Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2004

86 ára ártíð íslenzks fullveldis

Um þessar mundir fögnum við Íslendingar 86 ára ártíð íslenzks fullveldis. Með sambandslögunum, sem tóku gildi þann 1. desember árið 1918, var Ísland loksins viðurkennt sem frjálst og fullvalda ríki. Þetta var einkum ávöxtur áratuga baráttu Íslendinga fyrir aukinni sjálfstjórn. Aðstæður voru og þjóðinni afar hagstæðar árið 1918. Fyrri heimstyrjöldin 1914-1918 hafði m.a. haft það í för með sér að nokkuð los hafði komið á tengsl Íslands við Danmörku. Hugmyndir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða fengu ennfremur ríkari hljómgrunn í lok styrjaldarinnar og töldu dönsk stjórnvöld sig í betri stöðu til að endurheimta hluta af hertogadæminu Slésvík, sem Danir höfðu misst til Þjóðverja (Prússa) árið 1864, ef þau sýndu Íslendingum samningslipurð. Þegar sambandslögin tóku gildi hafði Ísland verið undir yfirráðum erlendra ríkja í meira en sex og hálfa öld; fyrst Norðmanna frá 1262 til 1397 og síðan Dana frá 1397 til 1918. Fyrir þann tíma höfðu Íslendingar verið sjálfstæðir í meira en 350 ár. Án efa hefur ákveðinn vonarneisti alltaf lifað með þjóðinni um að hún myndi einn dag endurheimta frelsi sitt og öðlast stjórn yfir eigin málum í þær aldir sem hún bjó við erlend yfirráð.

Það var þó ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar sem vonir þjóðarinnar fóru að glæðast um aukna sjálfstjórn. Var það fyrst og fremst fyrir ötula og ósérhlífna framgöngu margra mætra Íslendinga og fór þar fremst í flokki sjálfstæðishetja Íslendinga, Jón Sigurðsson. Með sambandslögunum varð Ísland aðeins í konungssambandi við Danmörku, en nær öll völd yfir landinu fengu Íslendingar í eigin hendur. Danir fóru þó áfram með utanríkismál í umboði íslenzkra stjórnvalda. Annað sem sambandslögin höfðu í för með sér var m.a. að Danir sáu áfram um eftirlit með fiskveiðum í landhelgi Íslands unz íslenzk stjórnvöld tækju þau mál yfir sem gerðist fáum árum síðar. Ríkisborgararéttur var aðskilinn, en ríkisborgarar beggja landa nutu eftir sem áður gagnkvæmra réttinda í báðum löndunum.

Kveðið var á um að Hæstiréttur Danmerkur skyldi áfram vera æðsta dómsvald í íslenzkum málum unz íslenzkur hæstaréttur tæki til starfa, sem varð strax árið 1920.
Að lokum var síðan gert ráð fyrir því að eftir árslok 1940 gæti þing hvorrar þjóðar krafizt þess að sambandslögin yrðu endurskoðuð. Með sambandslögunum urðu þáttaskil í langvinnri baráttu Íslendinga fyrir stjórnfrelsi. Með þeim varð fullvalda íslenzkt ríki loksins staðreynd og opnað á sambandsslit við Danmörku og stofnun sjálfstæðs ríkis innan aldarfjórðungs.

Þannig markar fullveldisdagurinn 1. desember í raun ekki síður mikilvæg tímamót í sögu okkar Íslendinga en lýðveldisdagurinn 17. júní og í raun mikilvægari. Ljóst er að langmest ávannst í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar með sambandslögunum 1. desember 1918. Má segja að lýðveldisstofnunin hafi í raun verið lokapunkturinn á því sem opnað var á með sambandslögunum.

Ég vil óska Íslendingum öllum til hamingju með íslenzkt fullveldi í 86 ár.
Það er von mín að við munum áfram öðlast gæfu til að standa vörð um fullveldi landsins svo að áfram verði hægt að halda upp á þessi mikilvægu tímamót um alla framtíð.

Heimild: Einar Laxness: Íslandssagan a-ö. Reykjavík. 1977.

Hjörtur J. Guðmundsson


Fullveldisdagurinn, drögum fána að húni

Þegar landsátakið ,,Veljum íslenskt – og allir vinna”, hófst fyrir nokkru síðan brá undirrituðum nokkuð í brún og taldi hér um gamaldags og úreltan hugsunarhátt að ræða.
En auðvitað er skárra að á þennan hátt sé hvatt til innlendrar verslunar en með tollamúrum og boðum og bönnum.
Verst er þó að hvort tveggja er enn í gangi, svo spurning er hvort þessi herferð, sem er nú studd af helstu þiggjendum ríkisstuðnings og tollaverndar hérlendis, sé ætluð til að auka stuðning við slíkt.
Hins vegar hafa auglýsingar frá landssambandi Bakarameistara í tengslum við þessa herferð verið mikið ánægjuefni. Hafa þeir í auglýsingum sínum hvatt fólk til að draga fána að húni 1. des og síðan reynt að skapa hefð fyrir sérstakri fullveldisköku.
Þó slík hefð væri að mestu byggð í kringum neyslusamfélagið sem ýmsir úthúða, væri það skemmtileg hefð ef fjölskyldur kæmu saman á þessum degi, borðuðu góða köku, hvort sem hún væri bökuð heima eða keypt í bakaríum og töluðu um gildi þessa mikilvæga dags.

Það er ljóst að einhvers staðar verða börn þessa lands að fá fræðslu um mikilvægi þessa dags, ekki virðast þau fá hana í skólum landsins. Áður fyrr var þetta þó alla vega frídagur hjá þeim en er nú víðast hvar bara venjulegur skóladagur.
Í flestum skólum landsins virðist ekki neitt vera gert í tilefni dagsins, en þannig er það ekki alls staðar og er það vel. Sérstaklega skemmtileg hefð hefur myndast að mér skilst í Laugarnesskóla í Reykjavík. Þar er á hverjum degi sérstakur morgunsöngur og hefur undirritaður verið þeirrar ánægju aðnjótandi að vera viðstaddur eitt sinn , var það í tengslum við sumarstarfa minn við upphaf skólastarfs. Sungu börnin þrjú íslensk þjóðlög, og var þemað eðlilega að þessu sinni sumarlög.
En ég heyrði að fyrir ári síðan, á fullveldisdaginn 1. desember höfðu verið sungin Þjóðsöngurinn okkar flotti, sem er vel syngjanlegur ef fólk kann kann hann, sem er í raun það sem helst vantar upp á, ásamt Öxar við ána (þingvallasöngur) og Íslands minni auk þess sem nokkur börn héldu fyrirlestur um fullveldið og baráttuna sem þjóðin átti í til að öðlast það. Á hverjum föstudegi heldur einhver bekkur alltaf einhvers konar leikþátt, eða koma fram á annan hátt, með fyrirlestrum eða einhverju slíku líkt og gert var þá. Þessi stórskemmtilega hefð er eflaust mjög þroskandi fyrir börnin, sem og þau læra um leið um sérstakt mikilvægi daga eins og Fullveldisdagsins.

Aðrir skólar mættu taka eitthvað svipað upp, sérstaklega í tengslum við álíka merkisdaga í sögu þjóðarinnar, þó leitun sé að merkilegri degi. Einnig er nauðsynlegt að skólarnir stuðli að varðveislu menningararfleiðar þjóðarinnar. Undirritaður var vanur því í sínum gamla skóla að á hverjum mánudegi í aðventu að komum við börnin saman í stigagangi skólans, og sungum jólalög og fórum með aðventukvæði þegar kveikt var á kransi skólans. Þó að ekki sé sama hefð í skóla systkina minna, er eitthvað sem betur fer gert í tilefni aðventunnar, þó það mætti vera meira.

Ein helsta stofnunin sem haldið hefur upp á daginn í dag í gegnum árin er Háskóli Íslands, þó hinn almenni stúdent taki lítinn þátt í þeim nú orðið.
Nú virðist vera sem eitthvað eigi að gera til að breyta því, með því að hafa sérstakt þema á hátíðarhöldunum, undir yfirskriftinni ,,Konur og fullveldi”.
Ekki skal hér giskað á hvort þessi nýbreytni hafi áhrif á þátttökuna en í fljótu bragði er ekki augljóst að fullveldið varði annað kynið framar hinu, fyrst og fremst ætti þetta nú að vera hátíðarhöld þjóðarinnar allrar. Hvað kemur þá næst, ,,Karlar og fullveldi”, eða verður kannski einhverri annarri stjórnmálastefnu en feminisma gerð skil í fullveldishátíðum Háskóla Íslands í framtíðinni?

En hvort sem þú lesandi góður ert karl eða kona, ungur eða gamall, ljóshærður eða dökkhærður ertu hér með hvattur til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni dagsins, hvort sem það er með því að mæta á hátíðarhöld á vegum Háskólans eða með því að setjast að snæðingi með fjölskyldu og vinum, leggur þér til munns fullveldisköku eða einfaldlega dregur fána að húni líkt og auglýsing bakarameistara leggur til, þá óskar undirritaður landsmönnum öllum til hamingju með þennan merkisdag í sögu þjóðarinnar með von um að mikilvægi hans og baráttunnar fyrir að fá að halda upp á hann gleymist þjóðinni aldrei.

Höskuldur Marselíusarson


« Fyrri síða

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband