Leita í fréttum mbl.is

Breytingar á Landsvirkjun – púnkteraður R-listi

Í síðustu viku undirrituðu Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í Reykjavík, viljayfirlýsingu þess efnis að íslenska ríkið muni formlega leysa til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun og fyrirtækið hlutafélagavætt í kjölfarið á komandi árum.

Um er að ræða mikil tímamót í sögu Landsvirkjunar og mikla uppstokkun á fyrirtækinu sem ber að fagna mjög, er það hárrétt skref að sveitarfélögin víki úr fyrirtækinu. Svo virðist vera sem að iðnaðarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafi skrifað undir þessa yfirlýsingu án þess að kanna til fulls bakland sitt í öllu málinu. Er ekki hægt að sjá betur en að algjört ósætti sé nú komið upp bæði innan Framsóknarflokksins og R-listans með málið og stöðu þess. Ef marka má yfirlýsingar nokkurra þingmanna Framsóknar og borgarfulltrúa VG innan R-listans er engin samstaða um yfirlýsingar ráðherra og borgarstjóra í málinu.

Eins og kannski mátti búast við ætla vinstri grænir sér að gera allt til að stöðva málið, ef marka má yfirlýsingar formanns flokksins í þingumræðu í vikunni. Það blasir við að meirihlutaaflið í borgarstjórn er tvístraður í afstöðu sinni. Er ljóst að meirihluti er í borgarstjórn við þessar tillögur, en það er þverpólitískur meirihluti. Þingflokkur VG sá ástæðu til að tjá sig sérstaklega um málið fyrir tæpri viku. Ef marka má þær yfirlýsingar er mótmælt af hálfu flokksins mjög kröftuglega öllum áformum um frekari markaðs- og einkavæðingu almannaþjónustu á sviði orkuframleiðslu og orkudreifingar. Það örlar því eins og jafnan áður á gömlum kommatóni í þessu spileríi vinstri grænna. Þeir sem fylgst hafa með vinstri grænum í orkumálaumræðu kippa sér varla mjög upp við þessa stöðu mála, enda muna flestir hvernig flokkurinn hefur talað þegar jafnan er vikið talinu að hlutafélagavæðingu orkufyrirtækja. Við hér á Akureyri þekkjum þetta vel frá þeim tímapunkti er Norðurorka var gerð að hlutafélagi fyrir þrem árum.

Nú ber svo hinsvegar við að forysta VG í þinginu og borgarstjórn er ekki samhljóma forystu VG í bæjarstjórn Akureyrar. Það er afar merkilegt að á sama tíma og Steingrímur J. Sigfússon hækkar raustina í þinginu gegn hugmyndum um breytingar á Landsvirkjun, og talar með svartagallstóni af gömlum stíl, lýsa Valgerður Bjarnadóttir bæjarfulltrúi vinstri grænna, hér í bæ, og Jón Erlendsson varabæjarfulltrúi, sem starfar nú sem bæjarfulltrúi í fjarveru Valgerðar, yfir stuðningi sínum við þessar breytingar. En allt annað blasir við á vettvangi VG í borgarstjórn, þar sem borgarfulltrúinn Björk Vilhelmsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, sem situr í borgarstjórn í fjarveru Árna Þórs Sigurðssonar og VG sem heild í borginni tjá andstöðu sína við ætlaðar breytingar. Við blasir því að óbreyttu að afar ólíklegt sé að það gerist eitthvað í þessum málum fyrr en eftir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Hefur formaður vinstri grænna og borgarfulltrúar flokksins enda talað með þeim hætti að allt skuli gera til að hindra þessa niðurstöðu mála.

Það stefnir því margt í að vinstri grænir ætli að setja R-listann í gíslingu í þessu máli og hindra framgang þess. R-listinn er auðvitað eins og allir vita margbrotinn og þetta mál ekki hið fyrsta eða eina á kjörtímabilinu sem staðfestir hversu R-listinn er tvístraður. Nægir mörgum að sjá allar borgarstjóraráðningarnar sem hafa sýnt hversu mjög þetta valdabandalag vinstri manna lafir saman með öllum áföllum í því eina markmiði sínu að Sjálfstæðisflokknum skuli ekki komið til valda. Það markmið hefur lengi verið eina límið sem heldur þessu ólíka fólki og óskyldu flokksörmum saman í einni sæng. Það er svosem vart tíðindi þegar kemur í ljós að enn einn borgarstjóri R-listans hefur ekkert bakland í málinu og hefur samið um eitthvað sem ekkert samkomulag er svo um. Það er vissulega með ólíkindum að borgarstjóri hafi ekki kynnt sér betur bakland sitt áður en samkomulagið var undirritað og gert betur grein fyrir honum. Sama má eflaust segja um iðnaðarráðherrann.

Er alveg ljóst núna af hverju ekki var hægt að skrifa undir þessa yfirlýsingu í lok nóvember eins og að var stefnt fyrir starfslok Þórólfs Árnasonar þáverandi borgarstjóra. Bakland hans, sem var brostið áður, var ekki til staðar í þessu máli. Á meðan innri látum og átökum um ýmis mál innan borgarstjórnarmeirihlutans hefur staðið er borgin eins og stjórnlaus bíll, enginn veit hvert hann stefnir nema þá til glötunar. Hvort R-listinn lafir, með nokkrum smákóngum í aftursætinu og lægsta samnefnaranum í framsætinu, til vors 2006 og býður fram í kosningum þá er svo stóra spurningin. Á meðan er R-listinn á vegferð á púnktereðum bíl. Þetta er veruleikinn sem blasir við og birtist okkur helst í átökunum um málefni Landsvirkjunar nú. Er það vissulega með ólíkindum ef innri átök í R-listanum verða til að stöðva þetta mikla framfaramál.

Stefán Friðrik Stefánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband