Leita í fréttum mbl.is

Einkavæðum bókasöfn - II. hluti

Í framhaldi af því sem hér hefur áður verið skrifað um einkavæðingu bókasafna fara hér nokkrar tillögur þeirra sem aðhyllast frjálsan markað og lágmarks fyrirækjarekstur hins opinbera:

Einkavæðing bókasafna myndi létta byrði af hinum almenna skattgreiðenda. Eins og áður sagði þá eru ekki allir sem nota bókasöfn og ættu því ekki að þurfa að greiða fyrir þau.

Einkavæðing bókasafnanna myndi leysa úr læðingi kraft og sköpunargáfu þeirra sem hvað mest vilja sjá bókasöfn opin í samfélaginu. Mannvinir og viðskiptamenn myndu styrkja bókasöfn. Hægt væri að halda söfnun á vegum Félags áhugamanna um bókasöfn og lestur eða eitthvað slíkt. Sjálfboðaliðar gætu leyst af starfsfólk. Nemendur gætu fengið þjalfun með því að vinna á bókasöfnun í samstarfi við skólana. Bókasöfnin gætu rukkað bækurnar á mismunandi hátt, eftir því hversu lengi bókin er leigð, hvort hún sé ný eða gömul og svo frv. Sum bókasöfn myndu kannski loka og selja öðrum eigur sínar. En það er hvort eð er enginn tilgangur að reka þau ef þau bera sig ekki sjálf.

Til að byrja með gætu sveitafélögin átt bókasöfnin en leigt alveg út reksturinn. Það gæti verið fyrsta skrefið í einkavæðingu.

Vinstri menn sem yfirleitt eru á móti einkavæðinu myndu spyrja á eftirfarandi hátt:

Myndu bókasöfnin þá ekki bara loka?
Jú það má vel vera að einhver þeirra loki. En til hvers ættu skattgreiðendur að borga undir eitthvað sem er ekki að bera sig? Tökum Reykjavík sem dæmi. Ef eftirspurn er eftir sjö bókasöfnum og bókabíl þá hefði skynsamur rekstaraðili enga ástæðu til að loka neinu safnanna.

Er þá ekki orðið of dýrt fyrir hinn almenna mann að nota bókasöfn?
Nei, ekki endilega. Bókasafnskort kostar nú 1.200kr á ári. Það er greinilegt að það er langt undir markaðsverði og það eru skattgreiðendur sem borga fyrir þá sem nota söfnin. Fólk þyrfti einfaldlega að sníða sér stakk eftir vexti og gera áætlun um útgjöld sín. Hver fjölskylda þyrfti ekki að kaupa nema eitt kort. Þó að það kostaði kannski fimm til tíu þúsund á ári. Þá veitir það aðgang að gífurlega miklu magni af upplýsingum sem gætu komið sér vel fyrir alla fjölskylduna. Hvað kostar Stöð 2 á ári? Þetta er einfaldlega spurningin um að velja og hafna.

Ef að einkaaðilar ættu bókasöfnin þá hefðu þeir enga ástæðu til að okra á viðskipavinum sínum. Það væri þeirra hagur að fá sem flesta viðskiptavini. Að sama skapi gætu grunnskólar gert samstarfssamning við bókasöfnin um að nemendur þeirra fái einhvers konar aðgang að bókasöfnunum og þannig læri þau að nota þau. Þar með eru bókasöfnin að kynnast hugsanlegum framtíðarviðskiptavinum.

Svo er auðvitað spurning um samkeppni á þessum markaði. Það gæti hver sem er opnað bókasafn telji hann sig hafa til þess bolmagn.

Einkarekstur bókasafna hefur reynst mjög vel t.a.m. í Kaliforníu. Þar eru bóksöfnin í eigu hins opinbera en eru rekin af einkaaðilum. Þeir rekstaraðilar hafa sérhæft sig í rekstri bókasafna og sinna þeim á fleiri stöðum. Þeir hafa gert samning við lögfræðifyrirtæki um innheimtingu sekta og þjónustusamninga við verktaka um viðhald á húsnæði bókasafnanna og þess háttar.

Það er ekkert sem kallar á afskipti hins opinbera af bókasöfnum. Þau ættu að vera einkarekin og síðan seld einkaaðilum.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband