Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 31. janúar 2005

Róbert Marshall lét af störfum hjá Stöð 2 fyrir helgi eftir að hafa haldið því fram í fréttum stöðvarinnar að kvöldi 26. janúar sl. að Ísland hefði verið komið á lista „hinna viljugu og staðföstu þjóða“ áður en ríkisstjórnarfundur var haldinn 18. mars 2003. Hafði hann mislesið dagsetningar í tveggja ára gamalli frétt frá CNN og þar af leiðandi dregið rangar ályktanir um það hvenær stjórnvöld hefðu lýst yfir stuðningi við innrásina í Írak.
Sagðist Róbert með uppsögn sinni vilja axla ábyrgð á mistökum sínum og að ljóst væri að með áðurnefndri frétt hefði trúverðugleiki hans skaðast og að eina leiðin til að takast á við þann veruleika væri að segja starfi sínu lausu. Hann sagðist þó hafa í hyggju að gegna formennsku í Blaðamannafélagi Íslands áfram. Er það auðvitað vel að menn axli ábyrgð sína. Sumir hafa þó haldið því fram að í raun bæri Páli Magnússyni, fréttastjóra Stöðvar 2, að gera slíkt hið sama vegna ábyrgðar sinnar sem yfirmanns Róberts.

Nú gæti annars einhverjum dottið í hug að spyrja að því hvort Róbert hefði ekki verið þegar búinn að glata trúverðugleika sínum vegna framkomu hans í fjölmiðlamálinu á síðasta ári? Eins og kunnugt er fór hann þar fremur óðslega, þá einkum við að safna undirskriftum gegn fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hvatti hann þar samherja sína á völdum fjölmiðlum ekki aðeins til að hringja, djöflast og láta öllum illum látum við að safna undirskriftunum heldur einnig til að fá fólk til að skrifa undir jafnvel þótt það væri hlynnt frumvarpinu eins og greint var frá á sínum tíma í því ágæta vefriti Vefþjóðviljanum.

Á föstudaginn skilst mér síðan að Róbert hafi sagt í fréttum Stöðvar 2 að hann teldi að áfram þyrfti að ýta á ríkisstjórnina í Íraksmálunum því ekki væru öll kurl komin til grafar. Eitthvað segir manni að þarna hafi hann komið aðeins upp um sig og að í þessum orðum sé kannski að einhverju leyti að finna skýringu á flumbruganginum við gerð fréttarinnar um stuðning ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak?

---

Utanríkismálanefnd Alþingis ákvað á föstudaginn að hætta að dreifa fundargerðum til þeirra 32 einstaklinga sem hafa fengið þær hingað til. Samkvæmt fréttatilkynningu frá nefndinni er þetta gert til að tryggja sem besta meðferð trúnaðargagna en á skömmum tíma hafi tvisvar komið upp tilvik sem varði meðferð á trúnaðarupplýsingum. Er ekki laust við að maður furði sig á að fullorðnum einstaklingum sé ekki treystandi til að halda trúnað og þá ekki sízt þegar um er að ræða upplýsingar sem varða þjóðaröryggi. Þetta er að öðru leyti sambærilegt þegar stefnuræðum forsætisráðherra var lekið í fjölmiðla. Þetta er auðvitað til algerrar skammar!

Þegar stefnuræðum forsætisráðherra var lekið á sínum tíma í Stöð 2 var t.a.m. bent á það á Vefþjóðviljanum að einhvers staðar í þingsölum Alþingis sæti þingmaður sem vissi að um leið og fréttamönnum stöðvarinnar þóknaðist að opna munninn þá væri hann fokinn. Stöð 2 væri komin með sinn eigin vasaþingmann. Spurning er hvort það hafi verið umræddur vasaþingmaður sem lak upplýsingum um fundi utanríkismálanefndar í Fréttablaðið? Ég vona allavega svo sannarlega að það séu ekki margir á Alþingi með slíkt ömurlegt innræti.

---

Og fleira gerðist í vikunni. Þessi fróðlegu orð voru t.a.m. látin falla: „Þessi ríkisstjórn er búin að sitja allt of lengi. Hún er orðin löskuð og geðstirð eftir ýmis erfið mál og menn virðast ekki lengur hafa neinn áhuga á því sem þeir eru að gera.“ Þetta sagði engin önnur en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í viðtali við Fréttablaðið þann 27. janúar sl. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skiptið sem hún og fleiri kratar hafa sagt eitthvað í þessa veru, en mín spurning er hins vegar þessi: Ef þetta er skoðun Ingibjargar á ríkisstjórninni, hvað þá með R-listann? Það vill nefnilega svo skemmtilega til að hann hefur stjórnað Reykjavíkurborg ári lengur en núverandi ríkisstjórn hefur stjórnað landinu eða frá árinu 1994. Og ef ríkisstjórnin er löskuð eftir mörg erfið mál, hvað má þá segja um R-listann?

---

Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar fóru fram Í Írak í gær og var kosningaþátttakan um 60% sem er fram úr björtustu vonum. Einkum með það í huga að andstæðingar lýðræðislegrar þróunar í Írak reyndu allt til að reyna að koma í veg fyrir þær og höfðu m.a. hótað þeim dauða sem létu sjá sig á kjörstað. Þeir létu heldur ekki sitja við orðin ein og myrtu a.m.k. 44 með árásum á kjörstaði, þar af voru níu sjálfsvígstilræðismenn. Það er vonandi að þetta verði upphafið að því að það takist að koma á stöðugleika og friði í landinu.

---

Og svo er það að lokum hið verðandi evrópska sambandsríki í austri. Greint var frá því í fréttum fyrir helgi að efnahagur Evrópusambandsins væri í tómu tjóni og ekki útlit fyrir að aðildarríki sambandsins stæðu undir væntingum í þeim efnum. Hvað er nýtt? Evrópusambandið setti sér það markmið árið 2000 að verða öflugasta, upplýstasta og samkeppnishæfasta markaðssvæði heimsins árið 2010. Flestir eru þó sammála um að sambandið sé lengra frá því markmiði í dag en það var árið 2000, þ.á.m. ófáir forystumenn Evrópusambandsins sjálfs. Fyrirheitna landið?

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband