Leita í fréttum mbl.is

Hvalirnir éta okkur út á gaddinn

Hvað er það sem haldið hefur lífinu í íslensku þjóðinni um aldir?Sauðkindin segir eflaust einhver. Hann hefur nokkuð til síns máls en í mínum huga er það sjórinn og það sem í honum lifir sem hefur verið okkar lífsbjörg. Vissulega hefur hann tekið sinn toll en hann hefur líka gefið mikið á móti. Gull úr greipum Ægis hefur gert okkur að bjargálna þjóð. Um það verður ekki deilt. Menn geta hins vegar endalaust rifist um hvort við höfum nýtt þessa auðlind rétt.

Af hverju eru firðir landsins ekki lengur fullir af fiski, af hverju er ekki lengur vaðandi síld fyrir Norðurlandi á hverju sumri og svona mætti áfram telja. Þetta geta menn jagast um í það endalausa, án þess að nokkur geti sannað að hann hafi rétt fyrir sér. Það liggja nefnilega litlar rannsóknir fyrir um þróun fiskistofna á Íslandsmiðum í byrjun síðustu aldar.

Sem betur fer vöknuðu landsmenn upp við vondan draum, þegar þeir sáu í hendi sér að stórtæk fiskiskip útlendinga voru að þurrka upp fengsæl mið. Þá var sett landhelgi, sem tók ár og áratugi að berjast fyrir að væri virt. Það tókst að lokum og við bárum síðan gæfu til að koma stjórn á eigin veiðar. Fyrir vikið eru Íslendingar í fararbroddi í heiminum hvað varðar hóflega nýtingu á auðlindum sjávarins. Menn geta deilt um aflamark hverju sinni, en ég held að það sé hafið yfir dægurþras, að á þessu verður að vera stjórn. En það láta ekki allir að þeirri stjórn, því miður.

Það tók forfeður okkar ekki langan tíma, að átta sig á því, að lífskeðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Ein tegund lifir af annarri, þannig að ofveiði á einni tegund gat kostað hrun hjá annarri tegund. Og menn sáu það í hendi sér að þótt vargurinn væri ekki eftirsóttur í matarkistuna, þá varð að halda honum í skefjum. Annars át hann allt það sem forfeður okkar sóttust eftir.

Fyrir hverja?
Ég rifja þessar staðreyndir upp vegna þess að mér finnst fólk gleyma þessu í annríki dagsins, eða kastar þessu fyrir róða vegna áróðurs og áreitis frá þeim sem halda að við getum lifað á lofti og draumsýn.

Ég geri út skip, sem ekki er talið stórt á nútímamælikvarða, en það hefur reynst mér og mínum mannskap farsælt. Ég get ekki haldið því til veiða nema hluta úr árinu. Vegna hvers? Vegna þess að veiðiheimildir eru takmarkaðar. Ég sætti mig við þau rök sem þar liggja að baki, en ég sætti mig ekki við þá staðreynd að á sama tíma eru hvalveiðar bannaðar. Fyrir vikið stækkar hvalastofninn og stækkar stjórnlaust.

Hvalirnir éta fiskinn sem við vildum gjarnan veiða og veldur okkur þar að auki miklu tjóni við veiðarnar. Mitt skip hefur verið að veiðum síðan viku af janúar. Á þeim tíma hafa hvalavöður valdið milljóna tjóni á okkar veiðarfærum. Með það í huga veit ég að tjónið skiptir tugum ef ekki hundruðum milljóna yfir flotann allan. Þetta gengur ekki lengur.

Fyrir nokkrum áratugum voru hvalveiðar ábatasöm atvinnugrein á Íslandi. Ef við förum aftur til fyrstu áratuga síðustu aldar þá voru veiðarnar og vinnslan stóriðja þess tíma. Hvorki meira né minna. Síðan var þessu hætt vegna þess að stjórnvöld voru beygð til hlýðni af verndunarsamtökum, sem skilja ekki gang lífsins. Það mátti ekki veiða sel, hvað þá að ganga í selskinnsflíkum. Það má ekki veiða hval og nú hefur verið orðað að friða þorskinn. Á meðan sveltur stór hluti mannkynsins heilu hungri. Á hverju þrífst það fólk sem lætur svona? Lifir það á loftinu einu saman? Á hverju lifðu forfeður þeirra? Hvað veitti þeim skjól og yl?

Hræðslan ein
Ég veit að þessi svonefndu náttúruverndarsamtök eru öflug. Þetta eru ekki áhugamenn, þetta eru atvinnumenn sem svífast einskis og virðast hafa nógaf peningum. Þeir sögðust sjá til þess að enginn legði sér íslenskar afurðir til munns ef við hættum ekki hvalveiðum. Stjórnvöld létu að vilja þeirra í hræðslukasti. Loksins var ákveðið að hefja vísindalegar veiðar á hrefnu. Þá kom í ljós að þessi samtök höfðu eignast öfluga talsmenn hér innanlands. Þar fóru fyrir ferðaþjónustupáfar, sem töldu hvalaskoðunina, öfluga atvinnugrein, hrynja vegna þessara veiða. Í þeirri umræðu kom reyndar fram að þessi grein á varla bót fyrir boruna á sér. En vonandi vænkast hagur strympu, því reynslan hefur sýnt að ekki minnkaði ásókn í hvalaskoðun þrátt fyrir veiðarnar.

Það er öllum ljóst sem til þekkja að hvalastofnar hafa vaxið gífurlega á undanförnum árum, svo mjög að þeir éta margfalt það magn af fiski sem íslenski flotinn dregur úr sjó. Fari svo fram sem horfir verða kvótar og önnur stjórnun fiskveiða gersamlega tilgangslaus. Við eigum að hefja hvalveiðar strax. Annars éta hvalirnir okkur út á gaddinn.

Sverrir Leósson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband