefna af sama toga.

Það að frumvarpið gangi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verði það að lögum, er að mínu áliti afskaplega langsótt. Ef svo væri væri mætti sannarlega segja það sama um heilu lagabálkana sem nú eru í gildi, sem margir hverjir eru mun meira íþyngjandi fyrir eigendur þeirra eigna sem lögin taka að einhverju marki til.

Rétturinn til að menga
Aðrir, að vísu færri, hugsa dæmið frá sjónarhóli reykingamannsins og rétti hans til að velja sér lífsstíl líkt og gert er í grein Guðmundar Arnars Guðmundssonar á heimasíðu Frjálshyggjufélagsins þar sem segir: ,,Reykingar eru ekkert opinbert heilbrigðis- eða öryggisvandamál eins og berklar eða akstur undir áhrifum áfengis. Reykingar eru eins og skyndibitaát og mótorhjólaiðkun, m.ö.o. þær varða eingöngu einstaklinginn sem reykingarnar stunda.”

Þessi ummæli þykja mér all kostuleg. Að sjálfsögðu nýtur reykingamaðurinn þess réttar að velja og hafna. Málið snýst bara ekki um það, því eins og flestir ættu að vita hafa reykingar skaðleg áhrif á fleiri en einungis reykingamanninn, þ.e. alla þá sem draga andann í grennd við reykinn. Það er því einkennilegt að mínu áliti að bera bann við reykingum á veitingastöðum saman við það að mönnum væri til dæmis bannað að neyta tiltekinnar fæðu, eða stunda hættulegar íþróttir. Það er að sjálfsögðu grundvallarmunur er á því hvort menn skerða eigin hagsmuni eða hagsmuni annarra með óhollri eða hættulegri háttsemi. Það ætti ekki að þurfa að rökstyðja frekar. Þó vissulega hafi reykingamaður fullan rétt á að velja sinn lífsstíl koma hagsmunir annarra hér inn í matið.

Boð og bönn
Þeirri röksemd hefur verið hreyft að bann leysir engan vanda. Ég get vel tekið undir það sjónarmið almennt séð. Það gafst ekki vel á bannárunum svonefndu að áfengisneysla væri ólögleg, enda á hverjum fulltíða einstaklingi að vera í sjálfsvald sett hvort hann drekkur eða ekki, svo og hvort hann reykir. Hér er hins vegar ekki verið að leggja til bann við reykingum, heldur er verið að leggja til að þeim séu ákveðnar skorður settar. Ég gæti ekki fallist á slíkt bann því ég tel að þar væri gengið allt of langt í því að skerða athafnafrelsi einstaklinga. Afstöðu mína í þessu máli byggi ég eingöngu á því að hagsmunir annarra en reykingamannsins eru í húfi. Til samanburðar má nefna nokkuð ólíkt dæmi: Akstur bifreiða er ekki bannaður, en um hann gilda ákveðnar reglur vegna hagsmuna annarra vegfarenda. Það er t.a.m. alla jafna BANNAÐ að aka á vinstri vegarhelmingi og helgast það ,,bann” af hagsmunum annarra sem um vegina fara. Þannig eru umferðinni settar ákveðnar skorður til að hún gangi sem greiðlegast fyrir sig öllum til heilla.

Valfrelsi
Vissulega ber mönnum engin skylda til að sækja veitinga- og skemmtistaði en rétt er að hafa hugfast að það að sækja slíka staði er snar þáttur í menningu okkar. Þangað fer fólk gjarnan í góðra vina hópi. Menn velja sér ekki vini eftir því hvort þeir reykja heldur á öðrum forsendum. Sömuleiðis velja hópar sér oftast áfangastaði á öðrum forsendum en þeim hvort þar er reykt eða ekki. Hópar tvístrast ekki og velja hver sinn veitingastaðinn eftir því hvort þar er í gildi reykingabann eða ekki.

Þeir sem eindregið leggjast gegn frumvarpinu ættu að svara því hvort ekki eigi þá líka að afnema bann við reykingum á öðrum opinberum stöðum, þar með talið þjónusturými verslana, í almenningsvögnum, biðstofum og svo framvegis. Svari þeir því neitandi er næsta spurning sú hvaða sjónarmið önnur gilda um þessa staði? Mönnum ber jú engin skylda til að versla við þær verslanir sem leyfa reykingar eða ferðast með almenningsvögnum þar sem reykt er.

Greinargerð með lögunum og skaðsemi óbeinna reykinga
Lagafrumvarpinu fylgir ágæt greinargerð. Í henni kemur meðal annars fram að sá reykur sem reyktur er óbeinn er jafnvel hættulegri en sá sem reykingamaðurinn dregur að sér gegnum sígarettuna. Talið er að 30-40 manns látist árlega hérlendis af völdum óbeinna reykinga, auk þess fjölda sem líður ýmiss konar heilsutjón. Einnig er í greinargerðinni vikið að reynslu annarra ríkja sem þegar hafa bannað reykingar á veitingastöðum. Fram kemur að reykingamenn hafa ekki dregið úr komum sínum á veitinga- og skemmtistaði og þeir reyklausu hafa fjölgað ferðum á slíka staði. Þeir sem hafa óttast að veitingamenn missi spón úr aski sínum, verði frumvarpið að lögum, ættu því ekki að þurfa að örvænta. Meira að segja má leiða að því líkur að úr viðhaldskostnaði dragi, verði staðirnir reyklausir. Eitt sem fram kemur í greinargerðinni er líka umhugsunarefni fyrir frjálshyggjumenn, að Bandaríkin – að margra áliti land frelsisins – hafa verið í fararbroddi í því að banna reykingar á veitingastöðum.

Að lokum
Kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er andvígur reykingum á veitingastöðum. Þó skoðanakannanir séu enginn algildur mælikvarði á hvað er gott eða slæmt gefur þessi niðurstaða ákveðna vísbendingu. Í þeim ríkjum sem stigið hafa það skref sem frumvarpið gerir ráð fyrir hefur æ ríkari sátt skapast um þetta fyrirkomulag. Ég spái því að eftir nokkur ár hugsi menn til baka og þyki það í raun fráleitt að reykingunum hafi ekki verið úthýst fyrr.

Hugsanlega mætti þó fara einhverjar vægari leiðir til að ná því markmiði löggjafans að gestir og starfsfólk veitingastaða þyrfti ekki að anda að sér tóbaksreyk frá öðrum líkt og Daníel Jakobsson benti á í áðurnefndri grein. Ef reykingar eru leyfðar á afmörkuðum svæðum innandyra á veitingastöðum þarf að vera tryggt að loftræsting sé næg. Slíkt gæti þó reynst erfitt í framkvæmd. Ég minni á að núverandi lög gera ráð fyrir að veitinga- og skemmtistaðir séu að meginstefnu reyklausir. Það hefur ekki gengið eftir. Í það minnsta er núverandi ástand ekki nægilega gott og umrætt frumvarp til bóta verði það að lögum.

Þorsteinn Magnússon


Mánudagspósturinn 4. apríl 2005

Eins og kunnugt er ákvað Auðun Georg Ólafsson að afþakka stöðu fréttastjóra Ríkisútvarpsins eftir mikla andstöðu úr röðum fréttamanna þess. Verð ég að segja að mér þykja fréttamennirnir hafa gengið frekar langt í andstöðu sinni við ráðningu Auðunar. Hafa sumir talað um eins konar einelti í því sambandi. Annars er alveg rétt að það ráðningarkerfi sem við líði er hjá Ríkisútvarpinu er úrelt og út í hött að pólitískt skipaðir fulltrúar komi þar að málum. Hins vegar breytir það ekki því að þetta er það ráðningakerfi sem er við líði og sem væntanlega allir fréttamenn stofnunarinnar hafa t.a.m. meira eða minna verið ráðnir eftir eins og fram kom t.a.m. í Kastljósinu sl. fimmtudagskvöld.

Ef meintar pólitískar ráðningar hjá Ríkisútvarpinu eru það sem fer fyrir brjóstið á fréttamönnum stofnunarinnar þá er furðulegt að þeir hafi aðeins beint spjótum sínum gegn ráðningu Auðunar Georgs. Hafi hann verið ráðinn á pólitískum forsendum er alveg klárt mál að hann er ekki einn um það. Það eru án efa ófáir einstaklingar starfandi hjá Ríkisútvarpinu sem mætti skoða að sama skapi fyrst ástæða þótti til að gera athugasemd við ráðningu Auðunar. En ég veit ekki til þess að fréttamenn Ríkisútvarpsins ætli ekki að beita sér gegn öðrum meintum pólitískum ráðningum innan stofnunarinnar.

En sem fyrr segir þá er auðvitað ráðningarferlið hjá Ríkisútvarpinu algerlega óásættanlegt og það má auðvitað lengi deila um það hvort Auðun Georg hafi verið hæfasti umsækjandinn um fréttastjórastöðuna. Sennilega láta menn þó af þeim vangaveltum núna þegar hann hefur afþakkað stöðuna. Það má annars minna á það í lokin að réttast væri auðvitað bara að einkavæða Ríkisútvarpið. Aldrei er góð vísa of oft kveðin.

---

Skoðanakönnun Gallup, sem birt var í vikunni, sýndi að meirihluti kjósenda styðji nú ríkisstjórnina eða 51%. Sjálfstæðisflokkurinn kemur vel út úr könnuninni með 38% fylgi sem er 4% meira fylgi en í Alþingiskosningunum 2003. Framsóknarflokkurinn mælist hins vegar aðeins með 12% sem er 6% undir kjörfylgi. Samfylkingin dalar um 3% síðan í síðustu könnun Gallup og um 2% miðað við kjörfylgi. Nánar má lesa um þetta á Mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson


Aprílgabb Ísland – Palestínu

„Ekki gleyma því að svína á Hellisheiðina, fara gegnum Þrengslin, lenda svo Spittfærnum á Kaldraðanesmelum, fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnaminnihlutan hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum.”

Þannig skrifaði Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins á spjallvefinn Málefnin.com í janúar 2004. Síðar á sama ári óskaði hann þeim Írökum sem berjast gegn hersetuliði BNA í Írak góðs gengis og hvatti þá til dáða í vopnaðri baráttu. Já, svona tala stundum þingmenn okkar góða lands.

Í síðustu viku var þessi sami þingmaður ásamt fleiri þingmönnum á ferð í Palestínu auk þriggja forystumanna úr launahreyfingunni. Ekki alls fyrir löngu var Ögmundur Jónasson alþingismaður á ferð á sömu slóðum. Magnús líkt og Ögmundur skrifar síðan ferðasögu á heimasíðu sína og vandar Ísraelsmönnum ekki kveðjurnar. Ég reyndar skrifaði pistil eftir að Ögmundur hafði skrifað um heimsókn sína. Aftur þykir mér ástæða til að skrifa og velta upp nokkrum þeim orðum sem þessir þingmenn hafa haft eftir ferð sína.

Ferðin í síðustu viku var (líkt og för Ögmundar) skipulögð af Félaginu Ísland – Palestína. Reyndar lætur Magnús Þór það vera í skrifum sínum að minnast á það hver skipulagði ferðina. Nú er að sjálfsögðu auðvelt að fara til Palestínu og sjá hvað ástandið þar er ömurlegt. Sjálfur hef ég ekki komið þangað en get rétt ímyndað mér að þar sé ástandið ekki gott. Ekki er það tilgangur minn með þessari grein að taka upp málstað annars aðilans gegn hinum. Hins vegar er einkennilegt hvernig þingmennirnir sem í þessa ferð fóru tala um hana þegar heim er komið. Það er engu líkara en að þau hafi aðeins farið á þá staði sem Félagið Ísland – Palestína hefur leitt þau á og bera síðan fréttir heim eftir það. Að sama skapi skulum við hafa í huga að Magnús Þór þingmaður lítur ekki á þá sem sprengja sig í loft upp sem hryðjuverkamenn heldur talar hann um þá sem ,,þjóðernishreyfingu.” Hann meira að segja viðurkennir í Kastljósviðtali að Nablus sé sterkt vígi fyrir palestínska ,,þjóðernishreyfingu.”

En ástæðan fyrir því að ég dreg upp gömul orð Magnúsar Þórs hér í byrjun er til að sýna að Magnús Þór er tvísaga. Einn daginn talar hann á slíkan hátt og hinn daginn birtist hann í Kastljósviðtali og reynir að gera sig virðulegan með því að tala um að í Mið-Austurlöndum þurfi að komast á friður og talar um ,,greyið” fólkið sem hefur það svo slæmt á svæðinu. Nú er ég svo sem ekki að segja að Palestínu menn hafði það gott. Langt því frá. Margoft hefur verið brotið á því og líf þeirra gert óbærilegt. Ekki bara af Ísraelsmönnum heldur einnig að þeirra eigin stjórnvöldum. Nýleg frétt sýndi að eftir að tekið var á spillingu innan palestínska stjórnkerfisins hafa tekjur ríkissjóð aukist um 30 milljón dollara á mánuði allt árið 2004. Þeir peningar gætu mögulega nýst fólkinu í Palestínu er rétt er með fé farið. Nú þegar Arafat kemst ekki lengur í opinbera sjóði er hægt að nýta peningana í annað. Það sem ég hins vegar er að benda á er að Magnús Þór getur ekki talað um að sprengja og skjóta fólk annars vegar og talað um að koma á friði hins vegar.

En skoðum fleiri atriði sem komu fram eftir heimsókn hópsins. Jónína Bjartmarz sagði í viðtali ,,að ástandið minni á meðferð nasista á Gyðingum í seinni heimsstyrjöld.” Það sem hún hefur fyrir sér með þessum orðum er ekki að Ísraelsmenn séu að stunda þjóðarhreinsanir. Ekki heldur að Ísraelsmenn séu að handtaka fólk bara fyrir það eitt að vera af ákveðnum kynstofn og setja það í fanga- og útrýmingabúðir. Nei, hún hefur það bara fyrir sér að Ísraelsmenn eru að byggja um 8 - 12 metra háan múr sér til varnar. Jónína minnist ekki á það að sjálfsmorðsárásir í Ísrael hafa snarminnkað eftir að bygging múrsins hófst. Hún talar ekki um að daglega finnast sprengjur og vopn við varðstöðvarnar sem nota á gegn ísraelskum borgurum. Það hentar kannski ekki að tala um slíkt. Kannski þjónar það ekki hagsmunum Félagsins Ísland – Palestína að talað sé um slíkt. Við skulum jú ekki gleyma að ferðin var farin eftir skipulagi félagsins.

En talandi um nasisma. Jónina og Magnús Þór hafa kannski ekki verið stödd við háskólann í Hebron þann 21. mars s.l. þegar Fatah hreyfingin hélt þar fjöldafund fyrir stúdentaleiðtoga sína. Á fundinum gengu núverandi leiðtogar ungliðahreyfingar Fatah og verðandi meðlimir um með ,,heil Hitler” kveðjuna eins og myndin hér til hægri sýnir.

Magnús og Jónína hafa kannski ekki heldur verið viðstödd þegar palestínskir lögreglumenn gerðu nákvæmlega það sama þann 10. febrúar s.l. Kannski hentar það heldur ekki að tala um slíkt. Hins vegar geta íslenskir þingmenn farið skv. skipulagi félags sem rekur hér ákveðið áróðurstríð, komið heim og líkt Ísraelsmönnum við nasista. Og enginn setur út á neitt.

Jónína segir einnig í áðurnefndu Kastljósviðtali ,,ég fann engan baráttuanda fyrir hernaði.”   Þetta eru einkennileg orð því að um leið og hún segir þetta má sjá myndir af vopnuðum palestínumönnum sem heiðraðir eru sem hetjur. Einnig má sjá veggspjald með nöfnum nokkurra aðila sem fallið hafa og á því stendur: ,,Never forget, Never forgive!” Þetta er auðvtiað rétti andinn til að semja um frið. Kannski sá hún ekki bara myndirnar sem Magnús tók á myndavél sína?

Og Magnús heldur áfram á vefsíðu sinni: ,, Ísrael er land gegnsýrt af grunsemdum og ótta. Fólk er alltaf að bíða eftir næstu árás. Þetta er sérstaklega áberandi í Jerúsalem. Það er meira að segja leitað að vopnum og sprengjum við verslunarkringlurnar. Við fórum í eina og reyndum þetta. Innandyra var allt fullt af fólki. Það moraði líka af hermönnum vopnuðum hríðskotabyssum og með handsprengjur í beltunum. Ísraelsmenn versla ógjarnan á opinni götu, heldur leita þeir í kringlurnar. Þar eru þeir öruggari með sig eftir að búið er að leita í bílunum þegar þeir fara inn á stæðin, á öllum sem fara inn og vopnaðir hermenn eru á hverju strái.“

Eftir að hafa sætt árásum af hendi hryðjuverkamanna í nokkur ár er ekkert skrítið að fólkið sé ,,gegnsýrt af grunsemdum og ótta, og alltaf að bíða eftir næstu árás”  Kemur það Magnúsi á óvart að slíkt ástand sé í landinu. Auðvitað er slæmt að hluti Palestínu manna skuli lifa við ömurlegar aðstæður. En það er líka slæmt að þurfa að búa í stanslausum ótta. Að geta ekki farið á kaffihús, skemmtistað og í þessu tilfelli í ,,mollið” án þess að eiga það í hættu að vera sprengdur í loft upp. Það er hins vegar fyrir tilstilli mikillar öryggisgæslu að Ísraelsmenn eru nú að verða öruggari og öruggari.

Og áfram heldur Magnús Þór: ,,Vinsælasti tölvuleikurinn meðal barna og unglinga Ísrael virtist mér vera skotleikurinn "Counter Strike". Hann gengur út á að vera í byssubardaga við "terrórista". Fara um og skjóta allt sem hreyfist. Allt niður í sex ára guttar spiluðu þetta af mikilli list á netkaffihúsunum. Ég fylgdist með þeim í laumi á meðan ég skrifaði pistla á þessa síðu. Þeir voru ótrúlega góðir. Hermenn framtíðarinnar, sem alast upp í ótta og tortryggni. Ég var líka búinn að hitta væntanlega andstæðinga þeirra í gettóum Palestínu. Þeir alast upp í vonleysi og hatri. Ég býð ekki í það þegar þessar kynslóðir náskyldra nágrannaþjóða taka við vopnunum úr höndum feðra sinna. Það gera þær eflaust ef ekki tekst að leysa Palestínuvandann fyrir botni Miðjarðarhafs. “

Það má vel vera að þetta séu ,,hermenn framtíðarinnar.” Við skulum nú samt vona að þeir þurfi ekki að berjast jafn blóðugum bardögum og hingað til hefur verið barist. Hins vegar stefnir í að þeir þurfi þess. Af hverju? Jú, af því að á landi Palestínu er verið að þjálfa jafnaldra þeirra til að berjast til síðasta blóðdropa. Þar er börnum kennt að bera vopn, þar er þeim kennt að með því að drepa Gyðing komist þeir inn í eilífðina þar sem allt er fullkomið. Haft er eftir Jónínu í Kastljósviðtalinu að þeir sem ,,láti hafa sig út í sjálfsmorðsárásir” séu ,,andlegir eftirbátar alls þessa” og vísar þar í meinta meðferð Ísraelsmanna á Palestínumönnum og eftirmálum þess.

Kannski sá Jónína ekki það sem myndirnar hér við hlið þessa texta sýna. Kannski sá hún ekki þegar Fatah, Hamas og Hizbollah hreyfingin afhenti fjölskyldum þeirra sem framið hafa sjálfsmorðsárásir smápeninga. Það kannski skiptir heldur ekki máli. Myndirnar sem hér sjást til hliðar sýna aðeins brot af þessu.

Hér er síða sem fjallar um hvernig Palestínumenn nota börnin sín í vopnaðri baráttu og hér er brot af síðu sem sýnir vídeómyndir af palestínskum börnum og unglingum talandi um hvað það sé frábært að fórna sér fyrir málstaðinn. Að sjálfsögðu er þetta mjög sorglegt en hins vegar er þetta staðreynd málsins.

En er ástandið að batna. Já, það held ég. Nú þegar ,,faðir hryðjuverkanna” Arafat, féll frá gafst loksins tækifæri til að byrja friðarviðræður af alvöru. Allt stefnir í að hlutirnir séu að stefna í rétta átt þó svo að langt sé í að þarna verði langvarandi friður. Til að það verði friður þurfa báðir aðilar að leggja niður vopn og gera málamiðlun. Þeir þurfa að virða tilverurétt hvors annars og borgararnir þurfa að sýna gagnkvæma virðingu. Það að íslenskir alþingismenn leggi land undir fót skv. skipulagi Ísland - Palestínu til þess eins að sjá hvað annar aðilinn er slæmur og hinn góður færir okkur ekkert nær friði. Sjaldan veldur einn þá er tveir deila.

Gísli Freyr Valdórsson


« Fyrri síða

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband