Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 10. október 2005

Niðurstöður síðustu skoðanakönnunar Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna voru einkar ánægjulegar. Sjálfstæðisflokkurinn mældist þar með 44% fylgi og hafði þá farið upp um heil átta prósetustig frá því mánuði áður. Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um það hverju þetta sætti og margir viljað tengja það við breytingar á forystu flokksins. En hvað sem þessu veldur eru þetta ánægjulegar fréttir og verður fróðlegt að fylgjast með næstu könnunum.

En það er annað sem vakti ekki síður athygli í þessari skoðanakönnun en góður árangur Sjálfstæðisflokksins. Fylgi Samfylkingarinnar heldur nefnilega áfram að minnka eins og raunin hefur verið frá því í vor þegar formannsskipti urðu í flokknum og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við taumunum. Mér skilst að ástæða þess að skipt var um manneskju í brúnni hafi verið óánægja margra flokksmanna með fylgi Samfylkingarinnar.

Samfylkingin ætlaði sér að verða stærsti stjórnmálaflokkur landsins eftir síðustu alþingiskosningar sem kunnugt er en það gekk ekki eftir frekar en önnur markmið hennar fyrir kosningarnar. Flokkurinn fékk þá aðeins 31% fylgi og náði því ekki þeim 35 prósenta múr sem talað var um að ná þyrfti. Sá múr var reyndar færður niður í 30% rétt fyrir kosningarnar þegar sýnt þótti að Samfylkingin myndi ekki standa undir þeir væntingum að komast yfir 35 prósentin.

Um það leyti er Ingibjörg Sólrún tók við sem formaður Samfylkingarinnar í maí sl. mældist fylgi flokksins 34%, í júní mældist það 33%, í júlí 32% og í ágúst var það svo komið niður í 30%. Í síðustu skoðanakönnun Gallup fyrir september var fylgi flokksins svo aðeins 29% og verður því fróðlegt að fylgjast með því hvernig næstu kannanir verða í þessu sambandi líka. Ef fylgið heldur áfram að lækka – og jafnvel þó það stæði bara í stað á þessum slóðum – hljóta menn að spyrja sig að því hvers vegna þeir hafi eiginlega verið að skipta um foringja í flokknum?

Ekki veit ég nákvæmlega frekar en aðrir hvers vegna fylgi Samfylkingarinnar hefur stöðugt farið lækkandi undanfarna mánuði en það er engu að síður nokkuð ljóst að Ingibjörg Sólrún hefur ekki beint verið að slá í gegn þann tíma sem liðinn er síðan hún var kjörin formaður flokksins. Hún hefur gert hvert axarskaftið á fætur öðru og má þar m.a. nefna algerlega misheppnaða og tilefnislausa gagnrýni á það hvernig staðið var að sölu Landssímans nú í sumar.

Ingibjörg Sólrún hefur komið manni fyrir sjónir sem ráðvilltur og örvæntingarfullur stjórnmálamaður síðan hún tók við taumunum í Samfylkingunni og skyldi engan undra. Ég var persónulega mjög ánægður með það að hún skyldi verða kosin sem formaður flokksins enda er ég sannfærður um að hún sé að mestu útbrunnin sem stjórnmálamaður og standi engan veginn undir þeim vætningum sem gerðar eru til hennar. Fyrir utan það að Samfylkingin með hana sem formann er langtum ólíklegri til að verða aðili að ríkisstjórn en ella.

Síðasta útspil Ingibjargar og Samfylkingarinnar er dæmigert fyrir þá örvæntingu sem virðist fara vaxandi innan flokksins, þ.e. að lýsa því yfir að Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Hver vill ganga í Evrópusambandið núna eins og staðan er þar innanborðs bæði pólitískt og efnahagslega og bara að öllu leyti??? Það er allt í bullandi krísu þarna sem enginn sér fyrir endann á. Sennilega verstu krísu sem sambandið hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir.

Og evran? Evran er gangandi lík ef marka má sífellt fleiri virta aðila í alþjóðlega fjármálageiranum. Ber þar einkum að nefna annan stærsta banka heimsins, HSBC í London. Bendi að öðru leyti á nýlega grein eftir mig hér á Íhaldinu sem ég reit fyrir skemmstu um evruna og slæma stöðu hennar. Rétt er þó að geta þess að þar var aðeins stiklað á því helzta í því sambandi og er engan veginn um tæmandi yfirlit að ræða um það svartnætti sem evran er stödd í og raunar verið meira eða minna stödd í síðan hún var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill í byrjun árs 2002.

Og Samfylkingin ætlar víst að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi á næstunni um að kannaðir verði kostir og gallar þess að taka upp evruna hér á landi. Bíddu, starfrækir forsætisráðuneytið ekki sérstaka nefnd um Evrópumálin þar sem Samfylkingin hefur sína fulltrúa? Hvers vegna leggur flokkurinn þá ekki fram þessa tillögu í þeirri nefnd sem sérstaklega var sett á laggirnar til að kanna þetta mál og hefur kannski nú þegar gert það?

Annars er Samfylkingunni meira en frjálst mín vegna að óska eftir því, hvort sem það er á Alþingi eða annars staðar, að kannaðir verði kostir og gallar þess fyrir Ísland að taka upp evruna. Engar líkur geta talizt á að niðurstaða slíkrar athugunar yrðu Ingibjörgu Sólrúnu og co. að skapi sé faglega og eðlilega að því verki staðið.

Eins og áður segir er ekki nóg með að evrusvæðið sé á góðri leið með að verða ein rjúkandi rúst heldur liggur fyrir að upptaka hennar hér á landi myndi engan veginn henta íslenzku efnahagslífi. Auk þess sem evran verður ekki tekin upp hér á landi nema samhliða aðild að Evrópusambandinu með öllum þeim ókostum sem slíkur gjörningur myndi hafa í för með sér fyrir Ísland.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband