Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 23. janúar 2006

Fyrir jól var greint frá því í fjölmiðlum að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), með Ögmund Jónasson þingflokksformann og þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í broddi fylkingar, hefði ákveðið að styrkja frjálsu félagasamtökin Mannréttindaskrifstofu Íslands um eina milljón króna fyrir þetta rekstrarár. Sú upphæð kemur vitanlega úr vasa launþega sem skyldaðir eru til að greiða til samtakanna hluta af launum sínum í hverjum mánuði. Af sama tilefni krafðist BSRB þess að ríkið tryggði rekstur félagsskaparins í framtíðinni - þ.e. með fjármunum okkar skattgreiðenda. Þann 22. desember sl. sendi ég vegna þessa svohjóðandi fyrirspurn til BSRB í gegnum heimasíðu samtakanna:

“Mig langar mjög að forvitnast um það í hvaða aðstöðu BSRB telji sig vera til að krefjast þess að skattborgarar þessa lands fjármagni rekstur frjálsra félagasamtaka á borð við Mannréttindaskrifstofu Íslands? Og í annan stað hvort það sé virkilega skoðun BSRB að frjáls félagasamtök sem starfi að mannréttindamálum á Íslandi eigi ekki að sitja við sama borð þegar kemur að styrkveitingum af opinberu fé? Hvers vegna einn slíkur aðili eigi að njóta sérstakra fyrirgreiðslna í þeim efnum að mati samtakanna?”

Skemmst er frá því að segja að ekkert svar hefur enn borizt við fyrirspurninni frá BSRB og verður að teljast afar ólíklegt að af því verði úr þessu. Og hvers vegna skyldi það vera? Það ætti varla að vera erfitt að svara jafn einfaldri fyrirspurn ef málstaður samtakanna er eins góður og þau vilja væntanlega meina. Nema svo sé einfaldlega ekki. Vinstrimenn hafa einu sinni aldrei átt í neinum vandræðum með að ráðstafa almannafé og löngum verið þeirrar skoðunar að því meira sem almenningur sé neyddur til að greiða í "sameiginlega sjóði" því betra.

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafa annars ítrekað reynt að nota þetta mál til að koma höggi á hana og rangflutt það á alla kanta í þeim tilgangi. Þeim, sem annars ekki þekkja málið, vil ég t.a.m. benda á þessa grein eftir mig þar sem það er reifað í aðalatriðum.

---

Ánægjulegar skoðanakannanir berast annars þessa dagana um stöðina í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn hefur algera yfirburðastöðu í borginni bæði skv. Skoðanakönnum vefsins Heimur.is og Fréttablaðsins. Þetta er annars ekki síður athyglisvert í ljósi þess að flokkurinn var að fá fylgi á þessu bili á meðan á prófkjöri hans stóð sl. haust. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins héldu því þá fram að þetta mikla fylgi skýrðist af prófkjörinu og öllu umstanginu í kringum það.

Nú eru hins vegar liðnir nær þrír mánuðir frá prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og enn er flokkurinn að mælast með fylgi á sama róli. Nú eru Samfylkingin og Framsókn í sviðsljósinu vegna sinna prófkjara en það hefur greinilega engin áhrif á stöðu Sjálfstæðisflokksins. Staða hans er einfaldlega gríðarlega sterk.

---

Hins vegar er meiri ljóta vitleysan í gangi í Garðabæ. Hvað er verið að halda prófkjör á annað borð ef það á ekki að virða niðurstöðuna, þ.e. vilja kjósenda? Er þá ekki allt eins gott að hafa bara uppstillingu?? Þetta er alveg fyrir neðan allar hellur. Vilja þessir sömu aðilar ekki líka að eftir að nýtt Alþingi hefur verið kosið í þingkosningum sé farið að krukka í niðurstöðunum til að fullnægja einhverri pólitískri rétthugsun? Einhverjum kvótum?? Fólk er fyrst og síðast einstaklingar og það á að kjósa í prófkjörum og kosningum á þeim forsendum en ekki hvers kyns það er.

---

Annars mun á morgun vera ár síðan ég skrifaði fyrsta Mánudagspóstinn en það var 24. janúar í fyrra. Þeir eru nú orðnir 52 talsins síðan þá.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband