Leita í fréttum mbl.is

Eignarréttur bænda gjarnan fótum troðinn

Sem kunnugt er er langmestur hluti byggilegs landsvæðis utan þéttbýlis á Íslandi í eigu bænda. Um þessi landsvæði gilda enn að mörgu leyti nokkuð forneskjulegar reglur sem eru einkum til þess fallnar að binda hendur jarðeigenda. Þessar reglur bera keim af óhóflegri forræðishyggju yfirvalda og takmarka rétt eigenda til hagnýtingar og ráðstöfunar landsins.

Á síðasta ári tóku gildi ný jarðalög, lög 81/2004. Með þeim var að nokkru aflétt þeim hömlum sem áður voru við lýði en þó hefði með réttu mátt stíga stærri skref í þá átt. Ég ætla að taka nokkur dæmi úr jarðalögum og fleiri lögum þar sem eignarrétti landeigenda eru reistar skorður.

Taka lands úr landbúnaðarnotum
Samkvæmt 5.-7. grein jarðalaga er óheimilt að taka land sem nýtt er til landbúnaðar eða nýtanlegt er til slíkrar starfsemi til annarra nota nema að fengnu sérstöku leyfi landbúnaðarráðherra. Umsókn um slíkt til ráðherra þarf að fylgja uppdráttur staðfestur af skipulagsyfirvöldum. Fari svo að landbúnaðarráðherra veiti umrætt leyfi – sem engan veginn er öruggt – öðlast leyfið fyrst gildi við þinglýsingu. Þessi áskilnaður um að leyfið öðlist fyrst gildi við þinglýsingu er nýmæli í hinum nýju lögum og því er hið nýja ákvæði jafnvel meira íþyngjandi fyrir landeiganda en ákvæði eldri laga.

Með öðrum orðum er bóndi sem vill til dæmis nýta hluta lands síns undir sumarbústaðabyggð eða aðra starfsemi sem ekki fellur undir landbúnað háður leyfi landbúnaðarráðherra og skipulagsyfirvalda til þess arna. Slíkt fyrirkomulag hlýtur að virka letjandi á framkvæmdagleði manna og ekki er í fljótu bragði sjáanleg nauðsyn þess að reisa þessar skorður við landnotkun eigenda. Hvað varðar yfirvöldin um það hvernig menn nota sínar landareignir, svo fremi að nýtingin skerði ekki hagsmuni annarra?

Takmarkanir á framsali
Með nýju jarðalögunum urðu umtalsverðar úrbætur varðandi rétt landeigenda til framsals á landinu. Eldri lög kváðu á um forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðunum og raunar var samþykki sveitarstjórnar áskilið til að sala gæti átt sér stað og einnig samþykki opinberrar nefndar sem bar heitið jarðanefnd. Meira að segja hafði sveitarstjórnin heimild til þess að krefjast þess að verð eignarinnar yrði metið af dómkvöddum mönnum ef henni þótti verðið óeðlilegt, og gilti það verð þá sem söluverð! Þannig var loku fyrir það skotið að verð eignanna réðist af framboði og eftirspurn á frjálsum markaði. Hér erum við ekki að tala um einhverja forneskju heldur lög sem giltu allt þar til á síðasta ári! Sem betur fer hefur þessu nú verið breytt með hinum nýju lögum. Raunar vildi landbúnaðarráðherra viðhalda forkaupsrétti sveitarfélaga á jörðunum en meirihluti landbúnaðarnefndar Alþingis hlutaðist til um að það ákvæði var fellt út úr frumvarpinu – góðu heilli fyrir landeigendur.

Ennþá er þó fyrir hendi forkaupsréttur ábúenda jarða, þeirra sem setið hafa jarðirnar í sjö ár eða lengur. Þeir geta líkt og sveitarfélögin gátu samkvæmt eldri lögum krafist mats dómkvaddra manna á verðinu, telji þeir verðið vera ,,bersýnilega ósanngjarnt”. Verðið samkvæmt matinu gildir þá sem söluverð. Þannig eru í vissum tilvikum enn fyrir hendi verulegar hömlur á því að verð jarðanna ráðist á frjálsum markaði þó úrbæturnar séu miklar frá eldri lögum. Þess má loks geta að 31. grein skipulags og byggingarlaga felur í sér nokkuð víðtækar forkaupsréttarheimildir sveitarfélaga.

Byggingarleyfi
Í 43. grein skipulags og byggingarlaga segir að:

,,Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.”

Ákvæði IV. kafla laganna, sem vísað er til, taka til ,,hvers kyns bygginga ofan jarðar og neðan.”

Slíkar reglur geta vissulega átt rétt á sér upp að vissu marki þegar um er að ræða öryggismál og það að mannvirkin séu nægilega trygg, meðal annars að teknu tilliti til þess að nýir eigendur mannvirkisins eiga rétt á því að það uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur um öryggi og frágang. Hins vegar má leiða að því líkur að of langt sé gengið þegar engar breytingar má gera á mannvirkjunum án sérstaks leyfis. Þá má spyrja hvaða hagsmuni verið er að vernda með því að banna mönnum að rífa niður gömul hús í dreifbýli, nema þeir hafi til þess tilskilin leyfi. Sérstök sjónarmið geta þó átt við um friðaðar byggingar sem hafa minjagildi. Rétt er að hafa í huga að byggingarleyfin eru gjaldskyld og því fellur kostnaður af skriffinskunni óhjákvæmilega á landeigendur. Auðveldara er að réttlæta hömlur sem þessar í þéttbýli vegna sjónarmiða nábýlisréttar, þó svo að þar megi vissulega einnig huga að breytingum.

Hagnýting auðlinda í eignarlöndum
Verulegar hömlur eru settar á nýtingu manna á auðlindum í eignarlöndum sínum samkvæmt auðlindalögum.

Lögin taka til nýtingar auðlinda svo sem jarðefna, jarðhita og grunnvatns. Almennt er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi ráðherra, þó allnokkrar undantekningar séu gerðar frá því í lögunum. Samkvæmt 6. grein laganna hefur landeigandi ekki einu sinni forgangsrétt að nýtingarleyfi fyrir auðlindir í landi sínu nema hann hafi fyrst sótt um leyfi til rannsókna á þeim! Réttur landeigenda til nýtingar grunnvatns og jarðhita takmarkast við ákveðið umfang og miðast að mestu við eigin afnot. Þannig eru verulegar hömlur á því að hann geti til dæmis sett á stofn hitaveitu eða vatnsveitu á eigin vegum og selt þannig öðrum orkuna. Raunar kveða lögin á um forgangsrétt sveitarfélaganna til þess arna. Þá hafa lögin að geyma eignarnáms- og bótaákvæði. Meðal annars er kveðið á um að ef samkomulag næst ekki milli landeigandans og þess aðila sem auðlindina vill nýta um endurgjald getur ráðherra tekið landið eignarnámi. Þannig er komið í veg fyrir að landeigandinn geti selt öðrum orkuna á markaðsverði þrátt fyrir að hún sé unnin af hans landgæðum.

Að lokum
Hér hefur einungis verið tæpt á nokkrum dæmum um það að eignarréttur landeigenda í dreifbýli sé skertur. Fleiri dæmi mætti að ósekju nefna, til dæmis um ýmsar aðrar hömlur sem skipulags og byggingarlög fela í sér. Það er umhugsunarefni hvort ekki megi víða stíga skref í þá átt að minnka þær takmarkanir á eignarréttinum sem áður var vikið að.

Þó ber vissulega að fagna þeim víðtæku úrbótum sem urðu með hinum nýju jarðalögum sem tóku gildi í fyrra. Þar er ekki síst fyrir að þakka meirihluta landbúnaðarnefndar sem tók af skarið í veigamiklum atriðum eins og áður er getið. Sem kunnugt er hefur verð jarða farið mjög hækkandi síðustu misserin. Ekki er ósennilegt að nefndar lagabreytingar eigi einhvern þátt í því þar sem menn hafa nú meira svigrúm til að semja um verð við sölu landareigna sinna auk þess sem söluferlið er nokkuð einfaldara. Þannig komast bændurnir nær því að hljóta réttlátt verð fyrir eignirnar.

Þorsteinn Magnússon
thorstm@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband