Leita í fréttum mbl.is

Til hvers erum við að eyða peningum skattborgaranna í þessa vitleysu?

Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins spyr þessara stóru spurningar á vef sínum þegar fjallað er um stofnun sædýrasafns á Íslandi. Hann er reyndar ekki að spyrja til hvers við erum að eyða skattpeningum í slíkt verkefni eins og maður kannski var að vona heldur er hann að gagnrýna stjórnvöld og skilur ekkert í því að við skulum eyða skattpeningum í að halda ,,eintómum fíflum,” svo að notuð séu hans eigin orð, uppi.

En nú er Magnús Þór duglegur við að tjá skoðanir sínar á heimasíðu sinni.
Í fyrradag skrifar hann og skammast út í ríkisstjórnina fyrir að traðka á Alþingi – hvorki meira né minna. Og hvernig er ríkisstjórnin að traðka á þinginu, jú, hún hefur ,,ekkert” gert í þingsályktunartillögu sem liggur fyrir um stofnun sædýrasafns annað en að stofna vinnuhóp fimm manna frá fimm ráðuneytum. Það eitt að maðurinn biðji um sædýrasafn á kostnað skattgreiðenda gerir hann ekki að slæmum þingmanni, meira en helmingur af þingmönnum telur að hið opinbera eigi að gera hitt og þetta fyrir það fjármagn sem til er (og jafnvel það fjármagn sem ekki er til).

Og í gær skrifar Magnús Þór um setu sína í félagsmálanefnd Alþingis. Þar fjallar Magnús ekki aðeins um það hversu marga styrkumsóknir nefndin fær heldur sér hann líka ástæðu til að skammast út í bankastjóra einkabankanna og sömuleiðis fjármálaráðherra, svona eins og það sé þeim öllum að kenna að félagsmálanefnd hafi ekki fengið úthlutað ,,nægu" fjármagni í ár. Þetta er alveg týpisk vinnubrögð þingmannsins. Hann virðist hafa tekið það mjög mikið inn á sig að geta ekki sinnt öllu fyrirspurnum nefndarinnar og tekur út reiði sína  á fyrrnefndum aðilum. Þannig skrifar Magnús, ,,Listinn er langur og þörfin mikil. Við fáum umsóknir í hendur og köllum fulltrúa þessara samtaka á stutta viðtalsfundi til okkar. Síðan eigum við að gera tillögur um hvernig skipta eigi því fé sem er til umráða á milli þessara félagasamtaka. Svona fundur var í félagsmálanefnd á þriðjudag og hann hefur verið að brjótast um í kollinum á mér alla vikuna.”

Samkvæmt því sem Magnús skrifa á heimasíðu sína var beðið 185,4 milljónir frá nefndinn í ár. Hins vegar gerðu fjárlögin ekki ráð fyrir nema 67,1 milljónum í þennan lið. Gott og vel.

Magnús notar þessar umsóknir til að reyna að útskýra fátækt og misrétta (eins og það sé sami hluturinn). Hann segir í grein sinni, ,,Á sama tíma og svona félagasamtök sem öll eru að gera mjög góða hluti, og oft á tíðum að sinna forvarnarstarfi sem sparar ríkissjóði mikið fé, þá fréttum við af bankastjórunum með kaupréttarsamningana sína. Blöðin eru oftar en ekki full af smeðjulegum viðtölum við nýríkt lið sem virðist ekki eiga aura sinna tal. Ríkisstjórnin gerir sitt besta til að hlaða undir þetta fólk með skattalækkunum sem koma því til góða. Mér ofbýður misréttið í þessu þjóðfélagi, og á fundinum nú í vikunni gekk gersamlega fram af mér. ”

Magnús fellur þarna í gryfja sem vinstrimenn falla gjarnan í. Hann telur að einn sé fátækur af því að annar sé ríkur. Tengir saman fátækt og misrétti sem er tvennt ólíkt.

Í fyrsta lagi. Skattalækkanir eru ekki til að ,,hlaða undir hina nýríku” eða ,,þetta fólk” sem Magnús virðist fyrirlíta. Skattalækkanir eru góðar fyrir allan sem á annað borð greiða skatt en Magnús og aðrir vinstrimenn hafa iðulega sett sig upp á móti slíkum skattalækknum.
Það er ljóst að Magnús Þór fyrirlítur þá sem eignast hafa pening í lífinu. Hann heldur líka að öll lífsins vandamál leysist með því einu að skattpína þá ríku enn frekar. Þess vegna hefur Magnús stutt þingmál Vinstri-Grænna um að hækka fjármagnstekjuskatt upp í 18%. Hann segir það ekki snúast um sósíalisma (sem vinstri menn eru alltaf að reyna að þvo sér af) heldur réttlæti. Já, Magnús Þór veit nefninlega manna best hvað er réttlátt. Það eru einmitt þannig menn sem við þurfum á Alþingi.

Í öðru lagi. Magnúsi finnst leiðinlegt að ríkissjóður eigi ekki fyrir því sem honum langar til að ráðstafa úr nefndinni sinni. Ekki dettur honum í hug að það þurfi að spara á öðrum sviðum stjórnsýslunnar til að eiga fyrir því sem honum finnst að þurfi að útdeila. Hann frekar skammast út í þá sem eiga pening og vill hirða hann af þeim mönnum sem fyrst. Þið munið: Réttlæti. Það er fyndið að þeir sem skammast sín hvað mest fyrir sósíalisma eru sósíalistarnir sjálfir.

Á sama tíma finnst honum ekkert mál að mæla fyrir aukunum útgjöldum ríkisstjóðs á öðrum sviðum t.a.m. með byggingu sædýrafns. En það er hinum ,,nýríku” að kenna að félagsmálanefnd á ekki nægan pening. - Einmitt

Í þriðja lagi. Magnús segir í skrifum sínum, ,,En ég á svo sem ekki von á því að ríkisstjórnarmeirihlutinn hleypi þessum málum í gegn. Er hægt að búast við því þegar við sitjum til að mynda uppi með fjármálaráðherra sem með peningabraski ku hafa sópað til sín tæpum 50 milljónum rétt áður en hann tók við því embætti, með því að selja stofnfjárhlut sinn í Sparisjóði Hafnarfjarðar?

Það saka ráðherra um peningabrask er engin smá ásökun. En Magnús Þór er líklega yfir það hafinn að þurfa að útskýra mál sitt eitthvað frekar. Hann hefur allavega sjaldnast gert það hingað til.

Magnús lýkur fyrri grein sinni á þessum orðum:
,,En hvað gerist svo? Jú, þessir sömu ráðherrar stinga bara fyrirmælum Alþingis ofan í næstu ruslakörfu. Og komast upp með það. Til hvers erum við að eyða peningum skattborgaranna í þessa vitleysu? Er ekki bara réttast að loka sjoppunni og senda þingið heim?

Þetta er líklegast það gáfulegasta sem hefur komið frá þingmanninum.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband