Leita í fréttum mbl.is

Hvers virði er ríkissjóður?

Næstum daglega heyrist krafa einhversstaðar að úr þjóðfélaginu um að ríkið skuli koma að hinum og þessum verkefnum og áhugamálum landsmanna. Það er því ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvaða kröfu landsmenn hafa á ,,sjóðinn” og í framhaldi af því hvaða takmörk eigi að setja þeim sem stjórna ,,sjóðinum” í hvert skipti þ.e.a.s ríkisstjórnin og yfirvöld. Hafa skal í huga að þegar er talað hér um ,,sjóðinn” er líka átt við opinbera fjármuni sveitafélaga.

En hvað ber ríkinu skylda til að borga? Hvað er svo áríðandi og nauðsynlegt að það þurfi að taka peninga af fólki til að uppfylla óskir einstakra aðila eða þrýstihópa? Hver getur ákveðið hvað á að borga og hversu mikið?

Mikið hefur verið skrifað um þessi mál síðastliðin ár og erum það við hægri menn sem höfum viljað takmarka útgjöld ríkisins til sérhagsmunahópa og áhugamanna um ýmiss málefni. Oftar en ekki þegar þessi mál eru rædd bregðast vinstri menn hinir verstu við. Þeirra fyrstu vopn eru iðulega að saka hægri menn um að vera anti-menningasinnaðir og nískir. Málefnarökin eru nú oftast ekki sterkari en það.

Það er að sjálfsögðu lýðræðislega kjörnir leiðtogar ríkis og sveitafélaga sem fara með það almannafé sem safnað er saman með ýmiss konar sköttum. En þýðir það að þeir megi fara með það eins og þeim sýnist? Það eru margir sem halda það, bæði þeir sjálfir og almennir borgarar. Mönnum finnst ekkert mál að taka peninga úr almennum sjóðum til að styrkja hitt og þetta.

Áhugamenn um hina og þessa hluti heimta að ríkið fjármagni áhugamál þeirra af því að því beri skylda til þess. Gott dæmi um þetta eru kröfur ýmsa manna um bættari samgöngur. Það er ekki nóg að gerðir hafi verið vegir út um allt land fyrir allar landsbyggðir. Að sjálfsögðu voru vegirnir ekki gerðir sérstaklega fyrir landsbyggðarfólk heldur alla landsmenn sem um þá vilja fara. Gott og vel.
En nú heyrast raddir manna sem vilja fá styttri leiðir sem ,,auðvelda” þeim sjálfum að komast á milli staða. Allt í einu er farið að tala um það sem mannréttindi að ríkið borgi göng og auðveldi samgöngur eftir fremsta magni. Þegar samgönguráðherra ákvað á sínum tíma að fresta því að senda út tilboðsgöng í jarðgöng inn á Siglufjörð varð allt vitlaust. Sveitastjórnarmenn á Siglufirði gerðu sér ferð í bæinn til að hitta þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Talað var um að nú væri verið að gera tilraun til að ,,eyða” sveitafélaginu og nú væri því öllu lokið. Sem sagt, Siglufjörður sem búinn er að vera sveitafélag langt á annað hundrað ár, leggst af og fer í eyði nema allir landsmenn gefi í púkk og splæsi á þá jarðgöngum og ekki orð um það meir...!

Menningartengd ferðaþjónusta?
Annað dæmi. Í Morgunblaðinu í dag (bls. 6) er mynd af menntamálaráðherra og formanns Sambands sveitafélaga á Austurlandi að undirrita samning sem felur í sér samstarf um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Fram kemur í greininni (og Mogginn lýgur auðvitað ekki) að framlög ríkisins á þessu ári verða 36 milljónir, 37 milljónir á næsta ári og 38 milljónir árið 2007. Rétt er að taka fram að Samband sveitafélaga á Austurlandi er samansett úr 13 sveitafélögum. Já, íbúar í Reykjavík, Hvolsvelli, Akureyri, Stykkishólmi, Ísafirði og fleiri stöðum ætla að gefa þrettán sveitafélögum á Austurlandi 111 milljónir næstu þrjú árin til að byggja upp menningu og menningartengda ferðaþjónustu. Það grátbroslega er að þetta er ekki fyrstu samningurinn sem gerður er við sveitafélög á Austurlandi heldur er þetta (skv. Mbl) í annað sinn sem slíkur samningur er gerður.

En þetta er ekki búið. Í Morgunblaðsgreininni kemur fram að með þessu styrk (bæði nú og áður) hafi ný atvinnutækifæri skapast á Austurlandi. T.d. hafi sum sveitafélögin getað ráðið til sín menningarfulltrúa.

En þetta virðist engum finnast athugunarvert. Aftur og aftur tala stjórnmálamenn og fleiri um ójafna tekjuskiptingu ríkis og sveitafélaga. Samband íslenskra sveitafélaga kvartar reglulega undan því hvað reksturinn er nú erfiður og menn eins og Steingrímur J. Sigfússon hefur gert lítið úr þeim hagvexti og kaupmáttaraukningu sem áttu hefur sér stað s.l. áratug, með því að segja að sveitafélögin líði fyrir það.
Já, að virðist vera erfitt að reka sveitafélag.
En bíðum nú aðeins við. Geta 13 sveitafélög ekki hugað að sínum eigin ,,menningarmálum” án ríkisstyrks? Hefði menning og menningartengd ferðaþjónusta lagst af ef ekki hefði til styrksins komið? Hefur austurland eitthvað minna upp á að bjóða en áður? Nei, það er ekki hlutverk ríkissjóðs að styrkja sérhagsmuni ákveðinna sveitafélaga með slíkum styrkjum. Hvernig væri ef sveitafélögin hefðu sleppt því að ráða til sín menningarfulltrúa og sparað þar með bæði launin fyrir þann aðila og þá peninga sem hann væri vís með að eyða. Ef að þrettán sveitafélög vilja bjóða upp á menningartengda ferðaþjónustu verða þau bara að finna leiðir og sameinast um það sjálf hvernig þau vilja haga því. M.ö.o. sníða sér stakk eftir vexti. Það er held ég það erfiðasta sem sveitastjórnarmenn gera í dag. Það er líklega erfiðara en að reka sveitafélag.

Nú eru 111 milljónir svo sem ekkert rosalegur peningur með tilliti til þess að við erum jú rík þjóð. En hversu oft er búið að eyða 111 milljónum hér og 111 milljónir þar í ýmiss verkefni bara af því að einhver hefur verið nógu duglegur að suða. Nú hefði ég ekkert sérstaklega viljað eyða þessum 111 milljónum í eitthvað annað. Best hefði auðvitað verið að eyða þeim ekki. Nema þá til að borga niður skuldir ríkissjóðs.

Já það er nú þannig að margir halda að ríkið eigi endalaust af peningum og ef þeir geta ekki gert hlutina sjálfri þá á ríkið bara að koma þeim til hjálpar. Þetta er vægast sagt undarlegt sjónarmið.

Íþróttir og listir
Forsvarsmenn íþróttahreyfinga hafa talað um að ríkið þurfi að taka sig til og styrkja málstað með fjármagni. Ef að ríkið byggir ekki íþróttaleikvanga, sundlaugar og fleira mun íþróttin hreinlega leggjast útaf.

En þetta eru ekki einu dæmin. Sama gildir um ,,listir” og menningu. Um daginn kom Þorsteinn Guðmundsson grínisti fram í þættinum Ísland í dag ásamt Aðalsteini Á. Sigurðssyni formanni Rithöfundasambandsins.
Tekið var dæmi um rithöfund sem seldi aðeins um 300 bækur en sú nefnd sem sér um að úthluta launum fyrir rithöfunda sá samt ástæðu til að gefa honum ,,rithöfundalaun" í þrjú ár.
Gott og vel. Þegar Aðalsteinn var ynntur eftir því hvort að svona menn ættu að vera að fá rithöfundalaun var svarið, ,,já, er þetta ekki dæmi um höfund sem þarf á stuðningi að halda til þess að geta haldið áfram?” Síðan hélt hann áfram og útskýrði fyrir þeim sem ekki vita að það að vera rithöfundur væri svoldið sérstakt starf, það væri langtímastarf. Í framhaldi af því talaði Aðalsteinn um það að menn þyrftu nú nokkur ár til að verða góðir höfundar og þyrftu því þennan styrk á meðan. Ég held ég leyfi þessum orðum að dæma sig sjálf.

Þegar öllu er á botninn hvolft er nauðsynlegt að þeir sem fara með opinbert fé fari vel með það. Það er ekki þeirra hlutverk að hlaupa undir bagga með þeim sem ekki er að takast ætlunarverk sitt. Það mætti spara mikla peninga ef forsvarsmenn ríkis og sveitafélaga myndu fara betur með það fjármagn sem þeir hafa í höndunum. Það er ekki hlutverk menntamálaráðherra að sjá til þess að sveitafélög á austurlandi geti boðið upp á fyrrnefnda menningartengda ferðaþjónustu. Það er hlutverk þeirra íbúa sem þar búa. Ef þeir sjá sér hag í því að tengja ferðaþjónustu við menningu sína þá hljóta þeir að koma með aðferðir sem eru bæði hagnýtar og viðráðanlegar um að hrinda því í framkvæmd.

Aftur legg ég áherslu á að bæði sveitarstjórnarmenn og ríkisstarfsmenn sem fara með opinbert fé þurfa að sníða sér stakk eftir vexti. Ef það gengur ekki þurfa þeir einfaldlega að snúa sér að öðru.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband