Leita í fréttum mbl.is

Höldum í jólin!

Jólin eru gengin í garð. Undanfarnar vikur höfum við búið okkur undir hátíðina og nú fáum við enn einu sinni að njóta hennar, helst með hefðbundum hætti.

Jólahald okkar staðfestir nefnilega og sannar hve vanaföst við erum í eðli okkar og viljum endilega hafa allt í föstum skorðum. Það kemur skýrt fram í siðum og venjum einstaklinga og fjölskyldna þar sem jólamaturinn á helst að vera sá sami ár eftir ár, vandamönnum er boðið á sama tíma og í fyrra og jólaskreytingarnar heima fyrir eru með sama hætti og þær hafa alltaf verið. Þannig líður okkur best.Þess vegna er ástvinamissir, einmanaleiki, heilsubrestur og fátækt aldrei sárara en einmitt á jólum – því þá getur hátíðin ekki orðið eins og áður.

Slík íhaldssemi er sannarlega dyggð en einnig skýr vísbending um ríka þörf okkar fyrir öryggi og vissu í heimi umróts og óvissu.Það á vel við því kjarni kristinna jóla er einmitt öryggi og vissa. Allt frá því englarnir sögðu hirðunum á Betlehemsvöllum að óttast ekki, hefur gleðiboðskapurinn um velþóknun Guðs, kærleika og umhyggju í garð mannkyns breiðst út um mestallan heiminn, kynslóð eftir kynslóð.

Hér á landi hefur fæðingu frelsarans verið fagnað frá því landnám hófst. Kynslóðirnar hafa lifað og dáið, glaðst og syrgt, notið og þjáðst, en allar átt þessa kjölfestu, styrk og æðruleysi þeirra sem vita sig undir velþóknun Guðs í meðbyr og mótlæti.

Í einum fallegasta jólasálminum okkar yrkir sr. Valdimar Briem:

„Sá Guð, er ræður himni háum,
hann hvílir nú í dýrastalli lágum,
sá Guð, er öll á himins hnoss,
varð hold á jörð og býr með oss.“

Þessar andstæður eru dýpt þess boðskapar sem jólin snúast um og byggja á. Litla barnið í jötunni í Betlehem er Guð himnanna. Almáttugur Guð er orðinn ósjálfbjarga barn. Hann, sem á allt, er rúinn öllu og algjörlega háður umhyggju annarra.Þannig kemur Kristur til okkar á jólum og afstaða okkar skiptir máli, vilji okkar skiptir máli, viðbrögð okkar skipta máli. Ekki nægir að samsinna; þörf er svars í verki.Þjóðfélag okkar byggir á kristnum grundvelli eins og samfélögin í nágrannalöndunum. Á þeim grundvelli hefur mótast ábyrgðarkennd, umhyggja og samhjálp sem við viljum áreiðanlega öll varðveita og viðhalda.Engin bygging stenst ef grundvöllur hennar er fjarlægður. Það á einnig við um samfélagsbygginguna. Jólin minna okkur á að kærleiksboðskapur kristinnar trúar er veigamikill hluti af grundvelli hennar sem við vildum ekki vera án.

Höldum í hefðirnar og njótum þess að hafa allt í föstum skorðum – en gleymum ekki kjarnanum, tilefninu, fæðingu frelsarans.Látum ljós hans lýsa okkur á jólum og um alla framtíð. Verum í liði ljóssins og stuðlum að því að gleðiboðskapur kristninnar berist áfram til komandi kynslóða hér á landi – og um víða veröld.

Guð gefi okkur sannan jólafögnuð, frið í hjarta og vissu um velþóknun Guðs sem hvorki breytist né bregst, hvað sem yfir dynur.

Sr. Ólafur Jóhannsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband