Leita í fréttum mbl.is

Allt í kalda koli á evrusvæðinu

Formaður Evrópusamtakanna hótaði okkur Íslendingum miklum efnahagserfiðleikum og verri lífskjörum á síðum Morgunblaðsins fyrir skemmstu ef við köstuðum ekki íslenzku krónunni og tækjum upp evruna. Jafnframt fullyrti hann að allt yrði svo miklu betra hér á landi ef við afsöluðum okkur fullveldi okkar og yfirráðum yfir eigin málum og gengjum í Evrópusambandið.

Þeir sem til þekkja vita hins vegar að þessi sami hræðsluáróður hefur heyrzt frá íslenzkum Evrópusambandssinnum í fjölda ára – auðvitað án þess að hafa nokkurn tímann gengið eftir. Þvert á móti hefur Ísland ítrekað verið að koma miklu sterkar út úr alþjóðlegum úttektum á árangri ríkja á undanförnum árum en svo að segja öll aðildarríki Evrópusambandsins og í sumum tilfellum öll þeirra. Og það sem meira er þá er ekkert sem bendir til annars en að svo verði áfram. Á móti er útlitið vægast sagt dökkt fyrir Evrópusambandið og þó einkum og sér í lagi evrusvæðið.

“European meltdown?”
Staðreyndin er nefnilega sú að evrusvæðið hefur verið að reynast afskaplega illa síðan evran var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill í byrjun árs 2002. Annar stærsti banki heimsins, HSBC í London, gaf út skýrslu nú í sumar sem bar nafnið “European meltdown?” þar sem m.a. kom fram að reynslan af evrusvæðinu væri svo slæm að það gæti verið sumum af aðildarríkjum þess í hag að yfirgefa það og taka upp sína fyrri sjálfstæðu gjaldmiðla á ný. Nefndi bankinn sérstaklega Þýzkaland, Ítalíu og Holland til sögunnar sem hafi beinlínis beðið mikinn skaða af upptöku evrunnar.

Það sem einkum veldur þessu að sögn HSBC bankans er miðstýring Seðlabanka Evrópusambandsins á stýrivöxtum innan evrusvæðisins sem hafi gert aðildarríkjunum gríðarlega erfitt fyrir að hafa eðlilega stjórn á efnahagslífi sínu. Bankinn segir ennfremur að hættan á því að evrusvæðið liðist hreinlega í sundur sé komin á það stig að það sé nauðsynlegt fyrir aðildarríki þess að velta því alvarlega fyrir sér að segja skilið við það. Og fleiri hafa talað á sömu nótum s.s. bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley og nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði Milton Friedman.

Hörð gagnrýni frá OECD
Að mati OECD er útlit fyrir að hagvöxtur í aðildarríkjum evrusvæðisins – sem er sáralítill fyrir – muni dragast saman um helming á næstu tveimur áratugum ef ekki verði gerðar róttækar breytingar á efnahagsmálum svæðisins. Fram kom í umfjöllunum fjölmiðla af málinu að stofnunin væri sífellt að verða gagnrýnni á frammistöðu evrulandanna í efnahagsmálum.

Evrópusambandið samþykkti sérstaka áætlun árið 2000 sem m.a. var ætlað að stuðla að þessum umbótum og átti sambandið samkvæmt henni að verða upplýstasta, öflugasta og samkeppnishæfasta efnahagssvæði í heiminum árið 2010. Flestir eru hins vegar sammála um að Evrópusambandið sé lengra frá þessu markmiði í dag en það var þegar áætlunin var samþykkt og að útilokað sé að það náist á tilsettum tíma.

Nú síðast var greint frá því í Financial Times að hvorki sé útlit fyrir mikinn hagvöxt á evrusvæðinu í nánustu framtíð né vaxtastig sem geti laðað að fjárfesta auk þess sem miklar efasemdir séu uppi um að Evrópusambandið geti komið á nauðsynlegum efnahagsumbótum til að koma evrusvæðinu á réttan kjöl.

Fjöldaatvinnuleysi
Og svona mætti lengi halda áfram um slæmt ástand evrusvæðisins en ég læt nægja að fjalla að lokum um nokkur meginatriði. Meðalatvinnuleysi innan evrusvæðisins er í kringum 10% og hefur verið lengi. Á sama tíma standa þau aðildarríki Evrópusambandsins í Vestur-Evrópu sem ekki hafa tekið upp evruna, Svíþjóð, Bretland og Danmörk, miklu betur að vígi í efnahagsmálum en evrulöndin.

Hagsveiflur aðildarríkja evrusvæðisins hafa ekki samlagast eins og til stóð sem hefur þýtt að miðstýrðir stýrivextir þess henta í raun engu þeirra. Og þó hagsveiflur aðildarríkja evrusvæðisins séu ólíkar er munurinn á hagsveiflum hér á landi og þar miklu meiri. Verðlag innan svæðisins hefur heldur ekki samlagast þrátt fyrir að kennismiðir Evrópusambandsins hafi lofað öðru heldur hefur munurinn þar á þvert á móti aukizt.

Meira en 90%
Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var af Gallup á meðal neytenda í aðildarríkjum evrusvæðisins og birt í marz sl. í brezka blaðinu Telegraph sögðust meira en 90% aðspurðra vera þeirrar skoðunar að upptaka evrunnar hefði hækkað verðlag þvert á gefin loforð. Að auki má nefna að samkvæmt könnun sem gerð var fyrir þýzka blaðið Stern í ágúst sl. vilja 56% Þjóðverja að Þýzkaland segi skilið við evrusvæðið og taki upp þýzka markið á ný.

Í ljósi þessa alls er því varla að furða að mikill meirihluti Íslendinga sé á móti því að skipta íslenzku krónunni út fyrir evruna og hafi verið nú um árabil samkvæmt skoðanakönnunum. Þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar er varla skrítið að fólk spyrji sig: Hver vill eiginlega verða hluti af þessu?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birtist áður í Morgunblaðinu 15. nóvember 2005)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband