Leita í fréttum mbl.is

Fólskuleg vinnubrögð núverandi stjórnar Heimdallar

Aldrei datt mér í hug að ég þyrfti að skrifa á vefrit þetta gegn mínum eigin flokksmeðlimum. Hins vegar er ekki hjá því komist um þessar mundir þar sem manni blöskrar vinnubrögð núverandi stjórnar Heimdallar. Það er einmitt sama stjórn og sakaði fyrrverandi stjórnarmeðlimi um ólýðræðisleg vinnubrögð og um að halda Heimdalli í hópi fámennrar klíku eins og Bolli Thoroddsen núverndi formaður orðaði það fyrir ári síðan. Bolli hélt því fram að Heimdalli væri stjórnað að fámennri klíku og enginn annar kæmist að. Rétt er þó að taka fram að rúmlega 900 manns mættu á síðasta aðalfund til að kjósa stjórn. Fámenn klíka það.

Að sjálfsögðu voru ásaknir Bolla og yfirmanna hans tilefnislausar til þess eins að koma nafni sínu á blað og gera aðra tortryggilega. Sjálfur hef ég góða reynslu af því hversu opið starf Heimdallar var áður ólíkt því sem Bolli og félagar hans halda fram. Fyrir landsþing SUS árið 2001 í Borgarnesi sótti ég um aðgang að þinginu. Magnús Þór Gylfason sem þá var formaður sendi mér tölvupóst (án þess að þekkja mig neitt) og tilkynnti mér að ég gæti farið sem einn af 150 fulltrúum Heimdallar. Á þinginu sjálfu tók ég þátt í málefnstarfi eins og allir aðrir og hafði gaman af. Í rúmlega tvö ár hef ég verið virkur meðlimur í starfi SUS og Heimdallar. Þar sem lítið hefur verið um starfsemi Heimdallar s.l. vetur hefur maður beitt kröftum sínum í starfi SUS í staðinn.

Aldrei hefur mér fundist neitt annað en að ég og allir þeir sem áhuga hafa séu velkomnir í starf ungra sjálfstæðismanna. Þó svo að oft sé tekist á um hugmyndir og málefni er það gert á málefnalegan hátt og að lokum er komist að niðurstöðu sem SUS síðan fylgir eftir. Eins og þeir vita sem fylgst hafa með málum ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur stjórn Heimdallar gert sig seka um lygi og ólýðræðisleg vinnubrögð. Núverandi stjórn Heimdallar (eða öllu heldur þeir sem hafa stjórn félagsins í vasanum) hafa meinað fjölmörgum virkum þátttakendum í starfi ungra sjálfstæðismanna aðgang að landsþingi SUS sem halda á um n.k. mánaðarmót. Um er að ræða fjölda fyrrverandi stjórnarmeðlima, núverandi varastjórnarmeðlimi í SUS og aðra virka þáttakendur í starfi ungliðahreyfingarinnar, þ.m.t. mig sjálfan.

Ekki er það þó svo að ég hafi fengið neitun frá Heimdalli um aðgang að þinginu heldur hefur núverandi stjórn Heimdallar haldið aftur upplýsingum um þingfulltrúa sína. Þeir hafa ekki séð sóma sinn í því að tilkynna umsækjendum um stöðu sína. Núna er vika í þing og enn hefur ekkert svar borist. Ekki veit ég hvernig fólk á að panta sér hótelgistingu á Stykkishólmi, gera ráðstafnir gegnvart vinnu, námi eða fjölskyldu til að vera burtu heila helgi ef ekkert svar berst frá stjórn félagsins um hvort að menn fá að fara eða ekki. Að sjálfsögðu er þetta allt saman mjög skrýtið en virðist bera þann vott að stjórn Heimdallar hafi valið þingfulltrúa sína áður en umsóknarfrestur var úti. Hvernig þeir völdu veit enginn þar sem það er leyndarmál stjórnarinnar.

Þrátt fyrir þetta dirfist Bolli Thoroddsen (sá sem ,,opna” vildi Heimdall á sínum tíma þó ekki hafi félagið verið lokað) að segja í fjölmiðlum að það sem ráðið hafi vali á fulltrúum Heimdallar til þingsins sé m.a. virkni í starfi og að horft hafi verið til fyrrverandi forystumanna félagsins. Eins og hér sést er þetta ekki satt.

Vefritið Íhald.is var hóf greinarskrif fyrir tæplega ári síðan eða í byrjun október 2004. Eins og segir í lýsingu á vefritinu er tilgangur vefritsin sað ,,stuðla að og taka þátt í frjálsri og opinberri umræðu um ýmis málefni.” Pistlahöfundar vefritsins hafa fundið samhljóm í ýmsum hægrisinnuðum vefritum og að sjálfsögðu í Sjálfstæðiflokknum enda allir sjálfstæðismenn.

Á því hefur nú orðið breyting ef ég tala fyrir sjálfan mig. Ástæða þess að ég hóf afskipti af stjórnmálum er sú að ég ber hag þjóðarinnar fyrir brjósti og tel að með þeim stjórnmálarökum sem ég hef haldið uppi hér á vefritinu ásamt reglulegum pistlum á sus.is sé henni fyrir bestu. Að sjálfsögðu er eru ekki allir sammála því að íhaldssemi og frjálshyggja séu þjóðinni og þjóðarhagnum fyrir bestu og ber mér að sjálfsögðu að virða það. Ég geri þó þá kröfu að menn takist á á málefnalegan hátt en beiti ekki fólskubrögðum og blekkingum. Maður hefði þó búist við átökum frá öðrum flokkum um málefni áður en maður gerði ráð fyrir fúskhætti og brellubrögðum samflokksmanna sinna.

Ég lít á Bolla Thoroddsen sem pólitískan andstæðing minn þar sem hann hefur gerst sekur um að einangra og loka starfi Heimdallar og hefur að mínu mati ekki haldið uppi þeim sjónarmiðum sem Heimdallur ætti að halda upp á hverjum degi. Það sama gildir um núverandi stjórn Heimdallar og þá sem að þessum vinnubrögðum standa.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is

Powered by Hexia


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband